06.03.1986
Sameinað þing: 56. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2989 í B-deild Alþingistíðinda. (2510)

11. mál, mat heimilisstarfa til starfsreynslu

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Ég óska eftir því að hæstv. fjmrh. sé kallaður í salinn þar sem mál þetta snertir verksvið hans í ríkisstjórninni.

Ég sé að hæstv. ráðh. er í hliðarherbergi og heyrir væntanlega mál mitt. Ég vil einnig taka það fram að mér þykir mjög miður að hæstv. fjmrh. skuli ekki geta verið viðstaddur umræðu þessa máls nú því að þegar mælt var fyrir till. lýsti hann eindregnum stuðningi sínum við hana. (Forseti: Það skal vakin athygli á því að hæstv. fjmrh. er viðstaddur og er á þessum fundi.) Ég var síðast að tala um hæstv. félmrh., ég mismælti mig.

Mönnum til upprifjunar vil ég byrja á því að segja nokkur orð um efni þessarar till. Tillögugreinin hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela fjmrh. að sjá til þess að í kjarasamningum ríkisins og BSRB verði starfsreynsla við ólaunuð heimilisstörf, hafi þau verið aðalstarf starfsmanna, framvegis metin á sama hátt og starfsreynsla hjá opinberum aðilum við ákvörðun um aldurshækkanir starfsmanna. Jafnframt verði tryggt að þeir starfsmenn sem nú falla undir kjarasamning ríkisins og BSRB njóti þessa réttar sé hann þeim ekki þegar tryggður.“

Þannig hljóðar tillögugreinin. Hér er með öðrum orðum verið að leggja til að hið opinbera sem atvinnurekandi meti einhvers þau ólaunuðu störf sem unnin eru á heimilum landsins og sýni þannig í verki vilja sinn gagnvart þeim sem heimavinnandi eru.

Till. tekur til starfsendurmats að því leytinu til að í henni er lagt til að heimilisstörf verði metin sem önnur störf og að þeir eða réttara sagt þær sem þau vinna njóti þeirra í launum ef þær ráða sig til starfa hjá hinu opinbera.

Í öðru lagi er till. liður í því að meta starfsævi þeirra, sem í hlut eiga, í heild. Þ.e. sá hluti starfsævi heimavinnandi sem varið er til heimilisstarfa er metinn engu síður en sá hluti starfsævinnar sem varið er úti á vinnumarkaðnum. Það er ein af mörgum ástæðum fyrir lágum launum kvenna að starfsævi þeirra er að jafnaði styttri en starfsævi karla vegna þess að þær eru bundnar börnum og búi einhvern hluta ævinnar.

Till. er því í rauninni tvíþætt. Annars vegar felur hún í sér að heimilisstörf eru metin eins og hvert annað starf, hins vegar að starfsævi þeirra sem um ræðir er metin í heild en ekki aðeins hluti hennar eins og nú er. Fæstum virðist nú blandast hugur um mikilvægi heimilis- og uppeldisstarfa og gildi þeirra fyrir þá einstaklinga sem í hlut eiga og fyrir þjóðarbúið í heild. Hér er um störf að ræða sem sannarlega verða seint að fullu metin til fjár, eins og menn eru nú sem betur fer orðnir óþreyttir á að benda á í seinni tíð þótt sannarlega hafi lítið gengið eftir.

Till. kveður á um að meta skuli heimilisstörf til jafns við önnur störf hver svo sem þau eru. Er þetta að mínu viti ekki annað en lágmarksmat á heimilisstörfum. Því má ekki heldur gleyma að heimavinnandi spara ríki og sveitarfélögum ótæpilega fjármuni á ári hverju og einnig þess vegna er það réttlætismál að þessir sömu aðilar meti þessi störf einhvers þegar heimavinnandi ráða sig til starfa hjá ríki og bæ. Hér er um ótvírætt réttlætismál að ræða, réttlæti í garð þeirra sem eru meðal þeirra réttindaminnstu í þessu þjóðfélagi, og samþykkt þessarar till. hefði gefið tilefni til að sýna í verki þótt í litlu sé að hv. Alþingi metur í raun einhvers það vinnuframlag sem innt er af hendi launalaust á heimilum landsins.

En hvað gerir hv. Alþingi? Meiri hluti hv. allshn. Sþ., fulltrúar Sjálfstfl., Framsfl. og Alþfl. í nefndinni, leggja til að till. verði vísað frá á þeirri forsendu að þetta sé kjarasamningaatriði og því ekki á færi Alþingis að hafa skoðun á málinu, ekki einu sinni þótt um sé að ræða opinbera starfsmenn eingöngu. Mér er spurn, virðulegi forseti: Á hverju getur hv. Alþingi þá haft skoðun ef ekki þessu? Er það e.t.v. orðið óæskilegt að Alþingi hafi skoðun á einföldum réttlætismálum? Veit ég vel að aðilarnir í Garðastrætinu hafa ekki gefið grænt ljós á þetta mál. Um þetta atriði hefur Alþingi ekki fengið nein fyrirmæli. Er það e.t.v. ástæða þess að meiri hl. hv. allshn. telur réttast að vísa málinu frá, að sá beiski kaleikur verði frá Alþingi tekinn að hafa einhverja skoðun á starfsmatsmálum og heimilisstörfum? Ég vænti þess að forsvarsmaður meiri hl. nefndarinnar geti svarað þessari fsp. minni hér á eftir.

Afgreiðsla hv. allshn. Sþ. á þessari till. er Alþingi til skammar og skal ég nú útskýra hvers vegna:

Í fyrsta lagi nær þessi till. eingöngu til opinberra starfsmanna, en eins og allir vita er hæstv. fjmrh. viðsemjandi þeirra. Hæstv. ráðh. sækir umboð sitt til Alþingis og það er ekkert því til fyrirstöðu eða á neinn máta óæskilegt að Alþingi gefi hæstv. fjmrh. til kynna hver hugur þess er til ýmissa atriða í kjaramálum opinberra starísmanna. Þetta er ein ástæða þess að það er óhæfa að vísa þessu máli frá á þeirri forsendu að það komi Alþingi ekki við. Vonast ég til að hæstv. fjmrh. láti í sér heyra um þessa málsmeðferð hér á eftir. Ég vil ekki trúa því að óreyndu að hæstv. fjmrh. þyki verra að Alþingi hafi einhverja skoðun á og skipti sér jafnvel af þeim málum sem hann fer með í umboði Alþingis.

Í öðru lagi má spyrja: Hvað erum við að gera með lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna, lög um kjarasamninga Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, svo að eitthvað sé nefnt, ef við getum ekki einu sinni haft skoðun á litlu réttlætisatriði sem snertir kjör opinberra starfsmanna? Ég vona að frsm. nefndarinnar svari því hér á eftir og líka því hvort hann telji þá að t.d. frv. til laga um fæðingarorlof eigi rétt á sér. Ef ég man rétt flutti frsm. nefndarinnar eitt slíkt á síðasta þingi. Slík frv. snerta óneitanlega beint kjör bæði opinberra starfsmanna og annarra launamanna hér á landi og hafa iðulega verið hluti af kjarasamningum á einn eða annan hátt. Telur hann þá að slík frv. eigi ekki rétt á sér? Frv. til laga um fæðingarorlof er aðeins eitt dæmi um frv. sem snerta kjaraatriði. Frv. og þær þál. sem snerta kjör manna hér á landi á einn eða annan hátt eru fjöldamörg á hverju þingi. Hvers vegna eru þeir þm. sem skrifa undir nál. hv. allshn. ekki fyrir löngu búnir að gera athugasemdir við hæstv. forseta um það að hér eru sífellt borin fram mál sem samkvæmt afgreiðslu nefndarinnar hljóta að teljast óþingleg? Mér þætti gaman að vita það.

Eins þætti mér gaman að vita hvers vegna hv. þm. Eiður Guðnason, sem því miður er fjarverandi þessa umræðu eins og fleiri hv. þm., en hann undirritar nál. hv. allshn. fyrir hönd Alþfl., hefur t.d. ekki bent samflokksmanni sínum hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur á að frv. um endurmat á störfum láglaunahópa, sem hún ásamt fleiri hv. þm. er búin að flytja þrjú þing í röð, á hreint ekki heima á Alþingi samkvæmt forsendum þessa nál. Samkvæmt forsendum þessa nál. er um ótvírætt kjarasamningaatriði að ræða. Það frv. fjallar um ótvíræð kjarasamningaatriði. Mig undrar reyndar að jafnvandvirkur forseti og hæstv. forseti Sþ. skuli enga athugasemd hafa gert við að slíkt frv. væri hér fram borið ef það er óþinglegt. Auðvitað er það ekki óþinglegt. Hvorki frv. til laga um endurmat á störfum láglaunahópa né frv. til laga um fæðingarorlof né sú till. sem hér er til umræðu eru óþingleg mál. Það sem er óþinglegt er afgreiðsla hv. allshn. á þeirri till. sem hér um ræðir.

Í þriðja lagi má spyrja: Er Alþingi ekki lengur skoðanabært um hin einföldustu mál? Þessi spurning er sérlega áríðandi nú því að Alþingi er nýbúið að taka við umfangsmiklum tillögum um efnahags- og kjaramál frá aðilum vinnumarkaðarins og gera að sínum með þeim hætti sem öllum hv. þm. er eflaust í fersku minni. Og ég spyr: Er það ekki lengur á færi Alþingis að hafa svo mikið sem skoðun á kjaratengdum málum eða hvers vegna getur Alþingi ekki afgreitt þessa þáltill. með því annaðhvort að samþykkja hana eða fella? Hvers vegna ekki? Er Alþingi orðið að einhvers konar leikbrúðulandi þar sem enginn getur gert neitt nema togað sé í réttan spotta?

Virðulegi forseti. Fjórða og síðasta atriðið sem ég vil nefna varðar efni till. Eins og allir hv. þm. vita er mat heimilisstarfa til starfsreynslu mál sem fyrst og síðast snertir konur, einfaldlega vegna þess að þær eru mikill meiri hluti þeirra sem hafa þessi störf að aðalstarfi. Þau smánarlegu kjör sem konur búa almennt við úti á vinnumarkaðnum ættu að vera öllum hér inni vel kunn og jafnframt að nýgerðir kjarasamningar gera lítið annað en staðfesta þessi kjör. Það er því nöturlegt að einmitt þessi till. skuli hafa fengið þá afgreiðslu í allshn. Sþ. sem raun ber vitni og það einmitt nú. Þetta er sú virðing sem þeim konum sem heimilisstörf vinna er nú sýnd á Alþingi Íslendinga og það veit heilög hamingjan að þau hástemmdu lofsyrði um heimilið og fórnfýsi heimavinnandi kvenna, sem fallið hafa hér í þessum ræðustól frá fulltrúum þeirra flokka sem undir þetta nál. rita, hljóta nú að falla niður dauð og ómerk því að þar hefur hugur ekki fylgt máli.

Hitt er svo jafnvíst að nú vita íslenskar konur að meirihluti Alþingis telur að þau störf sem þær hafa gegnt frá alda öðli, heimilisstörfin, komi Alþingi ekki við. Það er ekki svo lítið og það vil ég biðja hv. þm. að hafa í huga þegar þeir ganga til atkvæðagreiðslu um þessa till. hér á eftir.