06.03.1986
Sameinað þing: 56. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3003 í B-deild Alþingistíðinda. (2520)

Framkvæmd verðlagseftirlits

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Það er alveg ljóst að grundvallarforsenda þess að þeir tímamótasamningar, sem nú hafa verið gerðir, standist er að verðgæsla sé í lagi, hún verði stórefld og komið verði í veg fyrir að hinir einstöku aðilar geti hagnast af þeim aðgerðum, sem nú eru hafðar í frammi varðandi lækkanir á tollum og öðru slíku, að kaupmenn, að seljendur vöru verði ekki til þess að græða á þessu.

Ég tel rétt að fram komi að mikill vilji er fyrir því hjá samningsaðilum að beita sér í þessu efni og hafa fulltrúar Alþýðusambands Íslands og vinnuveitenda nú þegar átt fund með verðlagsstjóra og starfsmönnum hans. Verðlagsstofnun hefur tekið okkar tilmælum mjög vel og býr sig nú af kappi undir það að bæta verðgæslu, auka verðgæslu og koma í veg fyrir að óæskilegir aðilar hagnist á þeim aðgerðum sem nú eiga sér stað.

Á þessum fundum hefur verið rætt um það sérstaklega að athugað verði verðið hjá bílaumboðum, hjá þeim sem selja heimilistæki og hjá þeim öðrum sem selja vöru sem lækkaðir hafa verið tollar á. Veruleg hætta er á því að viðkomandi aðilar noti tækifærið til þess að hækka álagningu. Við höfum vissar grunsemdir um að það eigi sér stað og höfum komið því nú þegar á framfæri við verðlagsstjóra.

Alþýðusambandið mun á næstunni skrifa öllum sínum félögum bréf þar sem farið verður fram á það að hvert einasta verkalýðsfélag geri verðkannanir á sínum stað, á milli verslana, á milli byggðarlaga, og það verði þáttur í því að halda verðlaginu niðri. Jafnframt að beina því til félaganna að hver einasti félagsmaður komi því á framfæri við verkalýðsfélag eða Verðlagsstofnun ef hann telur á sig hallað. Þetta er ný leið í því skyni að lækka vöruverð og verður þessi herferð sett af stað núna í næstu viku. Ég bendi á það að Félag ísl. iðnrekenda hefur tekið mjög skynsamlega á þessu máli einnig og hefur beint því til sinna félagsmanna að standa þannig að málum. Við fórum einnig fram á það við verðlagsstjóra að hann fylgdist með innlendum iðnaðarvörum og eins og ég sagði er meiningin að svo verði gert. Þá mun líka fyrirhugað að ráða fleira fólk til að sinna þessum störfum en ég á von á því að aðgerðir aðila vinnumarkaðarins komi til með að hjálpa mjög til í þessum efnum.

Ástæða er til að taka dæmi í þessu efni: T.d. er fyrirhugað að verkalýðsfélög fái leiðbeiningar hjá Verðlagsstofnun um það hvernig að þessu skuli standa, t.d. um það hver er helgarpakki heimilanna. Gerð verði verðkönnun á því hvað hann kostar í hinum ýmsu verslunum og síðan verður auglýst hvar sé best að versla, hvar sé lægst vöruverð, hvernig sé best staðið að málum. Ég vildi aðeins að þetta kæmi fram hérna, en jafnframt minni ég á það að lokum að höfuðforsenda fyrir því að þessir kjarasamningar geti staðist, þessi tilraun takist, sem verður að takast, er að verðlag verði innan þeirra marka sem ætlast er til og kjarasamningarnir eru byggðir á.