06.03.1986
Sameinað þing: 56. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3006 í B-deild Alþingistíðinda. (2524)

Framkvæmd verðlagseftirlits

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég held að það sé þarft að þessi umræða fari fram, og í tíma talað, því að ljóst er að það ræðst að miklu leyti nú þegar á fyrstu vikum og mánuðum gildistíma þessara kjarasamninga hvernig til tekst.

Ég held að nauðsynlegt sé að menn geri sér þegar í upphafi grein fyrir því að þegar breytingar verða, áþekkar þeim sem nú standa fyrir dyrum og eru að verða í okkar efnahagslífi, þá myndast visst skjól, ef svo má að orði komast, í verðlagsmálum sem því miður reynslan sýnir að ýmsir hafa tilhneigingu til að misnota. Ég nefni til samanburðar þær aðstæður sem upp komu í íslensku efnahagslífi og verðlagsmálum þegar myntbreytingin var framkvæmd á sínum tíma. Enginn vafi er á, þegar það er skoðað aftur á bak, að ýmsir misnotuðu sér það skjól sem þar gafst til að fela verðlagshækkanir fyrir skertu verðskyni almennings. Og ég vil segja það, herra forseti, að það er ekki líðandi, ekki undir nokkrum kringumstæðum líðandi, ef atvinnurekendur - og þaðan af síður ef opinberir aðilar, ríki eða sveitarfélög, - ætla að eyðileggja þessa tilraun, sem svo hefur verið nefnd, þegar á fyrstu dögum. Það dugar ekkert annað en stórhert verðlagseftirlit og miskunnarlausar nafnbirtingar og helst myndbirtingar þeirra aðila sem gerast brotlegir í þessum efnum.

Það er alveg ljóst, t.d. þegar talað er um bankana og ríkisbankana, að flestum öðrum stæði nær að hækka hjá sér þjónustuna heldur en þeim. Ég veit ekki betur en þeir ættu allra aðila frekast að geta borið það að hækka ekki gjöld fyrir sína þjónustu, gefandi þannig mjög slæmt fordæmi. Og vegna þess að hér situr inni slatti af bankaráðsmönnum, kjörnir hér á þinginu við misjafnlega miklar vinsældir eins og gengur, jafnvel formenn bankaráða, þá skora ég á þá að koma hér upp á eftir einhverjir þeirra munu reyndar þegar hafa beðið um orðið - og gera okkur grein fyrir því hvort þingkjörnir fulltrúar í bankaráðum ætla að líða þetta. Í fyrsta lagi er þeim þetta ljóst, sbr. þær upplýsingar sem hv. 7. þm. Reykv. kom fram með. Ætla þeir að líða þetta fyrir sitt leyti? Hæstv. viðskrh., yfirmaður bankamála, ætti auðvitað einnig að taka á þessu afdráttarlaust þannig að þingið þurfi ekki að velkjast stundinni lengur í vafa um það að allt verði gert sem hægt er af hálfu þeirra aðila sem hér eru til þess að koma í veg fyrir að þessi tilraun verði á ósvífinn hátt eyðilögð þegar á fyrstu dögum.