10.03.1986
Efri deild: 58. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3009 í B-deild Alþingistíðinda. (2531)

321. mál, tollskrá

Stefán Benediktsson:

Frú forseti. Ég hef ekkert við þetta frv. sjálft að athuga og tel eðlilegt að þingdeildin bregðist vel við að greiða götu þess svo að hinum upphaflega tilgangi manna með þessum aðgerðum verði náð. Aftur á móti get ég ekki látið hjá líða að hugleiða a.m.k. stöðu okkar þingmanna þegar svona mál ber á okkar borð. Eins og málum var háttað þegar hið upphaflega frv. var skoðað tóku menn sem góðar og gildar þær upplýsingar sem þar komu fram, ekki frá ríkisstj. sjálfri í raun og veru, heldur frá ráðgjöfum ríkisstj., frá ráðuneytum og Þjóðhagsstofnun, og töldu enga ástæðu til þess að draga þær upplýsingar í efa. Síðan kemur það í ljós örfáum dögum síðar að þessar upplýsingar eru ekki upplýsingar í sjálfu sér vegna þess að þær byggjast sjálfar á alröngum forsendum, þ.e. alröngum upplýsingum.

Mér finnst að við þingmenn ættum kannske, með þetta mál og fleiri í huga, að láta þetta verða okkur að lærdómi og hugsa til þess í framtíðinni að draga að okkur upplýsingar með þeim hætti að við þurfum ekki að treysta eingöngu á upplýsingar frá mjög fáum aðilum, jafnvel kannske bara einum aðila, um mál eins og þessi. Óneitanlega hvarflaði að manni þegar frv. var lagt fyrir með þessa rúmtakshámörkun sem þar er tilgreind, þ.e. 2000 cm3, að hér væri í raun og veru um að ræða nánast allar bifreiðar sem fluttar eru inn á Íslandi, allar fólksbifreiðar. Og tilfellið er að það gildir líklega nánast um allar bifreiðar sem fluttar eru inn frá Evrópu þannig að undantekningarnar um bifreiðar yfir þessu rúmtaki væru tiltölulega miklu færri heldur en margir vildu ætla. Enda hefur það komið í ljós við nánari athugun manna að hlutfalI þessara bifreiða í innflutningi er langtum stærra en menn höfðu gert ráð fyrir. En þetta eru praktískir hlutir sem lúta að okkar starfsaðstöðu og möguleikum okkar til þess að afla okkur óháðra upplýsinga og ættu að verða okkur að lærdómi.