10.03.1986
Efri deild: 58. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3011 í B-deild Alþingistíðinda. (2536)

232. mál, talnagetraunir

Landbrh. (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Vegna fsp. hv. 9. þm. Reykv. vil ég benda á að íþróttahreyfingin hefur haft heimild til getraunastarfsemi í mörg ár. Lögin sem um það gilda nú eru frá 1972. Þar er um peninga að ræða og í þeim lögum eru sambærilegar heimildir og frv. fjallar um svo að að því leyti er hér ekki um nýjung að ræða. Hins vegar er forráðamönnum Happdrættis Háskóla Íslands að sjálfsögðu kunnugt um þetta frv. og það munu einhver skoðanaskipti hafa átt sér stað þar á milli. Hversu formleg þau hafa verið þori ég ekki að fullyrða um þar sem, eins og kom fram í máli mínu, þetta frv. byggist á samkomulagi milli þeirra bandalaga sem ég nefndi áðan. En hvort þetta verður til þess að draga úr fjárveitingu til þessara samtaka, sérstaklega sennilega Öryrkjabandalagsins sem mér skildist hv. þm. vera að spyrja um, þá er það að sjálfsögðu Alþingi sjálft sem tekur ákvörðun um þær fjárveitingar hverju sinni og metur það hvort það vill láta þá fjáröflun sem fæst á grundvelli þessa frv. hafa einhver áhrif á fjárveitingar þess til þessara samtaka. Ég hygg að það verði að koma í ljós eftir þeirri þörf sem þá verður fyrir slíkt, þ.e. hversu mikið þessi starfsemi gefur af sér til þeirra verkefna sem þarna er um fjallað. Mér hefur verið bent á að þessi tekjustofn nær til Öryrkjabandalags Íslands en ekki Samtaka þroskaheftra, sem hafa bent á að aukinn tekjustofn Öryrkjabandalagsins megi ekki verða til þess að draga úr fjárveitingum sem þroskaheftir fá til hliðstæðrar starfsemi.