10.03.1986
Efri deild: 59. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3015 í B-deild Alþingistíðinda. (2544)

321. mál, tollskrá

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Sennilega er tíma þessarar hv. deildar betur varið í eitthvað annað en að þm. komi hér hver af öðrum í ræðustól til þess að bera af sér útúrsnúninga hv. 5. landsk. þm. sem hér reis upp til varnar fyrir aðgerðir ríkisstj. þótt sá þm. teljist að vísu til stjórnarandstöðunnar í dag. Þessi hv. þm. taldi að þessi lækkun á tollum á bílum kæmi öllum til góða. Ég veit ekki hvort hv. þm. gerir sér grein fyrir því að samkvæmt nýgerðum kjarasamningum eru lágmarkslaun í landinu 20 272 kr. á mánuði. Ég veit ekki hvernig fólk á að fara að því bæði að lifa af þessum launum og kaupa sér bifreiðar fyrir þau. Ef hv. 5. landsk. þm. veit það þá þekkir hann einhverja galdrauppskrift sem láglaunafólki þessa lands kæmi til góða.