10.03.1986
Efri deild: 60. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3018 í B-deild Alþingistíðinda. (2551)

312. mál, verkfræðingar

Stefán Benediktsson:

Frú forseti. Ég er ekki sérstakur talsmaður löggildingar starfsheita og tel að ríkisvald eða löggjafi eigi í sjálfu sér ekki neinu stóru hlutverki þarna að gegna þar sem slík löggilding þjónar yfirleitt aldrei því markmiði að vernda hag einhverrar stórrar heildar, t.d. viðskiptavina viðkomandi hóps, hver sem hann er, heldur miðar slík löggjöf yfirleitt fyrst og fremst að því að þrengja aðgang manna að starfi í viðkomandi starfsgrein. En nú er það einu sinni þannig að hér hefur þessi leið verið farin á undanförnum áratugum, að löggilda starfsheiti ýmissa sérfræðinga og þá með tilliti til þess að jöfnuður ríki milli þeirra. Ég tel ekki hægt að hafa neitt á móti því að þessi atvinnustétt fái löggildingu síns starfsheitis eins og aðrar, og þess þá heldur að stjórn viðkomandi félaga hefur sótt þetta nokkuð stíft undanfarin ár en ekki fengið það liðsinni sem skyldi fyrr en núna, að ráðherra mælir fyrir þessu frv. Því mun ég styðja það.