10.03.1986
Neðri deild: 59. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3021 í B-deild Alþingistíðinda. (2563)

54. mál, sveitarstjórnarlög

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ljóst er að Sjálfstfl. og Framsfl. hafa sameinast um að gera að engu meiri háttar breytingar eða uppstokkun á stjórnsýslunni sem er forsenda valddreifingar, aukinnar sjálfsstjórnar og sjálfsforræðis sveitarfélaga. Alþfl. lýsir því ábyrgð á hendur stjórnarflokkunum fyrir að kollvarpa áformum um að stíga fyrstu skrefin til að auka valddreifingu og gera sveitarfélögin að öflugum stjórnsýslueiningum sem hefðu styrk og getu til átaka í framfaramálum landsbyggðarinnar. Afgreiðsla ríkjandi þingmeirihluta á frv. þýðir að okkar mati að nauðsynlegri endurskipulagningu á sveitarstjórnarskipan hefur enn einu sinni verið slegið á frest. Þm. Alþfl. leggja höfuðáherslu á að brtt. á þskj. 528 um róttæka uppstokkun á stjórnkerfi sveitarstjórnarmála nái fram að ganga auk ákvörðunar um kosningadag og kosningaaldur. Þar sem brtt. stjórnarflokkanna ganga í veigamiklum atriðum þvert á yfirlýst markmið um að styrkja stöðu sveitarfélaganna munu þm. Alþfl. einungis styðja þær brtt. meiri hl. sem lúta að lagfæringum á starfsreglum og fjármálum sveitarfélaga en láta stjórnarflokkana um að bera ábyrgð á tillögum sem engu munu breyta á vettvangi sveitarstj5rnarmála og í mörgum tilfellum eru spor aftur á bak. Til að undirstrika þessa afstöðu greiða þm. Alþfl. þessari grein ekki atkvæði. Ég greiði ekki atkvæði.