10.03.1986
Neðri deild: 60. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3027 í B-deild Alþingistíðinda. (2574)

321. mál, tollskrá

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það er sjálfsagt að greiða fyrir afgreiðslu þessa frv. eins og mögulegt er og almennur vilji er væntanlega fyrir því hér. Engu að síður þótti mér rétt að beina nokkrum spurningum til hæstv. fjmrh. til að fá upplýsingar um þetta mál.

Ég skil það svo, og vil gjarnan fá það staðfest, að bifreiðagjald sé reiknað af sama grunni og tollur. Ef svo er sýnist mér að þetta feli í sér að lækkun verði á öllum bifreiðum allt að 2300 cm3 sprengirými en minnkandi upp á við frá því sem áður hafði verið ákveðið. Nú er kannske erfitt að ráða í það af fyrirliggjandi gögnum hvernig frá þessu hafi verið gengið því að að því er bifreiðagjaldið varðar er einungis tekið fram, samkvæmt því sem áður var gert ráð fyrir í lögunum eins og gengið var frá þeim seinast og því sem þeim fylgdi, að bifreiðagjald væri fellt niður af bifreiðum upp að 2300 cm3 slagrými, en síðan yrði það í þremur gjaldflokkum, 4-12%, þar fyrir ofan. Ef ég gef mér að þeir gjaldflokkar hafi verið þeir sem kallast hér V, VI og VII sýnist mér að allt upp í V. flokk gæti verið um einhverja lækkun á bifreiðum að ræða. Ef ég tæki þessi 20%, sem hér eru til lækkunar, og liti á hvernig þetta kæmi út virðist mér að það gjald hafi áður verið 4%, en eigi nú að fara upp í 20% á sama tíma og tollurinn á að hækka um 20%. Ég vildi gjarnan fá staðfest hvort þetta sé með þessum hætti.

Í annan stað langar mig til að vita hvort það sem hér er að gerast í bifreiðamálunum muni hafa einhver áhrif að því er öryrkja og stöðu þeirra varðar. Eins og hv. deild er kunnugt hafa öryrkjar notið ákveðinna fríðinda í því að álögum á bifreiðar í tolli, aðflutningsgjöldum og þess háttar hefur verið af þeim létt. Það hefur verið gert til að rétta heldur hlut þeirra miðað við aðra þegna þjóðfélagsins. Hvernig verður staða þeirra eftir þessa breytingu? Verður unnt að veita þeim hlutfallslega jafnmikla ívilnun og áður hefur verið gert eftir að þessar tollalækkanir koma til framkvæmda þannig að þeir standi hlutfallslega jafnvel að vígi og áður gagnvart þeim sem fullfrískir eru í þjóðfélaginu? Ég vildi gjarnan fá svör fjmrh. við því hvernig það sé hugsað.

Í þriðja lagi tók ég eftir því í ræðu hæstv. ráðh. að hann sagði að meginskýringin á því að nauðsyn bæri nú til að flytja frv. sem hér er flutt væri sú að það væri núna flutt inn meira af minni bifreiðum en menn hefðu gert ráð fyrir í útreikningum sínum við framlagningu frv. til l. um ráðstafanir í ríkisfjármálum, verðlags- og lánsfjármálum, 303. máli, sem hér er nýafgreitt. Þá hlýt ég að spyrja: Er nýtekinn upp sá háttur að breyta vægi hluta í vísitölunni eftir því hvernig innflutningi er háttað það og það árið og gildir það um alla liði vísitölunnar? Er það svo að ef grænmetisneysla breytist hér á landi sé upp tekinn sá háttur að breyta vísitölugrunninum að því er grænmeti varðar? Og er það þá gert ársfjórðungslega eða einu sinni á ári eða hvernig er staðið að framkvæmd þessara hluta?

Þá tók ég eftir því að hæstv. fjmrh. sagði að þetta væri meginástæðan. En hverjar voru þá hinar ástæðurnar? Ég vildi gjarnan heyra þær líka.