10.03.1986
Neðri deild: 60. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3028 í B-deild Alþingistíðinda. (2575)

321. mál, tollskrá

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Vegna þeirra fsp. sem hér hafa komið fram er rétt að geta þess að þær breyttu forsendur sem ég vitnaði til í upphafsræðu minni eiga rætur að rekja til þess að samkvæmt þeim upplýsingum sem fyrir lágu var talið samkvæmt útreikningum Þjóðhagsstofnunar að þetta sérstaka innflutningsgjald af bifreiðum, sem greitt var samhliða tollabreytingunni, væri að meðaltali um 14% og það byggðist á mati á því að innflutningur á stærri bifreiðum væri meiri en raun er á. Í reynd kom dæmið þannig út að þetta sérstaka innflutningsgjald var aðeins um 7% að meðaltali og í því var skekkjan fólgin og á þeim grunni var lagt til að breyta þessu sérstaka innflutningsgjaldi og á þann veg varð þessi skekkja til.

Varðandi það atriði hvernig lækkunin kæmi fram, þá er það rétt að hún verður minni á stærri bílunum sem eru yfir 2000 cm3 að sprengirými, en er allmiklu meiri á minni bifreiðunum eins og þetta frv. gerir ráð fyrir.

Varðandi þau fríðindi sem öryrkjar hafa notið, þá hefur ekki enn gefist tóm til að athuga það, en það verður gert og kannað með hvaða hætti staðið verður að framkvæmd þeirra heimilda.

Varðandi þær fsp. sem hér komu fram frá hv. 3. þm. Reykv. og lúta að vísu að öðrum málum en hér eru til umræðu er rétt að ítreka varðandi framkvæmd á samningum um húsnæðismálin að staðið verður að því verki eins og fram kom í umræðum um þessar ráðstafanir fyrir rúmri viku og í samræmi við það sem fram hefur komið opinberlega af hálfu viðskrh. verður eftir því gengið gagnvart viðskiptabönkum að þær breytingar sem þeir gerðu á þjónustugjöldum sínum verði leiðréttar. En ég vænti þess að hæstv. viðskrh. geti þegar réttar aðstæður eru svarað frekar fsp. um það atriði.