10.03.1986
Neðri deild: 61. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3031 í B-deild Alþingistíðinda. (2583)

321. mál, tollskrá

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Þau svör sem ég fékk hjá hæstv. fjmrh. áðan við fyrirspurnum mínum fannst mér ekki nægilega glögg. Ég fékk engin svör um hverjar væru aðrar ástæður fyrir því að svo hefði til tekist sem raun ber vitni annað en það sem hæstv. ráðh. nefndi meginástæðu. Ég ítreka þá spurningu að ég vil gjarnan fá gleggri upplýsingar um hvað það var sem í raun og sannleika gerðist. Ég vil líka ítreka þá skoðun mína að mér þykir þessi svonefnda meginástæða, eins og hún er fram fyrir okkur borin, heldur kúnstug og ekki ganga allt of vel upp miðað við það sem maður hefur átt að venjast í þessu þjóðfélagi varðandi vísitöluútreikning og þess háttar.

Í annan stað kemst ég ekki hjá því að gagnrýna að ekki skuli betur gerð grein fyrir þessu máli í fskj. en hér er gert. Ég bar fram fyrirspurn um hvort bifreiðagjald og tollur reiknaðist af sama gjaldstofni, óskaði staðfestingar á hvort svo væri. Ég varð ekki var við að því væri mótmælt sem ég hélt fram í þeim efnum. En til þess að gera þetta enn gleggra vil ég spyrja hreint út sagt: Er þá hægt að leggja saman þær ívilnanir sem verið er að gera annars vegar í bifreiðagjaldinu og hins vegar í tollum þannig að menn geti í raun og sannleika fengið nettóáhrifin af þessari breytingu út með einfaldri samlagningu? Ég sé að hæstv. fjmrh. kinkar kolli. Þá þýðir þetta væntanlega að tollur og bifreiðagjöld eru samtals að lækka um 20% með þessu frv. í ódýrasta flokki bíla, um 15% í næsta flokki, um 11% í þarnæsta, síðan um 7%, þá um 4%, en þau standa óbreytt af V. og VI. flokki, þ.e. af tveimur dýrustu tegundum bílanna.

Mér finnst nefnilega, miðað við þá umræðu sem fram hefur farið að undanförnu og miðað við þá uppákomu sem í raun hefur átt sér stað varðandi þessa tollalækkun, ástæða til þess að þingið sé bærilega vel upplýst um hvað það er að gera. Ég segi þetta kannske ekki síst af tillitssemi við hæstv. fjmrh. og auðvitað líka af tillitssemi við þingið. Mér þætti heldur slæmt ef við þyrftum að leiðrétta þetta í þriðja ganginn vegna þess að menn vissu ekki nákvæmlega hvað þeir væru að gera.

Ég held við séum öll af vilja gerð hér í þinginu að afgreiða þetta greiðlega og fljótt, en ég held að við höfum líka öll áhuga á því að fá sem gleggstar upplýsingar um hvað við erum að gera og þá ekki síst í ljósi þess, sem hefur gerst að undanförnu, að við stöndum frammi fyrir því að vera að framkvæma leiðréttingu á gjörðum sem eru nokkurra daga gamlar og viljum ógjarnan lenda í þeim sporum aftur.

Þá hlýt ég að óska eftir nánari útlistun hæstv. fjmrh. á því hvernig hann ætli að standa að bílamálum öryrkja í þessu sambandi, eins og hér hefur verið gert eilítið að umtalsefni og eins og ég spurði um í ræðu minni við 1. umr. Þetta er þó nokkurt mál eins og aðrir hafa hér tekið undir. Nú spyr ég: Er ætlun ráðherra að sömu upphæð verði varið til lækkunar fyrir hvern flokk öryrkja á hvern bíl eftir þessa breytingu? Það væri ein leiðin, að sömu upphæð yrði varið til lækkunar fyrir hvern flokk öryrkja á hvern bíl eins og áður var veitt í lækkun eða afslætti af tollum og aðflutningsgjöldum. Þetta væri ein aðferðin við að tryggja að öryrkjarnir stæðu jafnvel og áður. Mér skilst að menn hafi áhuga á því að þeir standi jafnvel og áður. Það mætti hugsa sér að framkvæma það með þessum hætti. Menn gætu líka hugsað sér að þeir teldust standa jafnvel gagnvart öðrum hópum í þjóðfélaginu, þeim sem frískir eru, með því að bílar til öryrkja væru hlutfallslega jafnmiklu ódýrari eftir þessa breytingu og þeir voru til öryrkja fyrir breytinguna. Hér er um tvær leiðir til útfærslu að ræða sem ég vek strax athygli á og vildi gjarnan heyra hvora leiðina hæstv. fjmrh. hefur hugsað sér að fara þannig að þingdeildin geti áttað sig á því hvernig öryrkjar standa eftir þessa breytingu því að ég geri ráð fyrir að það sé ofarlega í hug margra.

Herra forseti. Ég skal ekki orðlengja þetta frekar, en ég vil gjarnan fá staðfestingu á því að nettóútkoman fyrir hvern gjaldflokk útreiknist með þeim hætti sem ég hef hér gert grein fyrir þannig að við vitum það þó í fyrsta lagi. Þá tel ég nauðsynlegt að hæstv. fjmrh. svari því afdráttarlaust hvaða stefnu hann hyggst taka að því er varðar málefni öryrkjanna og þá vísa ég sérstaklega til þessara tveggja leiða sem ég hef hér gert að umtalsefni. Í þriðja lagi verð ég að segja að mér finnst hæstv. fjmrh. skulda okkur betri skýringar á því hvaða ástæður lágu til þess að svo fór sem fór og ekki bara meginástæðuna, sem mér finnst ekki nógu skýr, heldur hverjar voru hinar ástæðurnar, hvað það var annað sem fór úrskeiðis.