11.03.1986
Sameinað þing: 57. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3035 í B-deild Alþingistíðinda. (2592)

222. mál, staða lektors í íslenskum bókmenntum

Fyrirspyrjandi (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka ráðherra svörin ef svör skyldi kalla því að aðrir eins útúrsnúningar og vífilengjur heyrast sjaldan hér á hv. Alþingi og heyrist þó ýmislegt hér.

Ráðherra vill meina að hann hafi farið að niðurstöðum dómnefndar. Heyrði ráðherrann mig ekki lesa niðurstöður dómnefndar hér áðan þar sem kemur ótvírætt fram að þeir tveir umsækjendur sem um ræðir standa ekki hnífjafnir, eins og ráðherrann sagði hér? Dómnefnd mælir eindregið með Helgu Kress til starfans. Lítilsvirðing ráðherra við ákvörðunarvald heimspekideildar mun verða í annála færð í Alþingistíðindum. Í raun og veru var ekkert bitastætt í svari ráðherra nema, eins og hann sagði sjálfur: Það er ég sem ræð. Það er ég sem hef valdið og það er mitt að brúka það. Eftir stendur í raun og veru aðeins að ráðherra hefur beitt valdi sínu þvert á vilja Háskólans og hefur því sem yfirmaður Háskóla Íslands sýnt þessari æðstu menntastofnun þjóðarinnar fullkomna lítilsvirðingu.

Ég vil að lokum lesa upp mótmæli virðulegs háskólaráðs en þau segja alla söguna í trássi við digurbarkaleg ummæli ráðherra. Þau eru svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Háskólaráð mótmælir þeim vinnubrögðum menntmrh. að ganga gegn tillögu heimspekideildar og dómnefndar hennar við setningu í stöðu lektors í íslenskum bókmenntum. Ráðið vill minna ráðherra á að deildir Háskólans eru sjálfstæðar um tilhögun kennslu sinnar og bera einar ábyrgð á henni. Deildir gera strangar kröfur til kennara sinna og velja úr hópi umsækjenda eftir fræðilegu mati og hæfni þeirra. Þegar ráðherra leyfir sér að sniðganga mat deildar og tillögu er viðkomandi deild og þeim fræðimönnum sem í hlut eiga sýnd lítilsvirðing. Háskólaráð gerir þá kröfu til ráðherra að hann meti störf háskólamanna að verðleikum og sýni þeim ekki slíkt virðingarleysi sem umrædd stöðuveiting ber vott um.“

Ég vil að lokum beina þeim tilmælum til hæstv. menntmrh. að hann reyni framvegis að hafa taumhald á valdi sínu og virði sjálfstæði Háskóla Íslands. Stjórnvald sem hundsar þann hornstein þekkingar og lýðræðis, sem sjálfstæði háskólastofnana í raun er, er stjórnvald sem er hættulegt bæði þekkingu og lýðræði.