11.03.1986
Sameinað þing: 57. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3040 í B-deild Alþingistíðinda. (2600)

296. mál, dagvistarrými og skóladagheimili

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj 543 hef ég leyft mér að beina svohljóðandi fsp. til hæstv. menntmrh. um dagvistarrými og skóladagheimili:

„1. Hversu mörg börn á aldrinum þriggja mánaða til fimm ára eiga kost á dagvistarrými: a) á dagheimilum, b) á leikskólum? Sundurliðist eftir kjördæmum.

Hversu hátt hlutfall er þetta af áætlaðri þörf?

2. Hversu mörg börn á landinu fá rúm á skóladagheimilum: a) á grunnskólaaldri, b) á aldrinum 6-9 ára sérstaklega? Sundurliðist eftir kjördæmum.

Hversu hátt hlutfall er það af áætlaðri þörf?"

Eins og oft hefur verið minnt á hér á Alþingi var gert ákveðið samkomulag á árinu 1980 milli verkalýðshreyfingar og ríkisstj. um uppbyggingu dagvistarstofnana í tengslum við kjarasamninga er þá voru gerðir. Í kjölfar þessa var unnin upp áætlun um þörf þessara stofnana, bæði hvað snertir leikskóla, dagvistarheimili og skóladagheimili, og þá gert ráð fyrir ákveðnum hraða og árafjölda í uppbyggingu stofnana af þessu tagi, þ.e. áætlun til tíu ára, 1981-1990.

Þó að þessi málaflokkur, dagvistarheimili, hafi hlotið öllu vægari meðferð niðurskurðarhnífsins en ýmsar aðrar þarfar framkvæmdir samkvæmt þeim upplýsing

um sem við höfum hér á þskj. úr svari við fsp. hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar er þó ljóst að ekki hefur miðað neitt í líkingu við það sem áætlað var samkvæmt þörfinni sem áætluð var 1982. Á miðju áætlunartímabili átti að endurskoða þessa áætlun, en um s.l. áramót var áætlunartímabilið einmitt hálfnað. Það er því forvitnilegt nú á þessum tímamótum að fá glögg svör um núverandi ástand og hversu miðað hefur í átt að þeirri þörf sem áættuð var á árinu 1982 og því er spurt.