11.03.1986
Sameinað þing: 57. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3043 í B-deild Alþingistíðinda. (2604)

297. mál, húsnæðismál

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Áður en ég svara beint spurningum hv. 2. þm. Reykn. vil ég taka fram að ríkisstj. var ljóst strax á miðju ári 1983 að það fólk sem stóð í húsbyggingum og húskaupum á mesta verðbólgutímabili sem gengið hefur yfir með fulla verðtryggingu 1981-1983, verðbólgu sem komst yfir 130%, stóð mjög illa að vígi.

Aðgerðir ríkisstj. fólust í hækkun lána, viðbótarlána, samningum við banka og sparisjóði um skuldbreytingar skammtímalána og ráðgjafarþjónustu sem sá um slíka fyrirgreiðslu og er hægt að fullyrða að rúmlega milljarði króna hafi verið varið í þessu skyni 1983-1985. Sett voru lög um greiðslujöfnun fasteignaveðlána sem taka til lána byggingarsjóða Húsnæðisstofnunar. Auk þess voru jákvæðar undirtektir lífeyrissjóðanna. En neikvæð umfjöllun fjölmiðla dró mjög úr umsóknum um afturvirkni þessarar fyrirgreiðslu sem hefði þýtt verulega lækkun greiðslubyrði eldri lána einstaklinga sem mun koma í ljós á þessu ári. Jafnframt hefur fjármagn til byggingarsjóðanna verið stóraukið og nýbyggingarlán hækkuð jafnt og þétt.

En það sem er aðalatriðið í þessum málum er að ná verðbólgunni niður, þar með bættum lánskjörum, lækkun greiðslubyrði. Þess vegna ber að fagna sérstaklega nýgerðum kjarasamningum sem færa niður verðlag og tilkostnað og áform um aukið fjármagn frá lífeyrissjóðunum. Ný viðhorf vinnumarkaðarins, sem meta á jákvæðan hátt þýðingu þess að hækka lán og lengja með aukinni þátttöku lífeyrissjóða, marka að mínu mati þáttaskil og ég vona að starfshópi ríkisins og aðila vinnumarkaðarins, sem nú er verið að skipa, takist að móta skynsamlega stefnu í þessum málum byggða á samkomulagi aðila sem Alþingi staðfesti síðan áður en því lýkur í vor.

1. spurning hv. þm. er: „Verður veittur sérstakur skattafsláttur vegna misgengis lána og launa á undanförnum árum?"

Svar: E.t.v. hefði hv. fyrirspyrjandi átt að spyrja hæstv. fjmrh. sem er yfirmaður skattamála. Í samkomulagi ASÍ, VSÍ og VMS er lagt til að þeir sem fá viðbótarlán til lausnar greiðsluerfiðleikum sem þeir hafa komist í frá 1980 og síðar skuli eiga rétt á húsnæðisafslætti. Þar er sagt x kr. og y ár, talið frá byggingar- og kauptíma, í stað vaxtafrádráttar ef þeir kjósa það frekar. Eftir er að taka ákvörðun um hvernig þetta verður útfært og gert framkvæmanlegt sem verður eitt af verkefnum þeirrar nefndar sem ég nefndi.

2. spurning: „Verður lánum húsnæðiskaupenda í bönkum og öðrum lánastofnunum skuldbreytt til a.m.k. 15 ára til að tryggja að greiðslubyrði af þessum lánum verði ekki óviðráðanleg?"

Svar: Samkomulag er við banka og sparisjóði um skuldbreytingu allt að átta árum í samráði við ráðgjafarstofnun Húsnæðisstofnunar ríkisins. Ríkisstj. mun beita áhrifum sínum við þessa aðila til áð þessi skuldbreyting verði lengd í tíu ár.

3. spurning: „Hvaða áform eru uppi um hækkun íbúðalána frá því sem nú er og aðrar breytingar á þeim? Verður tryggt að þeir, sem festu kaup á húsnæði á undanförnum árum, geti gengið inn í þetta kerfi?"

Svar: Húsnæðismálastjórn hefur ákveðið í sambandi við útlánaáætlun 1986 að F-lán hækki í 35% og 40% af verði staðalíbúða 3. og 4. ársfjórðung 1986 og G-lán, sem nú eru 50%, í 70% af F-láni fyrir lok ársins. Hins vegar kemur samkomulag aðila vinnumarkaðarins til með að gerbreyta þessu á árinu eins og áður segir. Mun það koma fram í því frv. sem væntanlega verður lagt fram til afgreiðslu á þessu þingi.

Ég get ekki á þessu stigi reiknað með afturvirkni þessara væntanlegu aðgerða, en ég bendi á að viðbótarlán vegna greiðsluerfiðleika koma til með að nema allt að 400 þús. kr. til 21 árs og að verið er að athuga nú í húsnæðismálastjórn hvort ástæða er til að lengja það í 31 ár sem mun liggja fyrir næstu daga.

4. spurning: „Verða vextir af húsnæðislánum lækkaðir í a.m.k. 2%?"

Svar: Engin ákvörðun hefur verið tekin um lækkun vaxta byggingarsjóðanna sem hafa verið niðurgreiddir, en þeir eru 1% og 3,5%.

5. spurning: „Verður hærri upphæð en 200 millj. kr. veitt til aðstoðar vegna greiðsluerfiðleika húsbyggjenda á næstunni?"

Svar: Á þessu ári verður 500 millj. kr. varið til aðstoðar vegna greiðsluerfiðleika húsbyggjenda og kaupenda húsnæðis á árunum 1980 og síðar og til þeirra sem hafa lent í erfiðleikum og ekki getað lokið framkvæmdum. Ráðgjafarstofnun Húsnæðisstofnunarinnar mun sjá um framkvæmd þessa ásamt fullri ráðgjöf og eru lánveitingar nú þegar hafnar.