11.03.1986
Sameinað þing: 57. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3044 í B-deild Alþingistíðinda. (2605)

297. mál, húsnæðismál

Fyrirspyrjandi (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að þakka hæstv. félmrh. fyrir svör hans við fsp. minni. Að sumu leyti komu fram skýr og glögg svör varðandi þau atriði sem um er spurt, en að öðru leyti má segja að svörin hafi ekki verið jafnglögg vegna þess að ákvarðanir hafa ekki enn verið teknar um þau efni.

Það er t.d. tilvikið að því er varðar 1. spurninguna þar sem ég spyr um hvort veittur verði sérstakur skattafsláttur vegna misgengis lána og launa á undanförnum árum. Það er alveg rétt hjá hæstv. félmrh. að yfirmaður skattamála er hæstv. fjmrh., en hins vegar er nú um þessa aðgerð að ræða vegna húsnæðismála og lána til íbúðabygginga svo að það væri ekki óeðlilegt að hann svaraði einnig að nokkru leyti fyrir það.

Þetta er mál sem hann kveður vera í athugun hjá þeirri nefnd sem sett var á laggirnar í kjölfar kjarasamninganna, en þau gleðilegu tíðindi gerðust að þar voru mörkuð mjög djúp og merk spor í húsnæðismálum og sett fram mjög víðtæk áætlun í þeim efnum sem mjög ber að fagna. Eitt af þeim atriðum sem þar kom fram er tillagan um sérstakan húsnæðisafslátt.

Hæstv. félmrh. gat þess að eftir væri af hans hálfu að taka afstöðu til þessa atriðis, málið væri sem sagt til meðferðar í þessari nefnd. Ég vil leyfa mér að vona að þetta atriði, húsnæðisafslátturinn, skattafslátturinn, nái fram að ganga því að hann er kannske eitt raunhæfasta ráðið í þessum efnum til þess að létta þann óbærilega vanda sem fjölmargar fjölskyldur eiga í vegna húsnæðismálanna.

Það kom fram í öðru lagi í sambandi við skuldbreytingar í bönkum og lánastofnunum, sem nú eru til átta ára samkvæmt tilmælum ríkisstj., að tilmæli munu hafa borist um að lengja það tímabil upp í tíu ár. Það er vitanlega skref í rétta átt í þessum efnum, en miklu hagstæðara hefði verið og betri lausn á þessum mikla vanda ef unnt hefði verið að ganga fetinu lengra og miða skuldbreytinguna við 15 ára tímabil. Það munar vitanlega miklu að lengja þetta um þriðjung eða reyndar nærri um helming frá því sem nú er. Það gerir gæfumuninn þegar menn þurfa að borga af þessum lánum sem eru orðin svo ofurhá vegna hins margumrædda misgengis.

Góðra gjalda verð er sú verulega hækkun á íbúðalánum sem nú stendur fyrir dyrum þannig að F-lánin verði í lok þessa árs komin í 40% af verði staðalióúðar og G- lánin í 70% af þeim, en það er ljóst að kjarasamningarnir koma hér einnig til með að hafa mikil áhrif og raunar vona ég að mun lengra verði gengið en hér er gefið upp.

Að því er varðar vextina kom fram í máli hæstv. ráðh. að engin ákvörðun hefur verið tekin heldur á því sviði. Það eru mál sem eru í biðstöðu. Hins vegar hefur verið vel að verki staðið að mörgu leyti varðandi 5. spurninguna, þ.e. aðstoðin vegna greiðsluerfiðleikanna. Þar hefur ríkisstj., m.a. að tilhlutan aðila vinnumarkaðarins, ákveðið að verja miklu meiri fjármunum en ákveðið var við gerð fjárlaga og því ber að fagna.

Minna má á í þessu sambandi að sumt af því sem hér kom fram hjá hæstv. félmrh. varðar húsnæðismálin almennt og í heild. Þar virðist nú vera bjartara fram undan að mörgu leyti en oft áður þó að mikið hafi áunnist, eins og ég sagði í minni fyrri ræðu. Það má hins vegar ekki gleymast að við erum hér að tala um sérstakan hóp manna, þ.e. þá sem lentu í hinu mikla misgengi á árunum 1981-1983. Ráðherra og stjórnvöld verða þess vegna að beina sjónum sínum fyrst og fremst að lausn vanda þessa hóps sem langstærstur er í öllu þessu efni.