11.03.1986
Sameinað þing: 57. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3046 í B-deild Alþingistíðinda. (2608)

297. mál, húsnæðismál

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins láta koma fram, svo að það valdi ekki misskilningi, að þó að ég benti hv. fyrirspyrjanda á að hann hefði að sjálfsögðu átt að leggja spurningu fyrir hæstv. fjmrh. í sambandi við skattamál er það ekki vegna þess að ég hafi ekki mikinn áhuga fyrir einmitt þessu atriði. Ég get minnt á að á síðustu tveimur árum hef ég tvisvar lagt fyrir ríkisstj. tillögur um svipaðar aðgerðir sem ekki hefur tekist að ná samkomulagi um. Þess vegna fagna ég mjög þeirri tillögu sem er lögð fram í fullri alvöru af aðilum vinnumarkaðarins og ég trúi því að sá starfshópur frá aðilum vinnumarkaðarins og ríkisstj., sem hefur störf senn, muni veita þessu í þann farveg að allir geti við unað.

Ég vil í sambandi við skuldbreytinguna, þar sem æskilegra væri að bankakerfið gæti lánað til 15 ára eins og kom fram hjá fyrirspyrjanda, láta þess getið að að sjálfsögðu væri þetta æskileg leið, en bendi á að það er ekki lítill áfangi sem náðst hefur í viðræðum við bankakerfið hér á landi að hafa fengið viðurkenningu á því að bankamenn vilja þó ganga svo langt að skuldbreyta skammtímalánum í föst lán allt að átta árum. Það er núna verið að semja við þá um að hækka það upp í tíu ár. Þetta er mikilvægt. Og ég vil bæta því við af reynslu s.l. árs, þar sem 2300 aðilar fengu fyrirgreiðslu í gegnum ráðgjöf Húsnæðisstofnunarinnar, að það var mjög jákvætt samstarf við bankakerfið í landinu og það hefur farið vaxandi á þessu sviði. Ég hef fyllstu ástæðu til að líta svo á að þetta sé að komast í betra og farsælla horf í sambandi við lánamál fólks almennt.

Ég vil að lokum leggja áherslu á að ráðgjafarþjónusta Húsnæðisstofnunarinnar er ákaflega mikilvægur þáttur og bendi á það einnig að t.d. verkalýðshreyfingin og bankakerfið á Suðurnesjum og fleiri aðilar tóku þetta einnig upp í fullu samstarfi við ráðgjafarþjónustuna. Þetta veitir fólki miklu meira öryggi í þessum málum en margt annað sem gert er. Þessi ráðgjafarstofnun veitir fólki miklu meiri aðstoð en fjárhagsaðstoð einvörðungu. Hún getur verið ráðgjafi þeirra á raunhæfan hátt til að leysa þeirra vandamál.

Ég ætla ekki að eiga orðastað við hv. 4. þm. Norðurl. e. Það er leiðinlegt að hann skuli aldrei komast upp úr svartsýninni og geta verið svolítið bjartsýnn með okkur. Við getum þó verið sammála um að hér er verið að gera vissa merkilega hluti. Og ég endurtek: Ég fagna mjög því samkomulagi sem aðilar vinnumarkaðarins gerðu í þessum málum og ég veit að það markar tímamót.