11.03.1986
Sameinað þing: 57. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3053 í B-deild Alþingistíðinda. (2617)

310. mál, störf milliþinganefndar um húsnæðismál

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svör hans, en mér finnst í raun og veru hæstv. ráðh. vera að segja að það sé verið að hundsa milliþinganefndina. Hverjir urðu sammála um að hún ætti hvergi að koma nærri og hópur uppi í Garðastræti ætti að taka þessar ákvarðanir um húsnæðismál? Hæstv. ráðh. svaraði mér ekki um hvort félmrn. eða hann sjálfur hefði verið með í ráðum þegar þær hugmyndir voru reifaðar. Ég veit fyrir víst að eftir mörgum af mjög góðum tillögum milliþinganefndarinnar, jafnvel þótt þær hafi verið samþykktar í orði, hefur ekkert verið farið. Og spurningin er í raun: Var gengið að tillögum stjórnarandstöðunnar á sínum tíma af sýndarmennsku einni saman? Var þessari nefnd aldrei í raun ætlað að vinna af neinni alvöru? Var þetta friðþæging við kröfur stjórnarandstöðunnar á sínum tíma s.l. vor og átti aldrei í raun að taka mark á vinnu hennar sem vissulega, eins og hv. 3. þm. Reykv. tók fram, er orðin geysimikil og margar af þeim tillögum sem hún bar fram eru mjög góðar og viðamiklar?

Ég fór fram á utandagskrárumræður um húsnæðismál fyrir u.þ.b. tíu dögum eða tveim vikum, en sú umræða fékkst ekki. Ég tek undir að það er afleitt að þurfa að standa hér í fyrirspurnatíma með svo stuttan tíma sem þar gefur að ræða jafnmikilvæg mál sem brenna jafnheitt og illa á svo stórum hópi sem raun ber vitni. Hópurinn er í raun vaxandi þrátt fyrir tilraunir ríkisstj. til að bæta þar um. Það er fyrst og fremst vegna þess að ríkisstj. hugsar allt of stutt. Nú síðast á að taka 300 millj. kr. lán til byggingarsjóðanna, þ.e. byggingarsjóðirnir eiga að taka það hjá lífeyrissjóðunum. Og hver á að greiða vaxtamuninn á vöxtum lántöku og útlána? Er það næsta ríkisstj. eða þarnæsta? Það er alltaf verið að velta vandanum á undan sér. Við getum ekki endalaust haldið svona áfram. Hverju vill hæstv. ráðh. svara þessum spurningum sem ég bar fram núna?