11.03.1986
Sameinað þing: 57. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3053 í B-deild Alþingistíðinda. (2619)

310. mál, störf milliþinganefndar um húsnæðismál

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Ólíkt hv. þm. sem hér hafa talað tel ég fullkomlega eðlilegt, miðað við gang mála, að störf milliþinganefndarinnar verði hundsuð því að það var alveg augljóst þegar sú nefnd hafði starfað um þó nokkra hríð að það átti ekki að ná neinni niðurstöðu í þeirri nefnd, hún átti ekki að skila neinum árangri. Þetta var nefnd sem sett var saman að kröfu stjórnarandstöðunnar með fulltingi stjórnarflokkanna, en þeir gerðu það af sýndarmennsku einni sem kom glögglega fram í því að þegar sú nefnd hafði lokið störfum eins og kallað var og talað var um þann árangur sem af þeim störfum hafði hlotist, m.a. það að greiða ætti fyrir því að menn fengju skuldbreytingar í bönkum, þá kom í ljós þegar það mál var kannað nánar að engir höfðu haft af hálfu ríkisvaldsins samband við nokkra banka, hvorki hér í Reykjavík né annars staðar, til að greiða fyrir slíku.