11.03.1986
Sameinað þing: 57. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3057 í B-deild Alþingistíðinda. (2625)

314. mál, fjárhagsvandi Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar

Valdimar Indriðason:

Herra forseti. Örstutt. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir þessa fsp. sem á fullan rétt á sér í þingsölum eins og á stendur. Við miklu meira vandamál er að etja hjá Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar en hjá flestum öðrum en við skulum ekki fara út í það. Ekki er tími til að rekja hinar ýmsar ástæður sem því valda, en meginástæðan er sú að þetta er allt saman byggt á erlendu lánsfé og við þekkjum öll hvernig hefur farið með það á undanförnum árum. Vonandi er þetta að lagast. Ég lít svo á að þarna sé raunverulega eitt togaramálið enn að koma upp, því miður, sem við þurfum að takast á við.

Við getum ekki, fulltrúar þeirra byggðarlaga sem þarna eiga aðild að, horft upp á það að fólk búi þar við gjaldskrá sem var sennilega um 85% af olíuverði fyrir síðustu gjaldlækkun á olíu meðan Reykjavíkurneytendur greiða 28%. Ég er ekki að öfunda Reykvíkinga, en þetta er mismunun á búsetu sem við verðum að takast sameiginlega á við. Þetta er engin vandræðahitaveita, hún er við þekkta uppsprettu, það er hver sem hefur verið virkjaður. Þarna eru ekki eilífar boranir, þetta er allt saman þekkt. Það sem vantaði þarna upp á var meiri vatnsnotkun. Vatnssala var ekki fyrir hendi.

Þess vegna tek ég eindregið undir með fyrirspyrjanda fyrir okkar hönd þarna efra að við verðum snarlega að finna leið til þess að létta þessu af. Við erum ekki að biðja um gjöf heldur biðjum við um að þetta verði leiðrétt eins og mögulegt er til skamms tíma. Við getum ekki horft upp á að aðrir aðilar lækki sínar gjaldskrár um 7% meðan við verðum að hækka hjá okkur um 7-10% á sama tíma.