11.03.1986
Sameinað þing: 57. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3061 í B-deild Alþingistíðinda. (2631)

280. mál, starf ríkissaksóknara

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Hv. 8. þm. Reykv. hefur spurst fyrir um það hver hafi verið rök fyrir úrskurði frá 18. okt. 1985 um að ekki séu efnis- og lagarök fyrir ósk Tómasar Gunnarssonar lögmanns um að ráðuneytið skipi löghæfan mann til að endurupptaka og gegna starfi saksóknara í máli ákæruvaldsins gegn Þorgeiri Þorgeirssyni, nr. 3445/1985, fyrir Sakadómi Reykjavíkur.

Mál þetta snýst um það að Tómas Gunnarsson, lögmaður Þorgeirs Þorgeirssonar, sem ríkissaksóknari hefur höfðað mál á hendur fyrir Sakadómi Reykjavíkur, krafðist þess að dómarinn í málinu viki sæti. Krafan er sett fram í þinghaldi 24, okt. 1985 og er rökstudd með þessum hætti:

„Verjandi ákærða vísar til þess að fulltrúi ákæruvaldsins er ekki viðstaddur þetta réttarhald og hefur ekki verið viðstaddur fyrri réttarhöld í máli þessu. Einnig er vísað til þess að dómarinn hefur upplýst að ábending ákærða um að í ákæru fælist brot gegn ákvæðum 4. gr. höfundalaga, nr. 73/1972, hefur ekki komist til vitundar ákæruvaldsins. Með vísun til ákvæða 1. málsgr. 20. gr. laga nr. 74/1974, svo og með vísun til ákvæða 1. málsgr. 1. tölul. 36. gr. er talið af hálfu ákærða að það brjóti gegn lögum að einn og sami maður fari bæði með störf dómara og ákæruvalds í sama máli. Með vísun til þess að ekki hefur verið fallist á að breyta þessu fyrirkomulagi er gerð krafa um að dómarinn víki sæti í málinu.“

Dómarinn tók framangreinda kröfu til úrskurðar og með úrskurði uppkveðnum 25. sept. neitar hann að víkja sæti. Forsendur hans eru:

Mál þetta sætir ekki sókn og vörn skv. 130. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 74/1974. Krafa ákærða um að dómari víki sæti hefur ekki við nein rök að styðjast og er algerlega tilefnislaus. Er dómaranum hvorki rétt né skylt að víkja sæti.

Tómas Gunnarsson lögmaður tilkynnti dómaranum að hann kærði framangreindan úrskurð til Hæsfaréttar. Dómarinn sendi málið til ríkissaksóknara. Í XXI. kafla laga um meðferð opinberra mála, nr. 74/1974, er fjallað um kæru til æðra dóms. Skv. 171. gr. sömu laga verður úrskurður sem að framan greinir eigi kærður til Hæstaréttar nema ríkissaksóknari leyfi. Hann á þó sjálfstæðan kærurétt í því efni. Ríkissaksóknari hafnaði því að kæra framangreindan úrskurð með bréfi dags. 26. sept. 1985. Forsendur hans voru eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Að athuguðum rökstuðningi verjanda fyrir þeirri kröfu að dómari víki sæti í málinu, svo og forsendum úrskurðarins sjálfs, þá eru af hálfu nlcissaksóknara ekki talin efni til að kæra úrskurð þennan til Hæstaréttar og eigi heldur talin efni til að leyfa aðila að kæra úrskurðinn til Hæstaréttar.“

Með bréfi dags. 30. sept. 1985 óskaði Tómas Gunnarsson eftir því við ráðuneytið að það skipaði löghæfan mann til að endurupptaka og gegna starfi saksóknara við ákvörðun um það hvort leyfa skuli ákærða, Þorgeiri Þorgeirssyni, að skjóta til Hæstaréttar úrskurði Péturs Guðgeirssonar sakadómara um að hann skuli ekki víkja sæti í málinu sem upp var kveðinn 25. sept. 1985. En eins og áður segir hafnaði ríkissaksóknari þessari beiðni 26. sept. 1985. Ráðuneytið hafnaði framangreindri beiðni með bréfi dags. 18. okt. 1985. Í bréfi ráðuneytisins segir að hvorki efnis- né lagarök séu til að verða við framangreindri kröfu.

Eins og að framan er rakið var forsenda lögmannsins fyrir vikningu dómara sú að málið sætti ekki sókn af hálfu ríkissaksóknara. Í 130. gr. laga um meðferð opinberra mála eru ákvæði um hvaða opinber mál sæti sókn og vörn. Samkvæmt þeirri grein skulu eftirtalin mál sæta sókn og vörn:

„1. Mál þar sem refsing fyrir brot getur varðað yfir 8 ára fangelsi samkvæmt hegningarlögum nr. 19/1940.

2. Mál sem sæta ákæru ríkissaksóknara samkvæmt 115. gr., sbr. 2. málsgr. 21. gr., ef:

a. brot getur varðað yfir 5 ára fangelsi samkvæmt lögum nr. 19/1940 og lagaatriði eða sönnunar veita efni til slíkrar meðferðar, t.d. úrslit máls velta á líkum, mál er mjög umfangsmikið eða margbrotið;

b. sérstaklega þýðingarmikil vafaatriði eru í máli eða úrslit þess hafa annars mikla almenna þýðingu, hvort sem brot varðar við almenn hegningarlög eða önnur lög.

Ríkissaksóknari rannsakar og ákveður hverju sinni hvort mál er þess eðlis að það skuli sæta meðferð samkvæmt 2. tölul. þessarar greinar. Dómari skal í lok rannsóknar leita þess hvort ákærði æski þess að sókn og vörn verði flutt í máli hans ef dómara þykir vera mega heimild til að kveða svo á.“

Þorgeir Þorgeirsson var í máli þessu ákærður fyrir brot gegn 108. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt þeirri grein er hámarksrefsing þriggja ára fangelsi. Svo sem að framan greinir bar ríkissaksóknara ekki að láta flytja mál Þorgeirs. Kæra á úrskurði um að dómari víki sæti, á þeim forsendum sem raktar hafa verið, er að mati ráðuneytisins tilefnislaus og var ríkissaksóknara ekki skylt að verða við þeirri kröfu eins og rakið hefur verið. Ekki fæst séð að ríkissaksóknari hafi misfarið með vald sitt við ákvarðanatöku í máli þessu. Á þessum forsendum eru hvorki efnis- né lagarök til þess að skipa sérstakan saksóknara til að endurupptaka og taka ákvörðun um framangreint atriði.