11.03.1986
Sameinað þing: 57. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3062 í B-deild Alþingistíðinda. (2632)

280. mál, starf ríkissaksóknara

Fyrirspyrjandi (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmrh. fyrir mjög skýr og greinargóð svör og taka það sérstaklega fram. Ég er honum að vísu ekki sammála um hans niðurstöðu í þessu máli. Það kann vel að vera að hægt sé að finna lagarök fyrir þeirri niðurstöðu sem þarna var komist að. En ég tel ekki að það sé endilega það sama og að hægt sé að finna efnisrök fyrir þessari niðurstöðu einfaldlega vegna þess að það sér hver heilvita maður og það finnur hver heilvita maður sem á þetta hlustar að hér hefur farið fram mál þar sem um mjög greinilegan árekstur hagsmuna er að ræða. Það gildir einu þó að ákæruvaldið mæti ekki í réttinn eins og fram kom í máli hæstv. dómsmrh. Þar með er dómarinn orðinn ábyrgur fyrir ákæruvaldinu samkvæmt hefð og vana og þar með er hann orðinn raunverulega í augum hins ákærða fulltrúi ákæruvaldsins því að hann verður þá að halda uppi þeim skyldum sem ákæruvaldinu ber að halda uppi í réttinum. En ég kem nánar að því síðar, herra forseti, í næstu fsp.

Við skulum aldrei gleyma því að dómsvaldið á í engu öðruvísi stöðu í okkar samfélagi heldur en framkvæmdarvaldið. Dómsvaldið þiggur vald sitt frá okkur, löggjafanum, sem hér sitjum. Við semjum lög sem þeir vinna eftir og við setjum lög um fjármuni sem eiga að standa undir þeirri vinnu. Og það er okkar að meta það og dæma hvernig störf þeirra takast - bæði miðað við framkvæmd laganna sem við höfum fengið þeim í hendur og í sambandi við nýtingu þeirra fjármuna sem við höfum fengið þeim í hendur.

Ég tel að það að hengja sig í lagakróka í sambandi við það hvort ákæruvaldið eigi að mæta í réttarsal, miðað við það hvort hægt sé að hugsa sér þriggja, fimm eða átta ára dóm sem endanlega niðurstöðu málsins, sé ekki í anda þeirrar mannréttindahugsjónar sem við núna alla vega á þessum dögum þykjumst vinna og starfa fyrir og því mál til komið m.a. að breyta þeim lögum.