11.03.1986
Sameinað þing: 57. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3064 í B-deild Alþingistíðinda. (2636)

293. mál, starf ríkissaksóknara

Fyrirspyrjandi (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svör hans, en hef við þau því að bæta að samkvæmt 20. gr. laga nr. 74 21. ágúst 1974 segir svo í III. kafla um ákæruvaldið: „Ríkissaksóknari fer með ákæruvaldið.“ Án þess að ég lesi alla þá grein upp sem hefst á þessum orðum er það þó greinilegt samkvæmt þeirri hugsun, sem þar liggur að baki, að ákæruvaldið er án efa í höndum ríkissaksóknara og ef hann ekki mætir í réttinn þá er ýmsum hlutum ábótavant hvað réttindi þeirra manna snertir sem fyrir rétti eru. Við skulum hugleiða það m.a. að saksóknari hefur skyldur til rannsóknar. Í því felst náttúrlega hans sérstaða umfram aðra að hann hefur skyldur til rannsóknar á atriðum bæði til saka og sýknu hins ákærða. Hvernig ætlar ríkissaksóknari að uppfylla þessar skyldur öðruvísi en vera til staðar við réttarhöldin?

Hæstv. dómsmrh. nefnir algerlega með réttu að ástæður þess að saksóknari ekki mætir í réttarhöldum þeim, sem tilgreind eru í þeim lagagreinum sem dómsmrh. tilnefndi, eru þær að Alþingi hefur gefið honum möguleika til þess að létta honum störf sín. Með því er Alþingi náttúrlega um leið líka að létta á byrði sinni sem óhjákvæmilega hlyti af því að hljótast að ákæruvaldið mætti til réttarins. En þá er mín hugsun eða spurning - og nú verða menn að gæta þess að ég er hér ekki í neinu ákærumáli gagnvart hæstv. dómsmrh. heldur er ég miklu frekar að fjalla bara um ákveðinn efnislegan ágreining sem tengist þeim úrskurði sem ég gat um í þeirri fsp. - hvernig rétti þess fólks er varið sem ekki fær raunverulega varið sig gagnvart ákæruvaldinu sjálfu, heldur verður að tala við ákæruvaldið í gegnum dómara sem þegar á hólminn kemur, eins og kom fram í máli hæstv. ráðh. í sambandi við svar við fyrri fsp., er í raun og veru óábyrgur. Hann ber ekki ábyrgð á störfum saksóknarans og það er ekki hægt að krefjast þess að hann svari fyrir hann þegar um ágreining er að ræða á milli hins ákærða og ákæruvaldsins sjálfs. Og þá komum við einmitt að því atriði sem um var að ræða, að verjandinn í því máli sem hér var um að ræða vildi áfrýja ákveðnum úrskurði til Hæstaréttar, sem ríkissaksóknari, ákæruvaldið fræga sem ekki mætti á staðnum, hafnaði síðan eða taldi óþarft að færi til Hæstaréttar. Þegar ákæruvaldið er ekki á staðnum hljóta öll samskipti verjanda og ákærða við ákæruvaldið náttúrlega að gjalda þess, og það hlýtur að rýra mjög mannréttindi þeirra manna sem hér um ræðir, sem samkvæmt okkar lagaskilningi eru þó enn þá saklausir á meðan sekt þeirra hefur ekki verið sönnuð.