11.03.1986
Sameinað þing: 57. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3065 í B-deild Alþingistíðinda. (2638)

293. mál, starf ríkissaksóknara

Fyrirspyrjandi (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Svo að ég hnýti beint aftan í ræðu hæstv. ráðh., herra forseti, þá var krafan um það að dómarinn viki í þessu máli reist vegna þess að hann neitaði að taka til greina gagnrýni verjandans á ákveðin kæruatriði í kæruskjalinu. Og ekki var hægt að ræða þá hluti við ákæruvaldið þegar það var ekki á staðnum.

Þessir hlutir eru mikilvægir vegna þess að þegar ríkissaksóknari er ákæruvald þá flyst upplýsinga- og rannsóknarskyldan af herðum dómarans, sem venjulega hefur þá skyldu í einkamálum, á herðar ríkissaksóknara og málaferlin sjálf eru hluti af rannsóknar- og upplýsingaferlinum. Það er þess vegna sem það er svo mikilvægt, að ég tel, að saksóknari sé í réttinum að hann getur ekki öðruvísi sinnt til fullnustu skyldum sínum til þess að rannsaka öll atriði til saka og sýknu. En það er hans hlutverk fremur en dómarans þegar um ákæru saksóknara er að ræða.