11.03.1986
Sameinað þing: 58. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3068 í B-deild Alþingistíðinda. (2642)

315. mál, fjárstuðningur við Handknattleikssamband Íslands

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Sú tillaga, sem hér er til umræðu, flokkast undir það sem ég vil leyfa mér að kalla „popp-pólitík“ og er heldur ómerkileg pólitík að mínu mati. Ég skil hv. flm. mætavel. Það er ákaflega freistandi að hossa sér svolítið á þeirri fagnaðar- og hrifningaröldu sem reið yfir þjóðina meðan á heimsmeistarakeppninni stóð og það er mjög mannlegt að falla fyrir þeirri freistingu, en rangt eigi að síður.

Til að fyrirbyggja hugsanlegan misskilning vil ég taka fram að ég tilheyri þeim stóra hópi landsmanna, sennilega meiri hluta þjóðarinnar, sem fylgdist af miklum áhuga og eftirvæntingu með frammistöðu okkar manna í Sviss, gladdist og leiddist eftir atvikum og ég fagna innilega frábærri frammistöðu þeirra þar og tel þá alls góðs maklega. Glæsimörkin þeirra, eins og rætt er um hér í grg. með till., yljuðu sannarlega hjartaræturnar og þjóðarstoltið fékk ósvikna næringu. En það sem lagt er til í þessari till. er ekki rétta leiðin, að mínu mati, til að þakka þessa frammistöðu.

Alþingi hefur þegar samþykkt fjárveitingar til íþróttamála á þessu ári og sakar ekki að geta þess að í þrengingum undanfarinna ára, þar sem okkur hefur verið gert að skera niður til svo til allra mála, hafa íþróttamál notið sérstaks velvilja fjárveitingavaldsins. Væri hægt að nefna ýmsar prósentur og tölur því til sönnunar en ég hef þær ekki á reiðum höndum hér. Á þessu ári fær Íþróttasamband Íslands 22,5 millj. kr. og eftir því sem ég kemst næst mun Handknattleikssambandið fá í sinn hlut af þeirri upphæð eitthvað nálægt einni milljón. Auk þess fær ólympíunefnd 1,5 millj. kr. til umráða. Ef Alþingi vill létta þann róður, sem fram undan er, hefði e.t.v. verið eðlilegra að veita aukafjárveitingu til ólympíunefndarinnar eða þá í afreksmannasjóðinn.

Fyrst við erum nú að ræða fjárveitingar sakar ekki að minna á það að hæstv. fyrrv. fjmrh. veitti afreksmannasjóðnum af örlæti sínu 2 millj. kr. á s.l. ári, sem voru merktar heimsmeistaramótinu í Sviss, án þess að spyrja hæstv. Alþingi hvort það væri við hæfi. Svo að segja má að ríkissjóður sé þegar búinn að opna tóma kassann sinn töluvert þótt þm. væru einskis spurðir þá.

Hv. flm. tala um það í grg, með till. að hér sé um lítið brot af skattpeningum þjóðarinnar að ræða. Þetta litla brot mundi þó koma mörgum vel og ég get ekki stillt mig um að geta þess að sama dag og till. sexmenninganna birtist á borðum hér í Alþingi var þm. boðið að vera viðstaddir formlega opnun húss sem Félag einstæðra foreldra hefur keypt og innréttað til að leysa bráðan vanda einstæðra foreldra. Þetta framtak fær aðeins 300 þús. kr. styrk úr ríkissjóði á þessu ári. Verð ég þó að segja að mér fyndist ekki síður ástæða til að verðlauna frábæra frammistöðu þeirra hvunndagshetja sem af áræði og dugnaði hafa staðið þar að framkvæmdum þótt ekki væri það í beinni útsendingu í augsýn alþjóðar.

Það er líka spurning hvenær ástæða er til verðlaunaveitinga sem þeirra sem till. gerir ráð fyrir. Hefði þá ekki t.d. verið ástæða til að verðlauna Júdósamband Íslands þegar Bjarni fékk bronsið á Ólympíuleikunum eða Söngskólann þegar Sigríður Ella fær sérstakt lof Pavarotti fyrir frammistöðu sína í söng? Hvar á að draga mörkin? Það er ákaflega erfitt og ekkert skemmtilegt að vera að nefna svona dæmi og reyna að vega það og meta hvað eigi að verðlauna af hálfu Alþingis frekar en annað.

Ljóst er að nú er þörf átaks og mikillar vinnu til að fylgja eftir glæsilegri frammistöðu handboltamanna okkar og ég efast ekkert um að fjölmargir eru tilbúnir til að leggja fé af mörkum til þess að við höfum árangur sem erfiði á Ólympíuleikunum eftir tvö ár. Þeir verða örugglega tilbúnir til að kaupa happdrættismiða og styrkja Handknattleikssambandið með öðrum hætti.

Ég er reyndar undrandi á því að Handknattleikssamband Íslands skyldi ekki nota sér þetta dáleiðsluástand þjóðarinnar undanfarnar vikur með því t.d. að opna gíróreikning og óska eftir frjálsum framlögum að hætti t.d. Hjálparstofnunar kirkjunnar þegar náttúruhamfarir ógna tilveru manna eða hungur sverfur að fátækum þjóðum. Ég er viss um að peningar hefðu streymt inn á slíkan reikning, sérstaklega eftir sætan og verðskuldaðan sigur á frændum okkar Dönum. Kannske er ástæðan fyrir því, að ekkert slíkt var reynt, sú að starfsmenn Handknattleikssambandsins hafi allir verið á heimsmeistaramótinu og lái ég þeim það ekki.

Hv. 1. flm. hefur sennilega gengist fyrir því að blað hans, DV, lýsti sig reiðubúið til að veita viðtöku frjálsum framlögum manna til HSÍ og væri gaman að frétta hver viðbrögð urðu við því framtaki. Ég er sannfærð um að margir hv. þm., þar á meðal ég, eru fúsir til að greiða úr eigin vasa allsæmilega fjárupphæð til styrktar íþróttamönnum okkar. En við Kvennalistakonur teljum ekki við hæfi né eðlilegt að Alþingi samþykki fjárstuðning af því tagi sem hér um ræðir og finnst það raunar óviðkunnanlegt með tilliti til aumlegs ástands ríkissjóðs. Við teljum að samþykkt þessarar till. væri slæmt fordæmi.