11.03.1986
Sameinað þing: 58. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3075 í B-deild Alþingistíðinda. (2648)

315. mál, fjárstuðningur við Handknattleikssamband Íslands

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Það skal tekið fram að forseta hefur virst stundum bera nokkuð á því að þm. hefðu um of tilhneigingu til að líta svo á að tillögum sem fela í sér útgjöld fyrir ríkissjóð eigi að vísa til fjvn. Nú er það svo að margar ef ekki flestar tillögur fela á einn eða annan hátt, beint eða óbeint, í sér útgjöld fyrir ríkissjóð. Ef slíkum tillögum væri öllum vísað til fjvn. er hætt við að það yrði harla mikið að gera í fjvn. og harla lítil verkefni hjá þeim nefndum sem skv. þingsköpum eiga að fjalla um mál sem málefnalega heyra undir nefndirnar.

Með tilvísun til þessa hefur forseti þá skoðun að ekkert sé óeðlilegt að vísa þessari þáltill., sem hér hefur verið til umræðu, til fjvn.

Það segir í þingsköpum, svo sem hv. 5. landsk. þm. sagði, að fjvn. skuli fjalla um þær tillögur sem til hennar kann að vera vísað, eins og það er orðað. Það er að sjálfsögðu í valdi þingsins að ákveða það. En þetta mál, ef það verður að fjárveitingu, kemur til fjvn. samkvæmt öðrum leiðum. Skv. 41. gr. stjórnarskrárinnar má ekkert gjald greiða af hendi nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum. Ef þessi greiðsla verður innt af hendi þarf að leggja þá ráðstöfun fyrir Alþingi með frv. til fjáraukalaga og það frv. kemur til fjvn.

Það skulu ekki höfð fleiri orð um þetta, en forseti hefur margoft sagt að auðvitað getur það oft eða a.m.k. stundum, orkað tvímælis í hvaða nefnd á að vísa máli. En það er þingið sjálft sem að lokum tekur ákvörðun um það.