30.10.1985
Neðri deild: 11. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í B-deild Alþingistíðinda. (265)

20. mál, almannatryggingar

Flm. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breyt. á lögum um almannatryggingar, nr. 67/1971, með síðari breytingum. Frv. liggur frammi á þskj. 20 og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„1. mgr. 15. gr. laganna hljóði svo:

Mæðralaun skulu greidd ekkjum, ógiftum mæðrum og fráskildum konum sem hafa börn sín undir 18 ára aldri á framfæri sínu og eiga lögheimili hér á landi.

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Herra forseti. Breyting sú sem hér er lögð til er einföld: að greiðsla mæðra- og feðralauna miðist við 18 ára aldur en ekki 16 ára aldur eins og nú er. Meðlög eru nú greidd til 18 ára aldurs, svo og barnalífeyrir ef foreldri er látið eða öryrki, en áður náðu þessar greiðslur til 16 ára aldurs eins og mæðra- og feðralaunin gera nú.

Árið 1971 var sú lagabreyting gerð að meðlagsgreiðslur voru lögbundnar til 17 ára aldurs og með setningu barnalaga nr. 9/1981 lengdist greiðsluskylda meðlaga og barnalífeyris til 18 ára aldurs. Augljósar ástæður lágu til þessarar lagasetningar. Þær eru að með síauknum kröfum um menntun unglinga og starfsþjálfun í æ flóknara þjóðfélagi hefur skólaaldur unglinga lengst til muna og þeir eru mun lengur á framfæri foreldra en áður var. Er óþarft að fjölyrða frekar um þennan þátt málsins.

En þjóðfélag okkar hefur breyst að ýmsu öðru leyti. Ekki er unnt að loka augunum fyrir því að æ tíðara gerist að foreldri séu ein með börnum sínum, hjónabönd leysast oftar upp en áður gerðist og liggja eflaust til þess flóknar ástæður sem að verulegu leyti eiga rætur að rekja til þeirra þjóðfélagsbreytinga sem átt hafa sér stað á síðustu áratugum.

Menn skyldu ævinlega minnast þess þegar pólitískar ákvarðanir eru teknar, t.d. hér á hinu háa Alþingi, að þær hafa víðtæk áhrif á líf manna utan veggja þessa húss. Þó að flestir ef ekki allir stjórnmálaflokkar í landinu leggi áherslu á það í stefnuskrám sínum að stuðlað skuli að vernd og viðgangi fjölskyldunnar sem grunneiningar í þjóðfélaginu hefur pólitísk ákvarðanataka í landinu ekki verið í samræmi við það. Fjölskyldan hefur orðið hart úti í öllum ákvörðunum stjórnmálamanna á síðustu árum, jafnt fjárhagslega sem félagslega. Sú staðreynd stendur því eftir að í októbermánuði á þessu ári tóku 5474 einstæðar mæður mæðralaun hjá Tryggingastofnun ríkisins og 356 einstæðir feður tóku feðralaun á sama tíma. Á framfæri þessara einstæðu foreldra voru nú í október 7674 börn.

Nú er það svo að ákveðið hefur verið að til þess að framfleyta fjölskyldu þurfi báðir foreldrar að hafa atvinnutekjur. Þetta er ekkert sem hefur gerst, heldur hafa verið teknar um það ákvarðanir. Það heyrir nú sögunni til að einar atvinnutekjur nægi til að framfleyta fjölskyldu nema í undantekningartilvikum sem ekki skipta hér máli. Það er löngu ljóst að með aukinni þörf á atvinnuþátttöku kvenna úti í þjóðfélaginu hafa laun lækkað sem tekjum þeirra nemur. Þetta er staðreynd sem verkalýðssamtökin í landinu eru sjálfsagt treg til að viðurkenna, en er sannleikur engu að síður. Dæmin tala sínu máli í öllu þjóðfélaginu hvert sem litið er.

Í barnæsku minni voru kennarar vel launaðir menn sem bjuggu við tryggan og stöðugan fjárhag. Nú duga tvenn kennaralaun varla til framfæris fjölskyldu. Sjómenn unnu einir fyrir stórum fjölskyldum og það var hlutverk konunnar að annast heimilið. Slíkt fjölskyldumynstur er ekki algengt nú. Þannig mætti lengi telja, enda tala tölur um atvinnuþátttöku kvenna sínu máli. Yfir 80% giftra kvenna starfa nú einnig utan heimilis, auk allra einstæðra mæðra eða svo til.

Aðgerðir stjórnvalda á síðustu árum, sem rýrt hafa lífskjör launþega um allt að 45% samhliða því vaxtaokri sem lagt hefur verið á það fólk sem er að koma yfir sig húsnæði, hafa tæplega orðið fjölskyldunni til styrktar. Margfalt vinnuálag beggja foreldra og öryggisleysi um börn og hina öldruðu, sem orðið hafa hreinir útigangsmenn í samfélagi okkar, er ekki líklegt til að stuðla að farsæld fjölskyldunnar í þjóðfélaginu. Þvert á móti hefur öll stefna stjórnvalda miðað beint að upplausn þessarar margnefndu grunneiningar.

7674 börn eru nú í október á heimili annars foreldris. Þessi börn eiga allan sama rétt til vandaðs uppeldis og skilyrða til lífs og starfs og önnur íslensk börn. Til þess að svo megi verða hlýtur að verða að koma til móts við þá foreldra sem eru einir með börn sín. Annars eru þeim beinlínis búin allt önnur lífskjör en öðrum foreldrum í þessu landi. Varla er það vilji hv. alþm. að stór hluti landsmanna, um sex þúsund framfærendur barna í landinu, myndi hóp fátæklinga sem verða að lifa allt öðruvísi lífi en annað fólk í landinu. Og þegar þessi börn, sem þessir einstæðu foreldrar eru að ala upp nú, koma til starfa í þjóðfélaginu er ekki spurt hvernig heimilishögum þeirra var varið í uppvextinum, hvort foreldrar bjuggu saman. Það verður spurt: Hvað geta þau og hvað kunna þau?

Stjórnmálamenn hafa áhrif á alla þætti mannlífsins. Tölur hafa verið birtar nýlega um vaxandi fjölda fóstureyðinga hér á landi. Yfir 700 fóstureyðingar voru framkvæmdar árið 1984. Samkvæmt nýjum mannfjöldaspám sýnist Íslendingum fara fækkandi þegar líða tekur á öldina. Afkoma manna og aðstaða hefur vitanlega áhrif á fjölda barnsfæðinga sem annað og því er tími til kominn að hið háa Alþingi hugi að þessum málum áður en í algert óefni er komið. Íslenska þjóðin hefur ekki efni á að henni fækki.

Það er einfaldlega ekki álitlegt eða aðlaðandi að ala upp stóran barnahóp í landi okkar þessa dagana þegar allt sem lýtur að velferð barna er skorið niður við trog, fæðingarorlof, dagvistarheimili, skólakerfið, heilbrigðisþjónustan, húsnæðiskerfið og laun manna í landinu. Stjórnvöld verða því að axla þá byrði að afleiðing þessa er sívaxandi fjöldi einstæðra foreldra með börn á framfæri sínu sem samfélagið ber ábyrgð á til jafns við önnur landsins börn eigi að viðhalda mannfjölda í landinu sem verið hefur.

Það er óþarft að orðlengja hér um þá staðreynd að konur hafa miklum mun lægri laun en karlmenn og yfirgnæfandi meiri hluti barna einstæðra foreldra er á framfæri móður sinnar. Lífskjör þessara kvenna sýnast vera harla bág og tæplega skiljanlegt hvernig þær reka heimili sín við núverandi aðstæður. Samkvæmt mati neyðarþjónustu Húsnæðisstofnunar ríkisins er talið nokkuð ljóst að fjölskylda sem hefur 70 þús. kr. á mánuði í tekjur, hvort sem það eru báðir foreldrar eða annað, en skuldar í húsnæði eða húsnæðislán yfir 1 millj. kr., sem ekki er óalgengt, getur ekki haldið húsnæði sínu til lengri tíma með því að lifa eðlilegu lífi. Allar tekjur undir því marki eru því óraunhæfar til reksturs fjölskyldu. Og einstæðar mæður þurfa húsnæði ekki síður en aðrir framfærendur. Tekjur á borð við þær sem að framan var getið eru fátíðar í þeim hópi og að ég hygg nær óþekktar. Þær eru því ofurseldar leigumarkaði og allir þekkja hvernig kjör þar eru, fjárhagslega sem og félagslega. Stöðugir flutningar barna milli skólahverfa eru fæstum börnum hollir né heldur óhóflegt vinnuálag mæðra þeirra.

Við kjarakannanir undrast menn oft hversu háar tekjur margar þessara kvenna hafa þrátt fyrir allt, en skýringin á því er ofureinföld. Þær vinna margar hverjar jafnvel tvo átta stunda vinnudaga á einum sólarhring. Segir sig sjálft hver umhirða barna verður við slíkar aðstæður og ófyrirséð er hver áhrif slíkt líf hefur á allt menningarlíf þjóðar okkar til lengri tíma.

Sannleikurinn er sá að þúsundir íslenskra barna eru ein heima allan daginn eftir að skóla lýkur og gildir þá einu hvort um börn einstæðra foreldra er að ræða eða foreldra í sambúð. Myndböndin verða afþreyingarefni þessara barna sem smám saman staðna í málþroska og þar með öllum þroska sem ástæða er til að óttast að skaði hugsun þeirra þegar fram í sækir. Menn hugsa á móðurmáli sínu og takmörkuðum orðaforða fylgir þrenging á hugsun. Þetta líf er tvímælalaust stórhættulegt þroska þessara barna og þar með þjóðinni allri.

Herra forseti. Ég hef farið almennum orðum um uppeldisskilyrði þau sem íslensk börn búa við í sambandi við frv. það sem hér er á dagskrá. Með því vil ég leggja áherslu á að þau eru ákveðin hér í þingsölum. Þau eru ekkert sem gerist af sjálfu sér. Þau eru gerð. Frv. það sem ég mæli hér fyrir leysir ekki vanda íslensku fjölskyldunnar, en greiðslu mæðra- og feðralauna tveimur árum lengur en nú er tel ég létta undir með þeim þúsundum foreldra sem eru að berjast við að búa börn sín undir að taka við störfum í þjóðfélaginu sem best þeir mega.

Hækkun sú sem hér er lögð til kostar lauslega áætlað, þó trúlega nokkuð rétt, um 30 millj. kr. á ári. Þessa lauslegu áætlun hef ég fengið hjá Tryggingastofnun ríkisins. Það verður að teljast góð fjárfesting miðað við 815 millj. sem fóru í bifreiðakostnað ríkisins á síðasta ári eða milljóna risnukostnað ráðherra. Heildargreiðsla mæðralauna er nú um 20 millj. á mánuði yfir allt landið og yrði frv. að lögum hækkaði sú upphæð sem sagt um 2,5 millj. kr. á mánuði.

Meginatriði þessa máls er þó kannske að engin rök hníga að því að mæðra- og feðralaun séu greidd tveim árum styttra en meðlög og barnalífeyrir með sömu börnum. Allur andi löggjafans og þeirra laga sem hann hefur sett á undanförnum árum hefur verið sá að eðlilegt sé að greiðslur verði inntar af hendi með börnum þann tíma sem þau eru alla jafna við nám og undirbúning undir lífsstarf. Mæðra- og feðralaun hafa hér orðið eftir af einhverjum ástæðum og ég held að tími sé til kominn fyrir hið háa Alþingi að lagfæra það.

Herra forseti. Ég harma mjög hversu fáir hafa verið hér í salnum og hlýtt á mál mitt. Það er ekki óvenjulegt þegar málefni sem snerta velferð barna eru á dagskrá. Þá tekur hið háa Alþingi að þyrsta. En ég skora á þá þingmenn sem hér eru staddir, um leið og ég þakka þeim fyrir að hlýða á mál mitt, að vinna hver á sínum vettvangi að því að þetta frv. nái fram að ganga. Ég held að eins og málum er komið í þjóðfélagi okkar í dag sé það lágmarksmerki um að Alþingi sé ekki alveg sama um velferð barna í þessu landi og undirbúning þeirra undir lífið.

Herra forseti. Ég vil að lokum leggja til að þessu frv. verði vísað til hv. heilbr.- og trn. og skora á hv. þm. að veita því það brautargengi sem þeir mögulega geta.