11.03.1986
Sameinað þing: 58. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3076 í B-deild Alþingistíðinda. (2650)

315. mál, fjárstuðningur við Handknattleikssamband Íslands

Stefán Guðmundsson:

Herra forseti. Þessar umræður hafa nú farið á svolítið annan veg en ég bjóst við. Ég er meðflm. að þessari till. og get sagt að ég er stoltur af því að hafa fengið að skrifa upp á hana. Þess vegna eru vonbrigði mín meiri þegar ég heyri í ákveðnum þm., hvernig þeir tala.

Ég fagna því hins vegar og tek undir það sem þeir hafa sagt, 1. flm. þessarar till., hv. þm. Ellert Schram, og hæstv. iðnrh. Ég tek heils hugar undir flest það sem þeir sögðu um íþróttastarfið. Þar tala bæði Ellert Schram og hæstv. iðnrh. af þekkingu um þessi mál. Þeir hafa í áraraðir verið í fylkingarbrjósti íþróttastarfs í landinu.

Ég ætla aðeins að eiga orðastað við ágætan flokksbróður minn, hv. þm. Ólaf Þ. Þórðarson. Hann sagði í sambandi við till. að þar væri hlutunum snúið við þar sem skorað væri á fjmrh. o.s.frv. Mér finnst að Ólafur vinur minn fari hér með rökvillu því að með því að við alþm. samþykkjum þetta og skorum á fjmrh. að veita Handknattleikssambandinu 5 millj. kr. fjárstuðning erum við jafnframt því að lýsa vilja okkar til að þetta verði gert.

Mig langar að minnast á ræðu hv. þm. Kristínar Halldórsdóttur. Ég biðst velvirðingar ef ég hef ekki heyrt rétt, en ég vildi að ég hefði ekki heyrt hana segja það sem mér fannst hún segja að það væri óviðkunnanlegt að veita slíkan styrk. Ég hefði ekki viljað heyra hv. þm. segja þetta. Ég er undrandi á slíkum ummælum.

Það er rétt, eins og hér hefur komið fram, að framlag til íþróttahreyfingarinnar er ekki mikið, a.m.k. ekki að mínum dómi. Ég vonaði að hér væri enginn sem teldi að framlag til íþróttahreyfingarinnar væri of mikið. Það er að mínu mati allt of lítið. Við ættum að reyna að meta það, sjá og skilja hvers virði hið frjálsa félagsstarf er sem unnið er í íþróttahreyfingunni víðs vegar um land og hverju það skilar þjóðfélaginu. Ég er sannfærður um að það starf hefur hvergi verið metið sem skyldi. Íþróttastarfið vegur mikið í því að byggja upp heilbrigða æsku þessa lands og því ber vissulega að styðja íþróttahreyfinguna betur og meira en gert hefur verið.

Ég þarf ekki að ræða árangur handknattleiksmannanna. Við höfum öll fylgst með þeim árangri sem þeir hafa nú náð. Þetta eru ekki fyrstu sigrar okkar Íslendinga á íþróttasviðinu. Þeir hafa verið glæstir áður. En það vill svo til að þessi er sérstæður að því leyti að fram undan er þrotlaust starf þessara manna til að standa undir þeim árangri sem þarna náðist, til þess að keppa á Ólympíuleikunum, og það starf verður mikið og dýrt.

Ég kem hér upp til að skora á þm. að standa að samþykkt þessarar till. og ég er viss um að af því munu þm. frekar vaxa en hitt.

Umr. (atkvgr.) frestað.