12.03.1986
Efri deild: 61. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3082 í B-deild Alþingistíðinda. (2664)

332. mál, áfengislög

Flm. (Björn Dagbjartsson):

Virðulegi forseti. Það eru aðeins örfá orð til að fylgja þessum gamla kunningja úr hlaði. Ég þarf ekki að rekja fyrir hv. þm. Ed. hvernig þetta mál var afgreitt á vordögum síðast. Ég tel einnig öldungis óþarft að rifja upp rökræður um málið á síðasta þingi. Þær urðu eins og menn muna miklar og strangar, einkum í Nd., og sumum hv. þm. hitnaði í hamsi í þeim umræðum.

Ég tel að ekkert nýtt hafi komið fram, engin ný rök sem líkleg eru til að bíta, hvorki á andstæðinga né fylgjendur frv. Meðgöngutími hliðstæðs frv. á síðasta þingi var hátt í níu mánuðir og allan þann tíma var það til meðferðar í fjölmiðlum, sem og í þjóðlífinu, sem eitt helsta mál þingsins. Málið er síðborið nú einmitt vegna þess að það þarf ekki langa umfjöllun, hvorki á Alþingi né þaðan af síður í fjölmiðlum. Í lok grg. segir svo, með leyfi forseta:

„Markmiðið með flutningi þessa frv. nú er að freista þess að Alþingi afgreiði þetta mál fyrir sitt leyti, en þjóðin öll fái þó jafnframt tækifæri til að láta í ljós álit sitt. Alþingi þarf þá ekki að láta málið til sín taka á nýjan leik.

Frekari athugasemdir eru raunar óþarfar. Sú málamiðlunarlausn sem ofan á varð í Nd. var auðvitað ekki öllum að skapi. Þó verður að ætla að þeir sem gátu fellt sig við þetta orðalag frv. þá geti það enn.“

Ég vil sérstaklega taka það fram að ákvæðið um þjóðaratkvæðagreiðslu var ekki sett hér vegna þess að það sé okkur flm. svo ákveðið að skapi heldur af því að við teljum að meiri hl. þessarar hv. þingdeildar geti sæst á þessa tilraun til að fá málinu afgreiðslu frá hv. Alþingi.

Ég vona svo að málið fái þinglega meðferð í báðum deildum ef það verður samþykkt í þessari. Ég vona einungis að menn fái að greiða atkvæði um málið sjálft með eðlilegum hætti.

Ég þakka hæstv. forseta fyrir að hafa leyft mér að mæla fyrir þessu máli nú þar sem það er að vísu ekki lengi búið að bíða afgreiðslu, en ég er á förum af þingi fram í aprílmánuð.Ég legg svo til að því verði vísað til hv. allshn.