12.03.1986
Neðri deild: 63. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3084 í B-deild Alþingistíðinda. (2667)

54. mál, sveitarstjórnarlög

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það væri vissulega ástæða til þess að tala langt mál hér við 3. umr. þess máls sem nú er komið á dagskrá. Hins vegar er sá sem hér stendur ekki vanur því að flytja langt mál og mun trúlega ekki gera það nú, en til þess væri fullkomin ástæða. En ég held að það sé ástæða til þess núna við þessa umræðu að rifja upp hvernig þetta mál hefur verið afgreitt hér og því nánast rutt í gegnum deildina í andstöðu við meirihlutavilja þingdeildarmanna. Það er nauðsynlegt að rifja það upp að hér er um stjfrv. að ræða. Þannig stendur málið að fyrir samþykkt margra greina þess er ekki meiri hl. þdm. hér í hv. Nd.

Þetta mál hefur farið í gegnum tvær umræður og mætt mikilli andstöðu, ekki bara stjórnarandstæðinga heldur og ekki síður stjórnarliða sjálfra hér í hv. deild. Þeir hafa hver á fætur öðrum komið hér upp í ræðupúlt og andmælt þessu frv. Einhvern tíma hefði það þótt fréttnæmt hjá fulltrúum fjölmiðla hér á Alþingi - ég tala nú ekki um sjónvarp og hljóðvarp - að slíkir erfiðleikar ættu sér stað að troða ætti stjfrv. í gegnum þingdeildina án þess að hafa meiri hluta þingdeildarmanna með málinu. Ekki hef ég orðið var við að fjölmiðlar þessarar stofnunar hafi eytt að því einu orði að slíkir hlutir hefðu átt sér stað hér þó að vissulega væri ástæða til slíks.

Þetta frv. virðist vera afskaplega óvelkomið hér á Alþingi. Ég er ekki hissa á því vegna þess að efnislega er þetta frv. nánast ekki nema um þrjú atriði en eigi að síður á annað hundrað frumvarpsgreinar. Hér er um að ræða í fyrsta lagi kjördagsákvörðunina, í öðru lagi kosningaaldurinn og í þriðja lagi það að víkja sýslumönnum eða sýslunefndunum burtu. Þetta er meginefni frv. sem menn koma hér fyrir í á annað hundrað greinum í frumvarpsformi. Þó að ég sé hlynntur þessum þremur efnisatriðum, sérstaklega þó tveimur, þ.e. kjördegi og kosningaaldri, tel ég of mikið í lagt að leggja upp með málið í þeim búningi sem hér um ræðir.

Staðreyndin er sú að öllum meginvandamálum, sem lúta að sveitarstjórnarmálum, er vikið til hliðar. Hæstv. ríkisstj. hefur vikið til hliðar þeim meginmálum sem nú lúta að sveitarstjórnarmálum og byggðinni sem heild úti á landi. Muna menn ekki loforðin um það að dreifa valdinu, flytja valdið til heimaaðilanna, til sveitarstjórnanna og fólks úti á landsbyggðinni? Hvað gerist með þessu frv.? Það er þveröfugt. Valdið er dregið úr höndum dreifbýlisfólks til þéttbýlissvæðisins, þveröfugt við það sem lofað hefur verið.

Þetta er hrikaleg staða þegar til þess er hugsað, eins og málin standa í dag, að gífurlegur fólksflótti á sér stað frá landsbyggðinni hingað á þéttbýlissvæðin. Menn ættu að vera farnir að þekkja ástæðurnar fyrir slíkum fólksflótta. En það er ekki svo að sjá eða heyra að þeir sem ferðinni ráða núna í íslenskum stjórnmálum hafi gert sér grein fyrir því hvað er hér á ferðinni.

Af hverju skyldi það vera sem fólksflótti er brostinn á enn einu sinni, nánast af manna völdum, frá dreifbýli til þéttbýlis? Það er fyrst og fremst vegna þess að kjör fólks úti á landsbyggðinni eru miklum mun verri en gerist hér á þéttbýlissvæðinu.

Ég hef oft minnst á það hér í ræðustól - og raunar fleiri - að menn trúa því vart núna t.d. að kyndingarkostnaður íbúðarhúsnæðis úti á landsbyggðinni er á heimili 7-8 þús. kr. á hverjum einasta mánuði. Þetta er bara einn þátturinn. En þeir eru fleiri sem eru hliðstæðir þessum og ástæða er til að gefa gaum að. Ég held að það sé augljóst mál að ef fram heldur sem horfir og stjórnvöld ekki spyrna við fótum - ef það verða þá ekki aðrir sem taka fram fyrir hendur þeirra - þá er vart séð með hvaða hætti þetta fólksflóttadæmi endar sem nú stendur yfir með fólk frá dreifbýli til þéttbýlisstaðanna. Hér er fyrst og fremst um að ræða flutning hingað á Reykjavíkursvæðið. Það er skiljanlegt þegar ekki verður annað séð en allt sé gert til að þyngja róður landsbyggðarfólks en ýta undir að valddreifingin eigi sér stað á þann veg að byggja upp hér á þessu landshorni.

Það er líka ástæða til að minna á í þessu sambandi að á sínum tíma eða fyrir um tveimur árum síðan var kosin hér að tilhlutan formanna stjórnmálaflokkanna nefnd innan þingflokkanna til að vinna að úrbótum, gera tillögur um sérstakar aðgerðir til að jafna félagslega og efnahagslega aðstöðu manna þar sem mismunar vegna búsetu gætir. Tvö ár eru síðan þessi nefnd komst á laggir. Enn hef ég ekki séð tillögur um það hvað beri að gera í þessum efnum.

Ég held því miður að þeir sem ferðinni ráða á Alþingi nú og hafa raunar gert áður geri sér ekki grein fyrir hversu alvarlegt mál hér er á ferðinni. Kannske finnst mönnum einkennilegt að ég ræði þetta hér undir þessum dagskrárlið. Eigi að síður finnst mér þetta tengjast því máli sem við erum nú um að tala.

Ég held að það verði ekki undan því vikist og það verði að gerast fyrr en seinna að menn taki til við að breyta til frá því sem nú er, létta byrði fólksins úti á landsbyggðinni, ef ekki á í verra að stefna en nú er og stjórnvöld geri gangskör að því að breytt verði um stefnu.

Það hefur komið fram í umræðum frá fleiri en einum og fleiri en tveimur hv. þm. að menn andmæla sterklega ýmsum atriðum í þessu frv. Ég er þeirrar skoðunar að það væri nóg að lögfesta nánast þrjú atriði úr því frv. sem hér um ræðir. Ég hef leyft mér ásamt hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur, Kristínu S. Kvaran, Guðmundi Einarssyni og Hjörleifi Guttormssyni að flytja brtt. nú við 3. umr. þessa máls og freista þess að koma til liðs við þá stjórnarliða sem andvígir hafa verið þessu frv. alla tíð og færa það í þann búning sem það ætti að vera í miðað við kringumstæður nú.

Þessi brtt. er á þskj. 607. Hún er afskaplega einföld og auðskilin og hljóðar svo:

„1. 1.-12. gr. falli brott.

2. 14.-18. gr. falli brott.

3. 20.-120. gr. falli brott.

4. Við bætist ný grein er orðist svo:

Lög þessi öðlast þegar gildi og skulu koma til framkvæmda við almennar sveitarstjórnarkosningar árið 1986.

5. Fyrirsögn frv. verði: Frumvarp til laga um viðauka við sveitarstjórnarlög.“

Svona einfalt er að gera þetta mál úr garði þannig að það nýtist við þær aðstæður sem við nú búum við. Hér er um það að ræða að lögfesta kjördaginn, að lögfesta kosningaaldurinn, eins og menn virðast vera sammála um, og að láta lögin koma til framkvæmda við sveitarstjórnarkosningar í ár og frv. verði viðauki við gildandi sveitarstjórnarlög.

Ég held að það væri afskaplega slæmt fyrir málið sem heild - og þá er ég ekki bara að tala um þetta frumvarpsræksni, eins og nánast má orða það, sem nú er til umræðu, þá er ég að tala um málið sem heild sem snýr að sveitarstjórnum og fólki fyrst og fremst úti á landsbyggðinni - að fara að lögfesta það frv. sem hér er nú til lokaumræðu í deildinni. Ég held að menn spilltu frekar fyrir því sem þarf að gera, hefði þurft að vera búið að gera, ef menn fara nú að lögfesta þetta með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir. Ég held því að það væri rétt að þm. almennt veltu því fyrir sér hvort ekki sé skynsamlegra að fara þessa leið, sem hér er lagt til, og gera gangskör að því að efnislega verði eitthvað gert til bóta fyrir það fólk, þau sveitarfélög sem fyrst og fremst eiga í vandræðum nú.

Ég skal ekki, virðulegi forseti, hafa þessi orð öllu fleiri nema því aðeins að ástæða gefist til. Ég hygg að menn ættu að skoða hug sinn vel áður en þeir hafna þessari leið í ljósi þess sem hefur verið að gerast, er að gerast og kann að gerast í áframhaldi af því að lögfesta það frv. óbreytt sem liggur nú fyrir deildinni.