12.03.1986
Neðri deild: 63. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3086 í B-deild Alþingistíðinda. (2668)

54. mál, sveitarstjórnarlög

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Þetta mál hefur nú þegar verið rætt nokkuð. Það er eðlilegt því að hér er um að ræða einn grundvallarþáttinn í stjórnskipun landsins og þess vegna ekki að undra þó að menn vilji fara rækilega yfir þetta mál hér.

Ég hef ekki blandað mér í þessa umræðu til þessa en tel óhjákvæmilegt nú við 3. umr. að láta nokkur sjónarmið koma fram varðandi málsmeðferðina alla og þá það sérstaklega að menn athugi sinn gang mjög vel gagnvart þeirri till. sem hv. 3. þm. Vestf. mælti fyrir áðan.

Það er ekki til bóta þegar kemur að máli um mikilvæga grundvallarþætti í stjórnskipun landsins að það sé keyrt í gegn með örfáum atkvæðum hér á Alþingi, jafnvel minni hluta atkvæða, eins og var hér við atkvæðagreiðsluna á dögunum þegar einstakar greinar fóru, jafnvel í gegn með 18 eða 19 atkvæðum hér í hv. deild. Ég held að stjórnvöld eigi að hyllast til þess að reyna að stuðla að sem allra víðtækustu samkomulagi þegar um er að ræða mál eins og skipan þessa stjórnsýslustigs sem sveitarstjórnirnar eru.

Ég bendi á að fyrir fáeinum árum voru samþykkt lög um breytingu á kosningalögum sem vissulega voru umdeild. Þær breytingar voru og eru mjög umdeildar en það var engu að síður ljóst að allir þeir sem stóðu að þeirri breytingu lögðu á það áherslu að reyna að ná sem víðtækustu samkomulagi um málið. Hérna er hins vegar allt önnur aðferð uppi. Hér er gerð tilraun til þess að brjóta niður mjög stóran minni hluta þingsins, minni hluta þessarar hv. deildar í þessu stóra máli, og stjórnarliðið virðist ætla að skella skollaeyrum við öllum ábendingum sem fram koma, ekki einasta frá stjórnarandstöðunni heldur einnig frá einstaka þm. í stjórnarflokkunum.

Ég held að meiri hluti Alþingis og hæstv. ríkisstj. þurfi að gera sér grein fyrir því hvað það er í raun og veru alvarlegur atburður að hún skuli ganga fram með þessum hætti. Það er alvarlegur atburður m.a. fyrir þingræðið í landinu og þá nauðsyn að það sem héðan kemur og varðar stjórnskipunina sé sem best undirbúið og eigi sem sterkastan og stærstan meiri hluta hér á hv. Alþingi.

Ég tel þess vegna að sú till. sem flutt er af fimm hv. þm. á þskj. 607 sé skynsamleg samkomulagstilraun. Ég tel að till. hv. þm. Karvels Pálmasonar, Kristínar Halldórsdóttur, Kristínar S. Kvaran, Guðmundar Einarssonar og Hjörleifs Guttormssonar sé samkomulagstilraun, tilraun til þess að fá meiri hluta Alþingis til að standa að þeim breytingum á sveitarstjórnarlögunum sem allir eru sammála um að rétt er að gera en fresta hinu sem er umdeilt hér meðal þm. Og ég vara ríkisstj. í fullri alvöru við að gera tilraun til að knýja fram breytingar á sveitarstjórnarlögum með þeim hætti sem gert var hér í deildinni fyrir nokkrum dögum. Þá gerðist það að einstakar greinar voru samþykktar með minni hluta atkvæða og fóru hér í gegn vegna þess að einn og einn þm. úr stjórnarandstöðunni hjálpaði til við að koma málinu áfram með því að greiða atkvæði á móti viðkomandi grein. Ég held þess vegna að í fullri alvöru eigi hæstv. félmrh. að íhuga mjög vandlega það samkomulagstilboð sem felst í till. Karvels Pálmasonar o.fl. á þskj. 607. Þar eru tekin út úr þau atriði sem snerta kosningaaldurinn og kjördaginn en öðrum atriðum er frestað. Jafnframt hefur komið fram að stjórnarandstöðuþingmenn og fleiri eru tilbúnir til þess fyrir sitt leyti að leggja í það vinnu á komandi mánuðum að reyna að stuðla að víðtæku samkomulagi um þessi sveitarstjórnarmál. Ég held að það sé mikill ábyrgðarhluti sem varaformaður Sjálfstfl. og hæstv. félmrh. eru að beita sér fyrir, að reyna að knýja Alþingi til þess að afgreiða mál af þessu tagi í bullandi ósamkomulagi og ágreiningi.

Ég vil leggja á það sérstaka áherslu, herra forseti, að ég tel að till. Karvels Pálmasonar o.fl. sé samkomulagstilraun. Hún er tilraun til þess að ná samstöðu um meginatriði og síðan að ákveða að menn taki sér fyrir hendur að skoða þessi mál í heild á komandi mánuðum.

Ég vil inna hæstv. félmrh. sérstaklega eftir viðhorfi hans til þessarar tilraunar til samkomulags sem hv. þm. Karvel Pálmason og fleiri þm. gera og fá upplýsingar um það hvort hann vill standa að slíku samkomulagi um meðferð sveitarstjórnarmálanna á þessu þingi.

Ég tel, herra forseti, að í frv. séu fjöldamörg ákvæði mjög gölluð og hæpin, mörg gagnslítil eða gagnslaus. Þegar það hefur nú gerst að öllum tillögum minnihlutans hefur verið hafnað við 2. umr. málsins, m.a. tillögum frá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, tel ég að í rauninni væri eðlilegast að stjórnarliðið og stjórnarmeirihlutinn, þó knappur sé, skoðaði alvarlega á sínum þingflokksfundum þessa samkomulagstilraun á þskj. 607. Till. Karvels Pálmasonar o.fl. þýðir ósköp einfaldlega það að málinu yrði öllu skotið á frest í eitt ár eða svo, til næsta þings. Það er eðlilegur og sjálfsagður hlutur og það er algjörlega fráleitt að knappur meiri hluti Alþingis reyni að keyra í gegn grundvallarþátt í stjórnskipuninni eins og þennan.

Ég vil þá víkja að einstökum atriðum þessa frv. og staðnæmast sérstaklega við eitt mál. Fari svo að meiri hlutinn reyni að knýja málið fram þrátt fyrir till. þá sem ég hef gert að umtalsefni tel ég nauðsynlegt að hér liggi fyrir tillaga sem snertir sérstaklega borgarfulltrúa í Reykjavík og að afstaða þingsins til þeirrar tillögu liggi fyrir.

Í 31. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um það hversu margir þm. eiga að vera í þessu kjördæmi, Reykjavík. Gert er ráð fyrir því að þeir eigi að vera, eins og íbúafjölda er nú háttað, a.m.k. 18 talsins. Ég tel að það sé algjörlega óeðlilegt fyrirkomulag að vera með færri fulltrúa í sveitarstjórninni en þingmannafjölda viðkomandi byggðarlags nemur. Menn geta hugsað til þess hvernig þetta liti út í hinum ýmsu byggðarlögum úti um landið ef slík staða væri allt í einu komin upp. Frá sjónarmiði mínu er þetta algjörlega fráleitt fyrirkomulag. Það var þess vegna mjög alvarlegur hlutur að meiri hluti deildarinnar skyldi, við meðferð málsins hér við 2. umr., fella brtt. hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar við 11. gr. frv. Að henni fallinni held ég að engu að síður sé athugandi að kanna hvort unnt er með skírskotun til stjórnarskrárinnar að ná samkomulagi sem snerti sérstaklega borgarfulltrúafjöldann í Reykjavík. Mín tillaga mundi vera eitthvað á þá leið að við 11. gr. bættist ný málsgr. svohljóðandi:

„Þó skulu borgarfulltrúar í Reykjavík aldrei vera færri en þm. í kjördæminu, sbr. 31. gr. stjórnarskrárinnar.“

Í frv. eins og það lítur núna út er gert ráð fyrir að í Reykjavík geti verið 15-27 borgarfulltrúar, sveitarstjórnarmenn. Við vitum að á undanförnum árum hefur Sjálfsttl. haldið sig við það að hér væru aðeins 15 menn í sveitarstjórn. Á síðasta kjörtímabili sameinuðust vinstri flokkarnir um að miða við að borgarfulltrúar væru 21. Því var breytt þegar eftir síðustu kosningar. Það er bersýnilegt af niðurstöðu meiri hluta Alþingis, þrátt fyrir þetta, og einnig Sjálfstfl. á hv. Alþingi að Sjálfstfl. og aðrir þingflokkar telja að borgarfulltrúafjöldinn í Reykjavík sé algjört svartalágmark, algjört svartalágmark, þ.e. 15 borgarfulltrúar. Ekki er opnað fyrir þann möguleika að farið verði lægra með fjölda sveitarstjórnarmanna í Reykjavík en í 15. Hins vegar hefur meiri hlutinn á Alþingi og þar á meðal Sjálfstfl. nú staðið að því að borgarfulltrúar í Reykjavík geti farið upp í töluna 27. Þar með er augljóst mál að yfirgnæfandi meiri hluti þm. er þeirrar skoðunar að núverandi fjöldi borgarfulltrúa sé hreint lágmark og að eðlilegra væri að gera ráð fyrir nokkru hærri tölu.

Ég er hér með tillögu til samkomulags í þessu efni sem gengur ósköp einfaldlega út á það að borgarfulltrúar í Reykjavík verði aldrei færri en þingmannafjöldi í viðkomandi kjördæmi og ég vil skora á hv. þm. að íhuga þessa brtt., þegar hún kemur fram, mjög vandlega. Ég vil síðan, herra forseti, víkja nokkuð að þeim orðum hv. þm. Karvels Pálmasonar sem lutu að svokallaðri byggðanefnd. Árið 1983“ þegar kjördæmaskipuninni, kosningalögunum, var breytt, var gefin út um það yfirlýsing af formönnum stjórnmálaflokkanna sem þá áttu fulltrúa á Alþingi að sérstök byggðanefnd yrði skipuð til að stuðla að betra jafnvægi í byggð landsins. Þessi yfirlýsing var síðan undirstaða þess að skipuð var sérstök byggðanefnd, sem hefur verið til-ég ætlaði að fara að segja starfað, herra forseti - um nokkurra ára skeið, undir forustu hv. fyrrv. þm. Lárusar Jónssonar.

Ég hef af því fregnir að mjög lítið hafi gerst í þessari nefnd. Ég held að það sé alveg ljóst að við, sem áttum aðild að yfirlýsingunni frá 1983 um þessa nefnd, gagnrýnum það hvernig á málum hefur verið haldið með nefnd þessa af hálfu hæstv. núv. forsrh. Hæstv. forsrh., formaður Framsfl., ber ábyrgð á þessari nefnd. Hann skipar hana og hún starfar á hans ábyrgð. Ég tek undir þá gagnrýni sem fram kom hjá hv. 3. þm. Vestf. í þessu efni. Það er auðvitað algjörlega fráleitt hvernig með þessi mál hefur verið farið. Ég tel að vinnubrögð nefndarinnar hafi ekki verið í neinu samræmi við þá yfirlýsingu sem við gáfum, formenn flokkanna, vorið 1983, auk mín hv. þm. Kjartan Jóhannsson, hv. fyrrv. þm. Geir Hallgrímsson, fyrrv. hæstv. utanrrh., og svo núv. forsrh., formaður Framsfl. Ég fyrir mitt leyti gagnrýni vinnubrögð þessarar nefndar mjög harðlega vegna þess að við hana voru bundnar miklar vonir og vegna þess að mjög hefur hallað á ógæfuhliðina í byggðamálum á undanförnum árum. Ég tel að vinnubrögð forsrh. í þessu efni, slappleiki og kæruleysi, séu sérstaklega gagnrýni verð. Ég tel ástæðu til að fagna því að umræða um þessa nefnd mun fara fram á næstunni. Ég mun taka þátt í þeirri umræðu og ræða þessi mál við hæstv. forsrh. sem ber ábyrgð á þeim handarbakavinnubrögðum sem um er að ræða í nefndinni til þessa.