30.10.1985
Neðri deild: 11. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í B-deild Alþingistíðinda. (267)

20. mál, almannatryggingar

Heilbr.- og trmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Mér þykir nauðsynlegt að það komi fram í sambandi við umræðu um þetta mál, sem fyrst og fremst byggist á því sem fram kom m.a. hjá síðari hv. ræðumanni, að hér er fyrst og fremst um kjaramál einstæðra foreldra að ræða. Það er engan veginn svo að málefnum þessa hóps hafi ekki verið verulega og sérstaklega sinnt í tíð þessarar ríkisstj. Á þeim tíma sem liðinn er af kjörtímabilinu hafa mæðralaunin margfaldast. Þau hafa margfaldast langt umfram aðrar tryggingabætur. Ég tel ástæðulaust annað en að láta þetta koma fram.

Það má vissulega færa rök fyrir því að haldast eigi í hendur sá aldur barna sem mæðralaunin miðast við og aldurinn sem barnalífeyririnn miðast við, mér þykir það vera rökrétt, en hitt vil ég draga fram að svo stóð á að ég afhenti hæstv. forseta sameinaðs þings í gær skriflegt svar við fsp. hv. forseta Ed., Salome Þorkelsdóttur, þar sem hún spyr einmitt um hækkanir á tilteknum bótaflokkum almannatrygginga frá 1. júní 1982 og til 1. okt. 1985. Athugun ráðuneytisins á þessu máli hefur sýnt að bætur hafa hækkað mjög mismunandi á þessu tímabili. Þannig hefur ellilífeyrir einstaklinga hækkað úr 1992 kr., er hann var, einungis þessi upphæð, 1. júní 1982, í 5354 kr. 1. okt. 1985. Þarna er auðvitað um grunnupphæðina að ræða sem tekjutryggingin kemur ofan á. Þessi hækkun er um 169%. Hins vegar hafa mæðralaunin með einu barni hækkað á þessu tímabili úr 175 kr. 1. júní 1982 í 2055 kr. 1. okt. 1985 eða um 1074%. Þetta er hækkun af því tagi að ég tel nauðsynlegt að láta hennar getið þegar verið er að ræða um það og látið í veðri vaka að ríkisstjórnin eða Alþingi sinni ekki þörfum þess hóps sem hér er um að ræða.

Ég geri ráð fyrir að þessu skriflega svari verði útbýtt á borð þm. fljótlega. Þar kemur fram, auk þeirra upplýsinga sem hér hafa verið nefndar, sem voru að hækkunin á mæðralaunum fyrir eitt barn hefur á þessu tímabili verið 1074%, að hækkun á mæðralaunum fyrir tvö börn hefur verið 467% og á mæðralaunum fyrir þrjú börn eða fleiri 403%.

Þetta þótti mér rétt að láta koma fram, herra forseti, við umræðu þessa máls.