30.10.1985
Neðri deild: 11. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í B-deild Alþingistíðinda. (268)

20. mál, almannatryggingar

Flm. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég vil aðeins þakka hv. þm. Guðrúnu Agnarsdóttur fyrir undirtektir við þetta mál. Ég vænti að þögn hinna sé samþykki við svo sjálfsögðu máli.

Því miður var ekki unnt að heyra á máli hæstv. heilbr.- og trmrh. hvort hún styður þetta mál að öðru leyti en því að hún er sammála því að óeðlilegt ósamræmi sé milli greiðslu meðlaga og barnalífeyris. Um það getum við verið sammála.

Það er öldungis rétt sem hún tók fram hér, þó það mál væri ekki beinlínis á dagskrá og þess vegna sá ég enga ástæðu til að fara út í það, vissulega er það alveg rétt að mæðralaun hafa hækkað verulega, en sannleikurinn er sá að áður en sú hækkun varð voru þau beinlínis hlægileg og allt að því móðgun við þá sem við þeim tóku. Það var því mál til komið að gera þar bragarbót. (Heilbr.- og trmrh.: Í stjórnartíð flokksmanna hv. þm.) Meðal annars, hæstv. ráðh. Ég er ekki að flytja þetta mál til að lofa og prísa ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens. Ég held að hún verði að standa undir því sem hún gerði. Ég sé ekki neina ástæðu til að vera útvörður hennar. Mæðralaun og feðralaun voru jafnt til skammar hvað upphæð snerti í tíð hennar og annarra ríkisstjórna.

En til þess að allur vafi sé af tekinn skal hv. deild upplýst um að mæðralaun með einu barni eru nú 2055 kr. á mánuði, með tveimur börnum 5383 kr. og með þremur börnum og fleiri 9547 kr. Ekkjubætur eru nú fyrstu sex mánuði og tólf mánuði í viðbót ef kona hefur barn á framfæri 6708 kr. á mánuði. Ung ekkja með þrjú börn getur þess vegna fengið 15 000 kr. í stuðning frá ríkinu til þess að ala upp og halda heimili fyrir þrjú börn sín eða fleiri. Það segir sig sjálft að jafnvel þó konan stundi atvinnu er það ekki ýkjamikill stuðningur. Að vísu kæmi þarna barnalífeyrir til, en svo sannarlega mundi þessari fjölskyldu ekki veita af að fá þessa greiðslu tveim árum lengur en nú er, þ.e. að mæðralaun verði greidd jafnlengi og meðlög og barnalífeyrir.

Það sem hér er um að ræða er að við berum jafna ábyrgð á uppeldi allra barna í þessu landi. Eins og ég sagði áðan: Þegar þau koma til starfa í þjóðfélaginu verða þau ekki spurð hvort þau bjuggu hjá báðum foreldrum. Þau eru spurð um hvað þau geti, hvað þau kunni, hvað þau geti lagt af mörkum. Og það er ábyrgð okkar allra að öll börn í þessu landi sitji við sama borð hvað uppeldisskilyrði og menntunarmöguleika varðar. Þess vegna vil ég enn og aftur ítreka að ég treysti því að hið háa Alþingi veiti þessu máli gengi. Það er áreiðanlegt að öðru eins er eytt í hreinan óþarfa eins og þessum 30 millj. kr. sem það mundi kosta á ári að inna þessar greiðslur af hendi til 18 ára aldurs barnanna.