13.03.1986
Sameinað þing: 60. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3113 í B-deild Alþingistíðinda. (2682)

319. mál, dómshús fyrir Hæstarétt Íslands

Flm. (Jón Sveinsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um dómhús fyrir Hæstarétt Íslands á þskj. 590. Till. er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að gera Safnahúsið við Hverfisgötu í Reykjavík að dómhúsi fyrir Hæstarétt Íslands er starfsemi Landsbókasafns og Þjóðskjalasafns flyst úr húsinu.

Alþingi felur ríkisstj. jafnframt að hefja sem fyrst undirbúning að nauðsynlegum breytingum á húsinu svo að það fái þjónað sem best hlutverki sínu sem hús Hæstaréttar Íslands.“

Fyrir liggur að Þjóðskjalasafn flytur innan tíðar úr Safnahúsinu við Hverfisgötu í húsakynni Mjólkursamsölunnar að Laugavegi 162 í Reykjavík sem núverandi menntmrh. hefur haft forgöngu um kaup á af stórhug og framsýni. Einnig er ljóst að Landsbókasafnið flytur áður en langt um líður í Þjóðarbókhlöðuna þó að fyrirsjáanleg sé nokkur bið þar á, vonandi þó ekki nema tvö til þrjú ár í mesta lagi. Enn hefur ekki verið tekin ákvörðun um framtíðarnotkun þessa virðulega og merka húss sem ég hygg að hæfi Hæstarétti Íslands vel. Því er þessi till. flutt.

Hæstiréttur Íslands hefur lengi búið við alls ófullnægjandi húsakost og aðbúnað. Er vinnuaðstaða dómara og starfsfólks vægast sagt slæm og langt frá því að teljast boðleg æðsta dómstól réttarríkis. Dómsalur réttarins er að vísu ágætur, en öll önnur aðstaða til lítillækkunar, hvort heldur eru skrifstofur dómara eða annars starfsfólks, skjalageymslur eða annað. Er hreint með ólíkindum hversu þröngur húsakostur Hæstaréttar er og kotlegur á allan hátt. Fullyrði ég að ekkert ráðuneyta stjórnarráðsins búi við jafnslæman húsakost og aðbúnað þó að á þeim vettvangi sé oft kvartað. Hvet ég þm. sem um þetta efast að kynna sér þessi mál af eigin raun. Hefur oft verið bent á laka aðstöðu dómsins hvað snertir mannafla, húsnæði, vinnuaðstöðu og nútíma tækjakost. Á sumar ábendingar um mannafla hefur verið hlýtt en aðrar alls ekki. Þannig hafa störf Hæstaréttar Íslands gengið betur á seinni árum eftir fjölgun dómara og starfsliðs. Þrengsli og slæmur aðbúnaður hefur hins vegar stöðugt aukist. Ber að hafa í huga í þessu sambandi að dómsvaldið er einn af þremur hyrningarsteinum íslenskrar stjórnskipunar ásamt löggjafarvaldi og framkvæmdavaldi. Að öllum þessum þáttum verður að huga vel.

Til umræðu eru nú framtíðarhúsnæðismál Alþingis og stöðugt er verið að bregðast við húsnæðismálum einstakra þátta framkvæmdavaldsins. Þætti dómsvaldsins hefur hins vegar verið illa sinnt í gegnum árin. Er skemmst að minnast ályktunar Alþingis 29. apríl 1977, um undirbúning að byggingu dómhúss fyrir héraðsdómstólinn í Reykjavík, Rannsóknarlögreglu ríkisins og embætti ríkissaksóknara. Engan árangur þeirrar samþykktar sjáum við enn hvað varðar héraðsdómstólana nú níu árum síðar.

Ein af grundvallarforsendum þess að dómstóll vinni á skjótan, skilvirkan og skipulegan hátt er að hann búi við góð starfsskilyrði og gott húsnæði. Í flestum ef ekki öllum menningarríkjum er æðstu dómstólum sýnd sú virðing að búa sem best að þeim í hvívetna. Mætti hér nefna mörg dæmi um virðuleg og glæsileg dómhús á Norðurlöndum, í Evrópu, Bandaríkjunum, Kanada og víðar. Er till. sú sem hér um ræðir skref í þá átt að koma húsnæðismálum og annarri starfsaðstöðu Hæstaréttar Íslands í það horf er honum sæmir og í þá umgjörð er æðsti dómstóll ríkisins á skilið. Er víst að Safnahúsið við Hverfisgötu í Reykjavík uppfyllir þessar kröfur.

Saga Safnahússins er samtengd sögu og menningu þjóðarinnar. Er bygging hússins nátengd upphafsskeiði innlendrar landsstjórnar eftir síðustu aldamót. Má því segja að húsið sem slíkt beri glöggt merki um innlent framtak og þá reisn er íslenska þjóðin þráði og stefndi að á fyrstu árunum eftir aldamótin síðustu.

Er hornsteinn var lagður að húsinu sunnudaginn 23. sept. 1906 á ártíðardegi Snorra Sturlusonar hafði Hannes Hafstein ráðherra m.a. þetta að segja um byggingu hússins, með leyfi forseta:

„Samkvæmt gamalli venju verður lögð niður í grundvöll hússins stutt skýrsla um byggingu þess. Hún er rituð á bókfell, sem ásamt gildandi bankaseðlum og póstmerkjum verður sett í loftþétt blýhylki, og hljóðar skýrslan þannig:

Hús þetta er byggt handa Landsbókasafni og Landsskjalasafni Íslands samkvæmt lögum um stofnun byggingarsjóðs og byggingu opinberra bygginga, staðfestum 20. dag októbermánaðar 1905, og er hyrningarsteinninn lagður á dánarafmæli Snorra Sturlusonar 23. september 1906 á fyrsta ríkisstjórnarári Friðriks konungs hins VIII.

Ráðherra Hannes Hafstein. Landritari Klemens Jónsson. Forsetar Alþingis: Eiríkur Briem, Júlíus Hafstein, Magnús Stephensen. Byggingarnefnd kosin af Alþingi: Guðmundur Björnsson, Jón Jakobsson, Tryggvi Gunnarsson. Teikning gerð af Magdahl-Nielsen byggingarmeistara. Verkið framkvæmt af félaginu Völundur. Umsjónarmaður við bygginguna F. Kiörboe byggingarmeistari. Bókavörður Landsbókasafns, settur, Jón Jakobsson. Skjalavörður Landsskjalasafns, dr. Jón Þorkelsson. Ætlast er til að aukið sé við bygginguna eftir þörfum síðar.“

Var húsið tekið í notkun 1908, en þann 28. mars 1909, er húsnæðið var formlega að fullu tilbúið til afnota, sagði Jón landsbókavörður Jakobsson m.a. í ræðu, með leyfi forseta:

„Að síðustu skal ég taka það fram, að bygging þessi markar nýtt tímabil í byggingarsögu Íslands. Gleðilegt að geta sagt það, að veglegasta og vandaðasta steinhús þessa lands er byggt eingöngu af Íslendingum undir forsjá íslenskra manna, því nær hvert handtak er íslenskt á húsi og munum. Vonandi að landssjóður hætti að byggja nokkrar opinberar byggingar úr tré.“

Svo sem fram kemur hér á undan hefur verið vandað til hússins á allan hátt og þjóðin lagt metnað sinn í að gera það sem best úr garði. Er húsið byggt af mikilli fyrirhyggju og myndarskap, reisn og virðuleika.

Undrun sætir hversu vel Safnahúsið virðist geta þjónað kröfum Hæstaréttar Íslands hvað innra skipulag og alla hönnun snertir. Stærsti salur hússins, núverandi lestrarsalur Landsbókasafns, hentar einkar vel sem aðaldómsalur með möguleikum og aðstöðu fyrir dómara, ritara, málflutningsmenn og síðast en ekki síst góðri aðstöðu og nægu rými fyrir áhugasama áheyrendur, almenning. Skiptir hið síðast talda ekki litlu máli í opnu lýðræðisþjóðfélagi. Öllu þessu má koma fyrir án verulegra breytinga.

Þá getur t.d. lestrarsalur Þjóðskjalasafns komið að góðum notum sem vinnuherbergi dómara og ýmsir möguleikar eru á að vera með annan minni dómsal en aðalsalinn vegna deildaskiptingar Hæstaréttar nú.

Nauðsynlegt er einnig fyrir Hæstarétt að hafa í sinni umsjá fullkomið og aðgengilegt lagabókasafn, en forsenda góðra dóma er m.a. að dómarar eigi þess kost að afla sér upplýsinga og fróðleiks á auðveldan hátt af lagabókum úr dómasöfnum, innlendum sem erlendum. Ýmsir möguleikar eru á að koma slíku safni fyrir með góðu móti og viðunandi móti á einum stað. Má m.a. nota innréttingar hússins í þessu skyni.

Annarri aðstöðu réttarins er jafnframt unnt að koma í gott horf, svo sem skrifstofum dómara, ritara og annars starfsliðs auk almennrar skrifstofuaðstöðu og afgreiðslu sem nauðsynleg er hverjum dómstól.

Loks er þess að geta að skjalageymslur eru í húsinu nægar. Er brýnt fyrir Hæstarétt að hafa yfirráð yfir traustum geymslum vegna málsskjala réttarins sem nauðsynlegt er að varðveita.

Þá þarf rétturinn á aðstöðu að halda til útgáfu Hæstaréttardóma, vinnslu þeirra, geymslu og dreifingar.

Ljóst er að gera þarf á húsinu nokkrar minni háttar breytingar innandyra, eða öllu heldur endurbætur og lagfæringar fremur en breytingar, vegna starfsemi dómsins. Breytingar þær sem hér um ræðir eru af þeim sem skoðað hafa húsakynnin taldar óverulegar, enda verður að gæta þess vel að húsið haldi sem best upphaflegri gerð jafnt innandyra sem utan.

Húsið er friðað svokallaðri A-friðun samkvæmt þjóðminjalögum nr. 52/1969 með ráðherrabréfi dagsettu 14. desember 1973. Samkvæmt þessu er húsið friðað í heild og allar breytingar á því óheimilar nema samþykki húsfriðunarnefndar komi til. Húsið getur því ekki nýst nema vissum stofnunum í þjóðfélaginu til frambúðar. Stendur húsið, að mínu mati, næst Hæstarétti Íslands hvað notkun snertir, enda mjög lítið sem hreyfa þarf innandyra til að þjóna kröfum réttarins. Utandyra þarf engu að breyta. Virðist húsið í mörgum tilvikum nánast sniðið að þörfum Hæstaréttar þó það hafi í upphafi verið byggt fyrir allt aðra starfsemi.

Ýmsir, sem kunnugir eru dómstólum og réttarfari, hafa bent á Safnahúsið við Hverfisgötu sem framtíðaraðsetur Hæstaréttar Íslands og jafnframt lýst yfir stuðningi sínum við að húsið verði tekið til slíkra nota. Núverandi formaður Dómarafélags Íslands, Ásgeir Pétursson bæjarfógeti í Kópavogi, hefur um langt skeið verið hvatamaður þessa. Við setningu dómaraþings 22. nóvember 1985 sagði hann m.a. í ræðu, með leyfi forseta:

„Hér er rétt að minnast þess að margir hafa verið og eru enn þeirrar skoðunar að best færi á því að Hæstiréttur fái hús Landsbókasafnsins við Hverfisgötu þegar safnið flytur í nýju Þjóðarbókhlöðuna. Mér sýnist rétt að haldið verði áfram að vinna að undirbúningi þess að málið komist á það stig að forráðamenn dómstóla, kannske í samvinnu við Dómarafélag Íslands, geti tekið stefnumarkandi ákvarðanir. Þegar þær liggja fyrir er rétt að þetta félag stuðli eftir megni að framkvæmdum.“

Þann 19. des. 1985 ályktaði síðan stjórn Dómarafélags Íslands um málið, en í.ályktun stjórnarinnar segir m.a., með leyfi forseta:

„Samkvæmt stjórnarskrá vorri eru þættir ríkisvaldsins þrír, sjálfstæðir hver gagnvart öðrum, en veita hver öðrum aðhald og eftirlit. Þeir eru löggjafarvald á hendi Alþingis, framkvæmdavald á hendi forseta og ríkisstjórnar og dómsvald á hendi dómstóla.

Hæstiréttur Íslands er æðsti handhafi dómsvaldsins. Það er í anda stjórnarskrár vorrar og í samræmi við það gróna viðhorf þjóðarinnar að hér skuli vera réttarríki þar sem traustir og óháðir dómstólar veiti borgurunum réttarvernd og tryggi skipulagsbundið og siðað samfélag að æðsti dómstóll þjóðarinnar sé búinn sæmandi ytri umgjörð, við hæfi en þó í hófi.

Slík ytri umgjörð er Landsbókasafnshúsið gamla, fögur en þó hófleg bygging í hjarta höfuðstaðar landsmanna. Lengi hefur það verið borgarprýði og eigi mun vitundin um það að þar sitji Hæstiréttur Íslands rýra veg þess húss og ásýnd í augum þeirra er leið munu eiga um miðborg Reykjavíkur á komandi áratugum.

Það er skoðun Dómarafélags Íslands að nú þegar þurfi að taka endanlega ákvörðun um að Safnahúsið við Arnarhól skuli verða dómhús Hæstaréttar. Að vísu er fyrirsjáanleg nokkurra ára bið á því að Landsbókasafn flytji sig um set og húsnæðisvandi Hæstaréttar brýnn. Dómarar voru þrír er fyrst var dómþing sett í dómhúsinu við Lindargötu hinn 21. janúar 1949. Nú eru þeir átta. Fjöldi mála hefur margfaldast, en eina sjáanlega launin á húsnæðismálum Hæstaréttar önnur en Safnahúsið væri bygging nýs dómhúss sem varla yrði lokið á undan Þjóðarbókhlöðu.“

Síðar í sömu ályktun segir, með leyfi forseta: „Stjórnin minnir enn fremur á tillögu dr. Ármanns Snævarr er samþykkt var á aðalfundi Dómarafélags Íslands í nóvember 1984 og birt var í dagblöðum þess efnis að gerðar verði hið allra fyrsta úrbætur á húsnæðismálum Hæstaréttar og fleiri dómstóla í landinu.“

Þann 8. janúar s.l. tók stjórn Lögmannafélags Íslands undir ábendingar Dómarafélagsins með svofelldri samþykkt, með leyfi forseta:

„Stjórn LMFÍ tekur undir ábendingar Dómarafélags Íslands um að Safnahúsið við Hverfisgötu verði gert að dómhúsi Hæstaréttar þegar núverandi starfsemi flyst úr húsinu, en húsnæði Hæstaréttar er nú með öllu óviðunandi. Telur stjórnin að hér gefist tækifæri til að bæta úr brýnni húsnæðisþörf Hæstaréttar. Sómir húsið sér vel sem aðsetur æðsta dómstóls þjóðarinnar jafnframt því sem líklegt er að ekki þurfi að gera á því miklar breytingar vegna starfsemi réttarins.“

Að endingu er þess að geta að ég hef rætt við forseta Hæstaréttar, Magnús Torfason, um þessi mál og er hann mjög hlynntur þessari hugmynd. Aðrir dómarar réttarins, sem ég hef rætt við, eru sömu skoðunar. Af framangreindu er ljóst að verulegur áhugi er fyrir því meðal dómara, lögmanna og lögfræðinga að Safnahúsið við Hverfisgötu verði gert að dómhúsi Hæstaréttar Íslands til frambúðar.

Með tilliti til þess, sem sagt er hér að framan, eru helstu rökin fyrir því að Hæstiréttur Íslands fái Safnahúsið við Hverfisgötu til afnota þessi:

Í fyrsta lagi eru þrengsli og núverandi starfsaðstaða æðsta dómstóls þjóðarinnar ólíðandi öllu lengur og tími til kominn að þar verði breyting á.

Í öðru lagi hentar Safnahúsið Hæstarétti Íslands mjög vel að allri innri gerð.

Í þriðja lagi þarf litlar breytingar eða endurbætur að gera á Safnahúsinu svo unnt sé að nýta það til fulls fyrir Hæstarétt. Fullnægja má friðunarkröfum með notkun réttarins á húsinu.

Í fjórða lagi er staðsetning hússins afar góð. Í flestum réttarríkjum er á það lögð áhersla að æðsti dómstóll ríkisins sé staðsettur miðsvæðis þannig að þegnarnir eigi gott með að vera í nánum tengslum við hann og geti auðveldlega og hindrunarlaust fylgst með meðferð mála og uppkvaðningu dóma.

Í fimmta lagi er samstaða meðal Dómarafélags Íslands, Lögmannafélags Íslands og lögfræðinga yfirleitt um þá leið sem hér um ræðir.

Í sjötta lagi er hér um að ræða gamalt en virðulegt hús með merka sögu að baki sem skapar Hæstarétti Íslands þá ytri umgjörð sem honum sæmir sem æðsta dómstól þjóðarinnar.

Í sjöunda lagi væri unnt að nýta núverandi húsnæði Hæstaréttar Íslands við Lindargötu fyrir Stjórnarráð Íslands er það losnaði, en húsið er samtengt Arnarhvoli svo sem kunnugt er og auðvelt að opna þar á milli. Unnt væri í framhaldi af því að byggja á milli núverandi dómhúss Hæstaréttar að leikfimihúsi Jóns Þorsteinssonar, sem nú er í eigu ríkissjóðs, og nýta síðan allt það húsnæði sem þannig fengist fyrir stjórnarráðið.

Helstu rökin gegn þeirri skipun sem till. gerir ráð fyrir eru léttvæg. Helst má nefna þrjú:

Í fyrsta lagi yrði með samþykkt till. endanlega horfið frá því að Hæstiréttur verði með í byggingu dómhúss fyrir alla héraðsdómstólana í Reykjavík þegar að, því kemur. Í raun tel ég slíkt kost en ekki ókost þar sem Hæstiréttur á að mínu mati að standa einn og sér, algjörlega óháður öðrum dómstólum og í mátulegri fjarlægð þaðan.

Í öðru lagi yrði endanlega horfið frá þeirri hugmynd að gera Safnahúsið að aðsetri fyrir forsrn. eða forseta Íslands eins og aðeins hefur verið bryddað upp á. Tel ég slíkt einnig kost en ekki ókost ef hægt væri að koma í veg fyrir það. Kemur ekki til greina í mínum huga að flytja forsrn. úr Stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg þó ekki væri nema vegna sögu þess húss. Nóg er og að hafa ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu og veislusali ríkisins við Borgartún 6 fyrir móttökur viðhafnargesta. Væri að mínu mati algjör sóun á sölum Safnahússins ef gera ætti þá að veislu- og móttökusölum, eins og aðeins hefur heyrst meðal veisluglaðra Íslendinga.

Aðsetur forseta Íslands á að vera á Bessastöðum um ókomna tíð. Ber að styrkja og efla þann sögufræga stað. Út í hött er að mínu mati að hugsa sér Safnahúsið sem aðsetur eða skrifstofur forseta Íslands. Þörfin fyrir bæði forsrn. og forseta Íslands er einnig hverfandi og ekki í nokkurri líkingu við þarfir Hæstaréttar Íslands.

Í þriðja lagi hefur því verið haldið fram að Safnahúsið væri of stórt fyrir Hæstarétt. Sú fullyrðing er röng í veigamiklum atriðum, eins og þegar hefur verið lýst hér að framan, ef virtar eru þarfir réttarins. Segja má þó að dómurinn þurfi ekki þegar í stað á að halda öllum þeim skjalageymslum sem í húsinu eru. Þær má hins vegar með góðu móti nota áfram að hluta fyrir aðrar ríkisstofnanir ef vill. Þá má geta þess að Dómarafélag Íslands hefur enga aðstöðu í dag. Færi vel á því að félagið fengi aðstöðu í húsi Hæstaréttar Íslands.

Ég hygg að ýmsu megi fá áorkað ef haldið er á málum af góðum vilja, áræði og stórhug. Er það von mín að Alþingi beri gæfu til að fylgja þessu máli eftir á þann hátt sem þjónar sem best hagsmunum Hæstaréttar Íslands, æðsta dómstóls þjóðarinnar.

Að lokum geri ég að mínum upphafsorð Hannesar Hafstein ráðherra í ræðu er hann flutti þegar hornsteinn Safnahússins var lagður 23. sept. 1906 og áður er vitnað til, en þau eru svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Hálfnað er verk þá hafið er, segir gamalt máltæki. Það er svo jafnan um öll nauðsynjamál og góð fyrirtæki að aðalerfiðleikarnir eru í byrjuninni, enda varðar mest til allra orða að undirstaðan rétt sé fundin. En sé undirstaðan fundin og hyrningarsteinninn lagður í fullri meðvitund um tilgang og takmark í einlægum vilja og einbeittri trú á málefnið, þá lánast að jafnaði að ljúka því sem eftir er.“

Herra forseti. Ég legg til að till. þessari verði vísað til hv. allshn. að umræðu þessari lokinni.