17.03.1986
Neðri deild: 64. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3130 í B-deild Alþingistíðinda. (2695)

54. mál, sveitarstjórnarlög

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Það hefur komið greinilega í ljós í umræðum um þetta frv. að skoðanir hv. þm. eru mjög skiptar. Ég held að það hafi ekki farið fram hjá neinum manni og á það hefur verið bent hvað eftir annað.

Það var vikið að því að ég hefði greitt atkvæði gegn frv. við 2. umr. Það er rétt. Við munum hafa verið tveir, ég og hv. 4. þm. Suðurl., sem greiddum atkvæði gegn 1. gr. frv. En ég hygg að það sé viðtekin venja, ef þm. telja sig ekki geta stutt frv. í þeirri mynd sem það er þegar til atkvæðagreiðslu kemur við 2. umr., greiði þeir atkvæði gegn 1. gr., þó að hún sé ekki verri en aðrar greinar frv.

Þrátt fyrir þessar gagnrýnisraddir hefur lítið verið á gagnrýni hlustað. Það er þeim mun dapurlegra þar sem í raun og veru er víðtækur sáttagrundvöllur í þessu máli. Við viðurkennum allir að þetta er með stærri málum, má segja að það komi næst á eftir stjórnarskránni, hvernig skipan sveitarstjórnarmála er háttað. Það er því ekkert smámál sem við erum hér að ræða. Það er ekki mál sem hægt er að kasta höndum til.

Því var lýst yfir í nál. meiri hl. félmn. við 2. umr. að meiri hl. legði til að gerð yrði sú meginbreyting á frv., eins og það var lagt fram, að IX. kaflinn, um lögbundið samstarf sveitarfélaga, yrði felldur niður. Eins og greinilega hefur komið fram hvað eftir annað er ég andvígur þessari yfirlýsingu og mun þess vegna ekki geta stutt frv. þó að ég hins vegar geti stutt ýmsar greinar þess. Ýmsar greinar frv. og jafnvel kaflar eru þannig upp byggðir að það er ástæðulaust að vera andvígur því í sjálfu sér. En það er árátta þeirra sem gengið hafa frá frv. í þá átt að fella niður sýslunefndir, fella niður kaflann um héraðsnefndir, það er þessi árátta að vilja afnema lögbundið samstarf sveitarfélaga á héraðsgrundvelli hvað sem það kostar, það er sú stefna sem ég er andvígur og mun því ekki geta stutt frv. ef sú stefna heldur velli.

Hins vegar tel ég ástæðulítið að halda uppi málþófi í þessum umræðum. Það hefur komið skýrt fram hver er mín skoðun eða skoðanir okkar sem höfum gagnrýnt frv. og auðvitað gengur það sína leið.

Ég tel að till. hv. 3, þm. Vestf. sé í raun og veru afar eðlileg. Henni hefur þegar verið lýst og um hana hefur verið rætt svo að ég þarf ekki að ræða hana nánar. En ég tel hana mjög eðlilega eins og málum er háttað.

Ég tel enn fremur að till. 1. þm. Norðurl. v. á þskj. 605 sé skynsamleg eins og málum er komið. Við skulum ekki vera neitt sérstaklega að ræða till. hv. þm. á þskj. 605 aðrar en IX. kaflann þar sem því er þó slegið föstu að sýslufélögin skuli halda velli áfram. Mér líst svo á að ég geti verið samþykkur þessum kafla eins og hann kemur fram á þskj. 605 þó að e.t.v. mætti slípa hann betur og gera við hann nokkrar athugasemdir og lagfæringar.

Ég vek sérstaklega athygli á 102. gr. þar sem segir að tekjur sýslusjóðs skuli vera álögð aðstöðugjöld og tekjuskattur af félögum í hverri sýslu. En síðan er vikið að því, að því sem á vanti að tekjur hrökkvi fyrir útgjöldum skuli jafnað niður á sveitarfélögin að þriðjungi eftir íbúatölu o.s.frv. Þar kemur fram gamla reglan um niðurjöfnun sýslusjóðsgjalda. En ég tel ekki rétt að slá því föstu að sýslufélögin, ef þau starfa áfram, búi eingöngu að heimafengnum tekjum, ef svo má segja.

Að vísu hefur ríkisvaldið ávallt sagt við sýslufélögin: Þið getið lagt eins mikið og ykkur sýnist á hreppana, en þið fáið ekkert af opinberu fé til ykkar starfsemi. - Allar sýslunefndir hafa vitaskuld hlíft sér við að leggja há úfgjöld á hreppana, og satt að segja hefur alltaf verið gat í þessari löggjöf. Þurft hefði að koma til sérstakur tekjustofn, einhver tekjustofn, frá ríkinu. T.d. eitthvað af söluskatti, hálft eða eitt stig, eða af öðrum tekjum úr ríkissjóði. Það er kannske varla sanngjarnt að koma fram með svona lagagrein nú vegna þess að á undanförnum árum hygg ég að það hafi orðið hvati ýmsum hreppsfélögum til að sækja um kaupstaðarréttindi að þeim þótti sýslusjóðsgjaldið og önnur gjöld til sýslufélagsins nokkuð þungbær.

Ég leyfi mér að benda á að það hefur komið fram í mínu máli og margra annarra, sem gagnrýnt hafa frv., að þeir hafa bent á margt sem öðruvísi mætti haga í sambandi við sýslufélög og sýslunefndir. M.a. er í mínum augum ekkert aðalatriði, síður en svo, að sýslumenn haldi endilega áfram að vera oddvitar sýslunefnda. En samkvæmt þeim tillögum sem hér liggja fyrir eiga þeir að fá að vera skiptaforstjórar. Það má segja að sýslumenn séu vanir því hlutverki að vera skiptaráðendur. Oft getur það verið erfitt. Ég hygg að þarna muni það starf í mörgum tilvikum verða mjög erfitt því að það eru sem betur fer mörg sýslufélög sem hafa staðið sig vel fjárhagslega og eiga miklar eignir sem einhvern veginn þurfa að koma til skipta, einhvern veginn þarf að ráðstafa. En þar eiga sýslumenn að fá að syngja sitt síðasta vers, eins og þar stendur, fá að vera skiptaforstjórar. (FrS: Þeir syngja nú margir vel.)

Ég sagði að ég teldi ekki ástæðu til þess að fara um þetta fleiri orðum. Ég ætla aðeins að nefna hér í lokin að í gildi eru góð lög að mínum dómi um sameiningu hreppa eða sameiningu sveitarfélaga, nr. 70/1970. Þrátt fyrir þessi góðu lagaákvæði hefur litlu munað í þessum efnum. Það hafa sárafá sveitarfélög notað sér þessi ákvæði til að efla sig með sameiningu. Ég minnist þess að jafnvel hreppur þar sem verið hefur einn einasti íbúi eftir hefur reynst næsta erfiður viðureignar, alþm. og stjórnvöldum. Það má segja að þetta sé kannske óeðlilega mikil lífsseigla og hún sé algerlega óréttlætanleg. En við megum þó muna eftir því að einhvern tímann sagði Jón forseti: „Seiglan er okkar besti bjargvættur.“ Hún kann stundum að geta gengið út í öfgar. En ég hygg að við megum samt minnast þessara orða.

Það sem ég hef gagnrýnt m.a. í þessu máli er að sýslunefndir hafa frá upphafi vega verið hafðar að skotmarki. Aðaláhugamál þeirra sem fyrir þessu máli hafa barist virðist hafa verið að koma sýslunefndum fyrir kattarnef hvað sem það kostaði. En ég bendi á í þessu efni hvort með þessu sé allt fengið. Ég bendi t.d. á sýslufélögin sem hafa innan sinna vébanda marga smáa hreppa. Dalasýsla er með níu fámenn sveitarfélög innan sinna vébanda, Strandasýsla, ég man ekki hvað mörg. En þessum sýslum er það þó sameiginlegt að þær eru fámennar og innan þeirra marka er ekki nema einn staður þar sem hægt er að tala um þéttbýli og er því sjálfsagður höfuðstaður viðkomandi sýslufélaga.

Ég bíð menn að setja sig í spor hinna fámennu sveitarfélaga á þessum slóðum og hugleiða hið fornkveðna: „Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.“ Hugboð mitt er það að í þessu tilviki muni hin fámennu sveitarfélög sakna vinar í stað ef sýslufélögin verða afmáð. Ég tel ekkert eðlilegra en þetta eina lögboðna samstarf nágrannahreppa á héraðagrundvelli haldist í löggjöf.

Þar með er ég ekki að segja, og ég endurtek það einu sinni enn, að allt eigi að vera óbreytt, síður en svo. Ég tel mjög hyggilegt, gott og farsælt, að sameina smáhreppa og mynda stærri og öflugri sveitarfélög. Einnig tel ég mjög eðlilegt og raunar sjálfsagt að athuga um breytingu sýslumarka á nokkrum stöðum á landinu. Sýslumörkin eru sums staðar óeðlileg miðað við nútímabúnaðarháttu. Allt þetta bið ég hv. deildarmenn að hugleiða. Það er ekki víst að allir séu svo nákunnugir þessum málum. Ég tel þetta vera mál sem miklu skipti fyrir uppbyggingu þjóðlífs okkar og þjóðfélags. Við höfum hingað til verið sammála um það held ég, alþm., að reyna að halda landinu öllu í byggð, byggja landið allt. Og ég á ekki von á því að sú stefna hafi breyst. Ég vona að þeirri stefnu verði fylgt áfram og sú niðurstaða sem við komumst að í þessu máli megi leiða til þess að byggðir um allt land megi blómgast á komandi tíð.