17.03.1986
Neðri deild: 64. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3136 í B-deild Alþingistíðinda. (2698)

54. mál, sveitarstjórnarlög

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs eingöngu til að beina fyrirspurn til hæstv. félmrh. vegna ummæla sem hann viðhafði hér í þinginu 28. febrúar s.l., en þá tók hann til máls í 2. umr. um þetta frv. og greindi okkur frá því að næstu daga þar á eftir væri að vænta tekjustofnafrumvarps, frv. um tekjustofna sveitarfélaga, sem lengi hefði verið beðið eftir. Mér finnst tímatalið hjá hæstv. ráðh. vera eitthvað farið að ruglast. Ég hef ekki orðið var við að þetta frv. kæmi hér fram í þingdeild eða í þinginu. Ég veit ekki hver ætlan hæstv. ráðh. er, hvort það er að leggja málið fram í þessari hv. þingdeild eða í Ed. En ég inni hæstv. ráðh. eftir því hvað veldur að þessir næstu dagar, sem hann ræddi um 28. febrúar s.l., eru enn ekki liðnir ef marka má það að frv. er ekki komið hér fram. Þetta mál hefði að sjálfsögðu þurft að fylgja og liggja hér fyrir þegar menn ræða um ný sveitarstjórnarlög, að tekjustofnar sveitarfélaga væru þá einnig til athugunar og umræðu. Það eitt út af fyrir sig hefði átt að nægja sem rök fyrir því að hraða ekki meðferð þessa máls, sem verulegur ágreiningur er um hér í þingdeildinni um einstök atriði þó menn séu sammála um annað. Það er því mjög miður að við höfum ekki fengið þetta frv. hér inn í þingið. En ég vænti þess að hæstv. ráðh. geti greint okkur frá því hvað veldur þessum drætti og hvenær þess er að vænta að frv. þetta verði lagt hér fram.