17.03.1986
Neðri deild: 64. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3137 í B-deild Alþingistíðinda. (2704)

54. mál, sveitarstjórnarlög

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það fer ekki á milli mála að mönnum sýnist sitt hvað um það frv. sem hér hefur verið til umræðu. Ég hef talið að afgreiðsla þess á millistigi á milli sveitarstjórna og ríkisvalds væri ekki á þann veg að það leysti neinn vanda hjá hinum breiðu byggðum þessa lands. Það skal þó viðurkennt að það er opnað fyrir það að bæjarfélög, sem farin voru út úr samstarfi við sitt umhverfi með því að fá kaupstaðaréttindi, geta eftir samþykkt þessa frv. komið á nýjan leik til samstarfs.

Ég tók þá ákvörðun, og um hana má deila eins og allar, að sitja hjá við afgreiðslu þessa máls. Ástæðan er sú að ég tel að það breyti ekki það stóru, á hvorn veginn sem fer, að það skipti sköpum um þessi mál. Ég hef lagt fram í frv. til stjórnarskipunarlaga þær grunnhugmyndir sem ég tel að þingheimur þurfi að takast á um og meta. Viðbrögð við þeim hugmyndum hafa mest komið fram utan flokksherbergja og utan þingsala, en mér kæmi ekki á óvart þó að þar yrði á nokkur breyting.