17.03.1986
Sameinað þing: 61. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3146 í B-deild Alþingistíðinda. (2726)

270. mál, friðarár Sameinuðu þjóðanna 1986

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég hefði talið eðlilegt að hæstv. forsrh. og utanrrh. hefðu haft samráð við þingflokka á Alþingi um það hvernig að þessu máli yrði staðið þar sem sérstök ályktun liggur að baki af hálfu Sameinuðu þjóðanna. Ég fékk yfirlit um samþykktir Sameinuðu þjóðanna rétt í þann mund sem þessi fsp. var fram lögð og beið eftir því að hér kæmi fram svar frá hæstv. forsrh.

Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi er vissulega góðra gjalda vert og vel við hæfi að það taki þátt í máli sem þessu, alveg sérstaklega að það minnist aðildar Íslands að Sameinuðu þjóðunum eins og hæstv. forsrh. hefur getið um. Ég hefði sem sagt talið eðlilegt að Alþingi og þingflokkar á Alþingi ættu hlut að þessu máli og það væri tekið á því með öðrum og myndugri hætti en hæstv. forsrh. hefur hér lýst.

Ég vænti þess að hæstv. forsrh., og hæstv. utanrrh. einnig, taki þetta mál til endurskoðunar og tryggi að á þessum málum verði tekið með öðru samráði en hér er gert ráð fyrir. Friður verður ekki tryggður í einhverri lognmollu og að tala um áróður í sambandi við frið sem eitthvert hættulegt atriði finnst mér ekki eðlilegt. Það er sjálfsagt að allir þeir sem hafa áhuga á þessum efnum fái að koma til virkrar þátttöku í sambandi við þetta alþjóðlega friðarár.