17.03.1986
Sameinað þing: 61. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3147 í B-deild Alþingistíðinda. (2728)

270. mál, friðarár Sameinuðu þjóðanna 1986

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svör hans, en verð að segja að mér finnst það lýsa áhugaleysi stjórnvalda um þetta málefni að svo seint skuli farið af stað. Ég veit til þess að undirbúningur á vegum stjórnvalda á Norðurlöndunum var miklu fyrr á ferðinni, var reyndar löngu kominn á stað fyrir síðustu áramót og fjárveitingum hafði þegar verið komið til þeirra stjórnskipuðu nefnda eða þeirra aðila sem áttu að sjá um sérstakt undirbúningsstarf fyrir þetta ár og samræmingarstarf. Það var kannske ekki eins mikið fé og ýmsar friðarhreyfingar óskuðu, en það var alla vega nokkuð myndarlegt og skipti hundruðum þúsunda, jafnvel milljónum. Ég veit t.d. að í Svíþjóð var skipuð 20 manna nefnd til að annast undirbúning og samræmingu. Hún virkjaði aftur æskulýðsfélög, kvennasamtök, íþróttafélög, skólafélög, stéttarfélög, verkalýðsfélög, auk ýmissa friðarhreyfinga og samtaka sem höfðu tengsl við þessa stjórnskipuðu nefnd, og er þegar mikil virkni allra þessara ólíku hópa vegna friðarársins. Sama gildir um Danmörku. Ég þekki það ekki eins í Noregi og Finnlandi. Ég býst við að a.m.k. í Svíþjóð eflist friðarstarfsemi vegna hins hryggilega atburðar sem varð með sænskri þjóð og reyndar öllum friðelskandi þjóðum er Olof Palme var veginn. Ég þykist viss um það að í minningu hans muni margir leggja hönd á plóginn sem ekki voru áður virkir í friðarstarfi.

Ég þekki ekki Félag Sameinuðu þjóðanna nema að nafninu til, Ég veit í raun ekki í hverju starfsemi þess hefur áður verið fólgin. Þess vegna get ég ekki metið hvort það er heppilegur aðili. Vissulega hlýtur það félag að þurfa að taka þátt í slíkum undirbúningi og vel má vera að því takist að samræma aðgerðir svo vel sé. En það er þegar hafið talsvert mikið starf meðal ýmissa ólíkra áhugahópa um friðarmál hérlendis þar sem margar hugmyndir hafa skotið upp kollinum, á hvern hátt væri hægt að nýta virkni fólks og vekja áhuga. Ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. forsrh. hve mikla fjárveitingu ríkisstj. hefur hugsað sér að láta renna til þessa málefnis og hvenær hún ætlar að láta hana renna til málefnisins. Nú er kominn 18. mars. Ég vil líka spyrja: Sótti einhver fundinn hjá Sameinuðu þjóðunum þann 14. febrúar s.l. sem var síðustu forvöð til að tilkynna áform þeirra þjóða sem enn höfðu ekki tilkynnt sín áform?

Allt sem hæstv. forsrh. nefndi var einmitt á þann veg að það voru hátíðaathafnir og minningarathafnir í minningu friðar. Ekkert af því, nema umræðuþættir í sjónvarpi, býður upp á kynningu og það að virkja fólk til umhugsunar um friðarmál. Allt hitt eru bara minningaratburðir, svo sem eins og mynt og hátíð og eitthvað því um líkt.