17.03.1986
Sameinað þing: 61. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3149 í B-deild Alþingistíðinda. (2732)

291. mál, hvalarannsóknir

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Áður en ég svara þeirri fsp. sem hér liggur fyrir vildi ég taka það fram út af orðum hv. þm. að sú áætlun sem hefur verið gerð um hvalarannsóknir liggi ekki frammi fyrir almenning að það er algerlega rangt. Þessi áætlun hefur verið kynnt á blaðamannafundi og liggur frammi fyrir hvern sem er og óskar eftir að fá hana og hefur aldrei verið nokkurt leyndarmál. Ég get ekki séð hvað liggur að baki þessari fullyrðingu hv. þm., en ég vildi leiðrétta þennan misskilning.

Sem svar við 1. lið fsp. er rétt að geta þess að í maí s.l., þegar áætlun um hvalveiðar í vísindaskyni var fyrst kynnt, var gert ráð fyrir að um hana yrðu umræður sem síðan yrði tekið tillit til við endanlega framkvæmd hennar. Áætlunin var rædd í vísindanefnd Aðþjóðahvalveiðiráðsins í júní, á fundi ráðsins í júlí og síðan á sérstökum kynningar- og umræðufundum hér innanlands í ágúst. Þar eð ljóst var að tími var helst til naumur til endurskoðunarinnar var ákveðið að fresta gildistöku samningsins við Hval hf. fram til 1. janúar 1986. Er þessu starfi nú að mestu lokið, en rétt er þó að geta þess að gert er ráð fyrir árlegri endurskoðun áætlunarinnar með tilliti til árangurs og fjárhagsstöðu rannsókna.

Sem svar við 2. spurningunni vil ég segja þetta: Í framhaldi af ofangreindri umfjöllun um áætlunina s.l. sumar var sent erindi til um 100 erlendra rannsóknaraðila, bæði stofnana og einstaklinga, þar sem óskað var eftir gagnrýni á áætlunina og einstaka þætti hennar og tillögum að hugsanlegum úrbótum. Einnig var viðkomandi aðilum formlega boðin þátttaka í fyrirhuguðum rannsóknum og/eða boðið að nýta sér hérlenda aðstöðu til rannsókna í tengslum við væntanlegar veiðar. Þeir rannsóknaraðilar sem haft var samband við eru flestir erlendir vísindamenn sem komið hafa nærri hvalrannsóknum hér á landi á undanförnum árum, auk aðila í nágrannalöndunum sem fengist hafa við rannsóknir á veiðiþoli hvalastofna eða leggja stund á hvalarannsóknir á aðliggjandi hafsvæðum og líklegt var talið að sæju sér hag að samstarfi. Hafrannsóknastofnuninni hafa nú þegar borist svör um 30 aðila varðandi þetta og voru þau ásamt árangri umfjöllunarinnar s.l. sumar grundvöllur endurskoðunarinnar sem unnin var af Hafrannsóknastofnuninni. Helstu niðurstöður endurskoðunarinnar eru þessar:

1. Fallið verður frá áformum um frekari hrefnumerkingar á næstunni, þ.e. talið er að það átak sem ráð var gert fyrir sumarið 1986 og 1987 muni ekki skila þeim árangri sem vænst var vegna takmarkaðra veiða á næstu árum.

2. Efnt verður til umfangsmikillar flugtalningar á hrefnu á öllu íslenska strandsvæðinu í júní og júlí 1986. Niðurstöður tilrauna s.l. haust benda til gagnsemi þessarar aðferðar til að meta stofnstærð hrefnu gagnstætt því sem fram að þessu hefur verið álitið og er því talið rétt að gera þessa tilraun. Verkefnið er talið kosta 1,5-2 millj. kr.

3. Efnt verður til sérstaks leiðangurs tveggja skipa á næsta hausti til stofnathugana, aðallega ljósmyndunar háhyrninga til einstaklingsgreiningar á háhyrningi hér við land. Hér er um að ræða eflingu fyrri áætlana í þessa veru. Rannsóknirnar verða væntanlega unnar í samstarfi við erlenda vísindamenn.

4. Kannaðir verða möguleikar á sérstökum leiðöngrum að sumarlagi árið 1987 eða 1988 í sama tilgangi hvað varðar steypireyði og hnúfubak og jafnvel hrefnu. Til þess þyrfti að útvega hentugt skip sem er ódýrt í rekstri vegna þess hvað vertíð tæki langan tíma. Vitað er um áhuga erlendra aðila á þátttöku í verkefninu og ræðst framkvæmd þess að nokkru af undirtektum þeirra.

5. Ákveðið hefur verið að koma á fót auknum rannsóknum á erfðaefni stórhvala í tengslum við rannsóknir sem í gangi eru og fyrir voru í áætluninni. Er gert ráð fyrir að þessar rannsóknir, sem framkvæmdar verða í samvinnu við sænska aðila, verði mikilvægar til þess að meta niðurstöður annarra rannsókna er miða að greiningu hvala á Norður-Atlantshafi í mismunandi stofna.

6. Í samræmi við tillögur ýmissa aðila verður framkvæmd nokkurra verkefna breytt nokkuð til þess að sem bestur árangur náist. Þetta varðar fyrst og fremst tæknilega útfærslu, svo sem bættar aðferðir við aldursgreiningu hvala, mælingar á fæðuþörf, orkubúskap stórhvala o.fl.

7. Kannað verður hvort hægt er að nota bergmálstalningu við stórhvali í fyrirhuguðum leiðöngrum áríð 1987 og leitað samstarfs erlendra og innlendra aðila í þessu sambandi.

8. Reynt verður að þróa aðferðir til að afla mikilvægra líffræðilegra sýna af stórhvölum á hafi úti, þ.e. sýna sem mikilvægt er að fá ferskari en unnt hefur verið hingað til.

9. Áætlanir um hugsanlegar tilraunaveiðar á friðuðum hvalategundum, svo sem hnúfubak og steypireyði, hafa verið felldar úr áætluninni.

Sem svar við 3. lið: Ofangreind atriði verða kynnt og rædd í Alþjóðahvalveiðiráðinu í maí n.k. og niðurstaðan kynnt hér heima að því búnu.

Sem svar við 4. lið: Endanleg ákvörðun liggur ekki fyrir um það hvort farið verði af stað með hrefnuveiðar í vísindaskyni á þessu ári.

Á s.l. ári var aftur gert bráðabirgðasamkomulag við hrefnuveiðimenn varðandi tilhögun rannsóknaveiða árin 1986-1989. Þar er gert ráð fyrir því að vinnslustöðvar verði tvær, á Brjánslæk og Árskógsströnd, og fjórir bátar stundi veiðarnar. Ef af þessu verður þýðir það að fimm bátar munu láta af þessum veiðum meðan stöðvun hvalveiða varir.

Svar við 5. spurningunni: Íslendingar eru ekki bundnir af þeirri ákvörðun Alþjóðahvalveiðiráðsins sem kveður á um bann við notkun skutuls án sprengihleðslu við hrefnuveiðar í atvinnuskyni, sbr. 6. gr. í fylgiskjali með alþjóðasáttmálanum um skipan hvalveiða. Það hefur hins vegar verið talið sjálfsagt að athuga með notkun á hinum nýja norska sprengiskutli verði ákveðið að hefja veiðarnar. Þessi sprengiskutull er nýjung, norsk hönnun, og hefur verið notaður á norskum hrefnuveiðibátum í tilraunaskyni með góðum árangri. Einnig hafa tilraunir verið gerðar með skutulinn hér á landi.

Ég tel því eðlilegt að hafa ákvæði um notkun hans í samningi, fáist hann keyptur hingað frá Noregi, ef af þessum veiðum verður í ár.