17.03.1986
Sameinað þing: 61. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3152 í B-deild Alþingistíðinda. (2734)

291. mál, hvalarannsóknir

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Út af orðum hv. fyrirspyrjanda um fjölda dýra, þá er það að sjálfsögðu vísindamanna að gera tillögur um hversu mörg dýr eru nauðsynleg í þessu sambandi og það hafa þeir gert. Ég ætla ekki að fara að leggja neinn endanlegan dóm á það. Það hafa hins vegar margir gert án þess að vita mikið um málið, t.d. erlendir aðilar. Að sjálfsögðu er hér um atriði að ræða sem ávallt má deila um.

Hitt er svo annað mál að það er skylda samkvæmt Alþjóðahvalveiðisáttmálanum frá 1946 að nýta þau dýr sem drepin eru, enda verður ekki séð að annað sé skynsamlegt, og ekki síst til að standa undir þeim mikla kostnaði sem er samfara rannsóknum sem þessum og okkar þjóðfélag hefur ekki ótakmarkað fjármagn til að setja í og aðrar þjóðir, sem mestu vilja ráða um þessi mál, hafa engan áhuga fyrir að setja fjármagn í, en aðeins að koma með fullyrðingar um að ekki skuli gera þetta og ekki hitt í málinu.