17.03.1986
Sameinað þing: 61. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3157 í B-deild Alþingistíðinda. (2740)

292. mál, fjármögnun rannsókna á hvalastofninum

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Mér finnast þessar umræður vera eins og bergmál frá þingi Norðurlandaráðs sem fram fór í Kaupmannahöfn núna fyrir stuttu þar sem þessi mál bar einnig á góma og hæstv. sjútvrh., sem svaraði þar fyrir okkur með ágætum, var brugðið um að kunna ekki dönsku. Það var heldur ómerkilegur málflutningur. En það er ekki við öðru að búast kannske frá fulltrúum ýmissa hópa sem halda að matvælin vaxi í stórmörkuðum og gera sér ekki grein fyrir því að maðurinn lifir á því að deyða, því miður.

Það er svo sem hægt að vitna í greinar eftir lærða vísindamenn. En mér er minnisstæður fundur sem Landvernd efndi til í fyrrasumar þar sem komu erlendir vísindamenn til að fordæma þessa ályktun. E.t.v. kann einn þeirra að hafa verið sá sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir vitnaði til. Þessir vísindamenn, sem hingað voru komnir til að fordæma áætlun Íslendinga um vísindalegar veiðar, viðurkenndu jafnframt að þeir hefðu ekki lesið þessa áætlun. Það var lærdómsríkur fundur.