17.03.1986
Sameinað þing: 61. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3159 í B-deild Alþingistíðinda. (2745)

298. mál, erlend leiguskip

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi telur sig vita meira en ráðuneytið gefur til kynna. Ég skal játa að ég hef ekki sannprófað sjálfur hvaða skip og hversu mörg eru. Til þess starfa menn hins vegar í ráðuneytum að þeir eiga að vinna að ákveðnum málum. Þó skal ég ekkert fullyrða um að það sem hv. fyrirspyrjandi sagði sé rangt, en hitt sé rétt sem ég sagði. Ég óskaði aðeins eftir því að fá í hendurnar skýrslu um hvað væri hér af leiguskipum á þessu tímabili. Þessa skýrslu hef ég. Það er ákveðinn starfsmaður í viðskrn. sem vann að svari þessarar fsp.

Nú er það líka til í dæminu að við neitum skipafélögum alfarið um að taka skip á leigu til langs tíma. Það þarf ekki að þýða að það komi skip með íslenskri áhöfn í staðinn ef skipafélögin treysta sér ekki til að kaupa skip sem verði mannað íslenskri áhöfn. Það getur því gengið út yfir flutninga. Það er því matsatriði hvort menn framfylgja því svo hart eftir eins og mér skildist að hv. fyrirspyrjandi teldi rétt að gera.

En ég tel að það sé allmikill munur á því sem verið hefur og því sem er núna. Þá geng ég auðvitað út frá því að þær upplýsingar sem ég hef frá starfsmanni ráðuneytisins séu réttar. Komi annað í ljós er skylt að leiðrétta það, ef þessar upplýsingar eru ekki réttar, en á meðan ég hef það ekki vil ég ekki vefengja upplýsingarnar.