31.10.1985
Sameinað þing: 10. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í B-deild Alþingistíðinda. (275)

8. mál, úttekt á aðstæðum barna

Flm. (Kristín S. Kvaran):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um úttekt á aðstæðum barna að 12 ára aldri. Flm. eru Kristín S. Kvaran, Kolbrún Jónsdóttir, Kristín Halldórsdóttir, Guðrún Agnarsdóttir og Sigríður Dúna Kristmundsdóttir. Tillagan er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta rannsaka aðstæður barna að 12 ára aldri. Eftirfarandi atriði verði m.a. höfð til hliðsjónarvið athugunina:

1. Fyrirliggjandi úttekt á launakjörum forgangshópa sem aðgang hafa að dagvistarheimilum.

2. Gerð verði ítarleg könnun á hlutfalli vinnu beggja foreldra þessara barna utan heimilis.

3. Fram komi í rannsókninni á hve mörgum stöðum (hjá dagmæðrum eða dagvistarheimilum) og hjá hve mörgum aðilum börnin hafa notið umönnunar og uppeldis á meðan vinna foreldra utan heimilis fer fram.

4. Hvort rekja megi hin mörgu slys á börnum í umferðinni til þeirra aðstæðna sem þau búa við á þessu aldursskeiði.“

Virðulegi forseti. Það skal fullyrt hér að aðstæður barna hafa gerbreyst á skömmum tíma svo mjög til hins verra að full ástæða er til þess að ráðamenn þessarar þjóðar fái um það örugga vitneskju þannig að þær aðgerðir, sem teljast verða nauðsynlegar í kjölfar athugunarinnar, verði sem raunhæfastar og markvissastar. Best hefði auðvitað verið að um hefði verið að ræða frumkvæði ríkisstj. þannig að það væri alveg á hreinu að það væri raunverulegt markmið hennar að taka tillit til þessara þegna landsins og að það væri raunverulegt markmið hennar og vissa að þessir þegnar hlytu að teljast vera framtíð þessarar þjóðar.

Nú er svo komið að fjölskyldan er í raun og veru orðin að neyslueiningu sem kölluð er, þ.e. að fólk, fullorðnir og börn, sefur og borðar í sama húsi en ekkert endilega á sama tíma og það vantar algerlega einhverja samfellu í samveru þessa fólks. Það að aðstæðurnar hafa breyst svo mjög má e.t.v. að hluta rekja til þeirrar öru þróunar sem orðið hefur á því að konur hafa farið að vinna utan heimilis. Nú vinna u.þ.b. 80% kvenna utan heimilis. Það segir okkur í raun og veru alla söguna um það hvernig aðstæður þeirra barna eru sem áður fyrr nutu samvista við móður sína eftir að skóladegi var lokið og á milli tíma frá skóla þar sem ekki hefur verið um samfelldan skóladag að ræða.

Einnig hefur orðið umtalsverð aukning á fjarveru beggja foreldra frá heimili vegna mikillar aukningar á vinnu foreldra og allri yfirtíð. Þetta er allt saman ótvírætt.

Þar fyrir utan er um að ræða mjög mikla pressu á foreldrum ungra barna alla vega með það að ekki eru til nægilega mörg dagvistarheimili. Það er sífelld breyting sem á sér stað frá einni dagmömmunni til annarrar og eða frá einni fóstru eða starfsmanni til annars á dagvistarheimilum. Þetta hefur í för með sér þvílíkt rót að afleiðingar þess eru ófyrirséðar á barnið á þessum þroskaferli þess.

Sú festa, sem í raun er nauðsynleg í umhverfi barna og var til staðar þar til fyrir u.þ.b. 15 árum er þar fór að verða veruleg breyting á, er alveg að hverfa ef ekki nánast alveg. Það þarf auðvitað að búa aðstæður barna þannig úr garði í þessu þjóðfélagi að börn og foreldrar fái notið nálægðar og samveru í þeim mæli að þau geti haft tækifæri og það raunverulegt tækifæri til að kynnast hvert öðru. Það samband, sem byggist á tryggum grunni, gerir það auðveldara að takast á við og jafnvel rétta af þær misfellur sem hugsanlega geta orðið á og fram kunna að koma í tengslum við unglingsárin.

Foreldrar og börn verða að fá tækifæri til að kynnast og foreldrar verða að fá tækifæri líka til að fylgja þessum kynnum vel eftir. Tilgangurinn með flutningi þessarar till. er að vekja athygli stjórnvalda á því hve nauðsynlegt það er að bregðast skjótt við þessari öru þjóðfélagsbreytingu og þeirri þróun sem átt hefur sér stað. Það þarf að gera athuganir á þessari þróun og sjá til þess að þar verði allar hugsanlegar breytur teknar með inn í myndina svo að unnt sé að fá út sem heildstæðasta mynd. Ég vil taka alveg sérstaklega til, svo að það komi fram, að þar þarf að koma fram allt sem hugsanlegt er varðandi umferðaröryggi barna.