17.03.1986
Sameinað þing: 61. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3163 í B-deild Alþingistíðinda. (2751)

299. mál, byggðanefnd þingflokkanna

Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Jafnvægi í byggð landsins - líklega kannast menn við þetta orð. Ætli menn kannist ekki líka við orðið frá gengnum ríkisstjórnum og núv. hæstv. ríkisstj. um jöfnun aðstöðu í dreifbýli miðað við þéttbýli, jöfnun á atvinnuuppbyggingu í dreifbýli miðað við það sem er hér á þéttbýlissvæðum og fleira mætti upp telja.

Hvernig eru stödd þessi mál í dag? Þau hafa verið hér til umræðu nokkuð áður og ekki ástæða til þess að orðlengja mjög um það nú, enda ekki tími til í fyrirspurnatíma, en ljóst er að fólkstilflutningur er mikill milli landsvæða. Fólki fækkar í dreifbýlinu og það flykkist á Stór-Reykjavíkursvæðið. Daglega fjölgar þeim íbúðarhúsum sem yfirgefin eru úti á landsbyggðinni og fólk flytur á þetta þéttbýlissvæði, skilur eignirnar eftir. Ég hygg að öllum sé orðið ljóst að það þarf að vinna bráðan bug að að snúa þessu dæmi við.

Auðvitað eru til þessa margar orsakir. Það er röng stjórnarstefna undangenginna ára með tilflutningi fjármagns frá dreifbýli til þéttbýlis. Það er innflutningur á erlendu fjármagni í uppbyggingu á Stór-Reykjavíkursvæðinu, ekki úti á landsbyggðinni. Kvótakerfið er stór þáttur í þessu líka og hefur sín áhrif á hinum ýmsu landsvæðum og einnig fjöldamargt annað, eins og t.d. kostnaður við heimilishald sem er miklum mun dýrara í dreifbýlinu en í þéttbýlinu á höfuðborgarsvæðinu. Allt vegur þetta svo þungt að dreifbýlisfólk unir ekki lengur sínum hag úti á landsbyggðinni og flytur unnvörpum hér á þéttbýlissvæðin.

Þessi þróun er ekki til góðs, ekki heldur Reykjavíkursvæðinu. Það þarf líka að huga að því. Það er ekki til góðs að fólk flykkist frá framleiðslustöðunum hingað á Reykjavíkursvæðið.

Á 105. löggjafarþingi árið 1982-1983 var lagt fram frv. og samþykkt að ég hygg á því þingi, hið svokallaða formannafrumvarp um breytingu á kosningalögum. Í grg. þessa frv. segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Að beita sér fyrir aukinni valddreifingu og virkara lýðræði samhliða afgreiðslu nýrrar stjórnarskrár.“

Við vitum nú um hið virkara lýðræði með samþykkt frv. í gær um sveitarstjórnir. Við vitum hvar valddreifingin var þar og höfum það í hendi nú með samþykki minna en helmings þingdeildarmanna.

„M.a. fái sveitarfélög meira sjálfsforræði og þannig verði völd og áhrif landsmanna allra í eigin málum aukin óháð búsetu þeirra. Jafnframt munu þingflokkarnir“ - og það er aðalatriðið varðandi þessa umræðu - „beita sér fyrir sérstökum aðgerðum til þess að jafna félagslega og efnalega aðstöðu manna þar sem mismununar vegna búsetu gætir helst.“

Vorið 1984 var skipuð nefnd í þetta mál til að fjalla um þessi meginverkefni, til að jafna búsetu og aðstöðu manna í landinu. Hæstv. forsrh. ber ábyrgð á þessari nefnd. Áður hafa verið skipaðar nefndir álíka og litlu sem engu komið í verk að því er þetta varðar. Þess vegna hef ég leyft mér að spyrja hæstv. forsrh. eftirfarandi spurningar, með leyfi forseta:

„Hvað líður störfum byggðanefndar þingflokkanna sem sett var á laggirnar vorið 1984 og gera á tillögur um sérstakar aðgerðir til þess að jafna félagslega og efnalega aðstöðu manna þar sem mismunar vegna búsetu gætir helst?"