17.03.1986
Sameinað þing: 61. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3164 í B-deild Alþingistíðinda. (2752)

299. mál, byggðanefnd þingflokkanna

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Áður en ég kem að sjálfri fsp. vil ég segja að það er vafasamt að ég beri ábyrgð á störfum þessarar nefndar. Hún var, eins og kom fram í orðum hv. fyrirspyrjanda, skipuð samkvæmt ákvörðun þingflokkanna. Hins vegar dróst það mjög og ég tók af skarið og beitti mér fyrir því að nefndinni var komið á fót.

Ég lét senda fsp. til formanns nefndarinnar, Lárusar Jónssonar bankastjóra, og það svar sem ég les hér á eftir er frá honum komið. Þar segir, með leyfi forseta:

„Byggðanefnd þingflokkanna var skipuð í kjölfar afgreiðslu Alþingis á frv. til breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins á 105. löggjafarþinginu. Markmið nefndarinnar er að fylgja eftir samkomulagi formanna þeirra stjórnmálaflokka sem þá áttu fulltrúa á Alþingi og sem birt var í grg. með frv. Verkefni nefndarinnar er þar lýst svo að þingflokkar sem að frv. þessu standa hafi orðið ásáttir um eftirfarandi:

Að beita sér fyrir aukinni valddreifingu og virkara lýðræði samhliða afgreiðslu nýrrar stjórnarskrár. M.a. fái sveitarfélög meira sjálfsforræði og þannig verði völd og áhrif landsmanna allra í eigin málum aukin óháð búsetu þeirra. Jafnframt munu þingflokkarnir beita sér fyrir sérstökum aðgerðum til þess að jafna félagslega og efnalega aðstöðu manna þar sem mismunar vegna búsetu gætir helst.

Forsrh. beitti sér fyrir nefndarskipan á vegum þingflokkanna til að vinna að verkefninu og ýtti því úr vör. Í nefndina voru skipaðir eftirtaldir: Lárus Jónsson Sjálfstfl., formaður, Eiður Guðnason Alþfl., Helgi Seljan Alþb., Kristín Halldórsdóttir Kvennalistanum, Ólafur Þ. Þórðarson Framsfl. og Stefán Benediktsson Bandalagi jafnaðarmanna.

Nefndin tók til starfa í byrjun sumars 1984 og hefur hún haldið 20 fundi. Á fyrstu fundunum var ákveðið að leita til byggðadeildar Framkvæmdastofnunar eftir sérfræðilegri aðstoð og ritaraþjónustu. Hafa Bjarni Einarsson, nú aðstoðarforstjóri Byggðastofnunar, og Sigurður Guðmundsson, nú forstöðumaður þróunarsviðs sömu stofnunar, setið fundi nefndarinnar. Við gerð lokaskýrslu sinnar hefur nefndin auk þess notið aðstoðar Kristófers Óliverssonar doktorsefnis í landafræði og áætlanagerð við háskólann í Lundi.

Í stórum dráttum má skipta verkefni nefndarinnar í tvennt. Er þar annars vegar um þann þátt að ræða sem nefna mætti valddreifingu og virkara lýðræði. Hinn þátturinn fjallar um byggðajöfnunaraðgerðir.

Eðli málsins samkvæmt hóf nefndin starf sitt að fyrri málaflokknum. Enda þótt fyrirspyrjandi biðji um upplýsingar um seinni þátt nefndarstarfsins þykir rétt samhengisins vegna að gera örstutta grein fyrir öllu starfi nefndarinnar til þessa dags.

Ljóst er að ein ástæðan fyrir þeirri auknu umræðu sem átt hefur sér stað um valddreifingu og virkara lýðræði eru þær breytingar sem fyrir dyrum standa á vægi atkvæða til kosninga til Alþingis. Það stjórnsýslukerfi sem við búum við í landinu er hins vegar þannig að ekki er auðvelt að taka ákveðna þætti valds og opinberrar umsýslu og fela það í hendur sveitarfélögum eða sýslunefndum. Til þess eru of mörg sveitarfélög allt of lítil. Sýslunefndirnar eru ekki í miklum tengslum við stjórnsýslu að öðru leyti, auk þess sem kaupstaðir eiga þar ekki fulltrúa.

Af þeim athugunum sem nefndin hefur gert um fyrri hluta verkefnisins eru nefndarmenn sammála um að virkara lýðræði og aukinni valddreifingu verði ekki komið á nema með breytingu á stjórnkerfi ríkis og sveitarfélaga. Samhliða því sem unnið er að athugunum á stjórnsýslufyrirkomulaginu var ákveðið að skrifa þingflokkunum bréf til að fá fram afstöðu þeirra til ákveðinna meginatriða í skipan stjórnsýslu í landinu. Í bréfinu eru þingflokkarnir spurðir um afstöðu til þess hversu mörg stjórnsýslustig eigi að vera í landinu, hversu stór minnstu sveitarfélögin eigi að vera, hvernig eigi að vera háttað kosningarreglum, verkefnum og tekjustofnum hugsanlegs miðstigs stjórnsýslunnar.

Formleg svör bárust frá Alþfl. og Kvennalista. Bandalag jafnaðarmanna lagði fram á 107. löggjafarþingi till. til þál. um gerð frv. til stjórnarskipunarlaga um fylkisstjórnir og svaraði með því að senda nefndinni þá tillögu. Alþb. svaraði munnlega á fundum nefndarinnar, en frá Framsfl. og Sjálfsttl. hafa ekki borist svör.

Á sama tíma og byggðanefnd þingflokkanna hefur verið að störfum hefur Alþingi haft til meðferðar stjórnarfrumvarp til sveitarstjórnarlaga. Þar hefur ekki verið tekist á við það verkefni að breyta stjórnkerfi ríkis og sveitarfélaga. Byggðanefnd þingflokkanna mun þó leitast við að setja fram ábendingar um þetta úrlausnarefni. Varðandi þennan málaflokk verður reynt að gera þingflokkunum grein fyrir þeirri þróun sem orðið hefur og hversu vel eða illa núverandi kerfi stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga er fallið til að koma megi við dreifingu valds og virkara lýðræði. Nefndin mun gera þingflokkunum grein fyrir hættu á vaxandi byggðaröskun næstu ár vegna sérstakra aðstæðna í þjóðarbúskapnum og hugmyndum um aðgerðir sem til greina koma til jöfnunar búsetu. Stefnt er að því að þingflokkar fái skýrslu nefndarinnar til athugunar með vorinu.“

Þetta er svar formanns nefndarinnar. Til viðbótar vil ég taka fram að bréf nefndarinnar var rætt í Framsfl. og þar eru mjög skiptar skoðanir um ýmis þau atriði sem beðið var um svör við. Ég harma að ekki hefur verið svarað bréflega, en fulltrúi flokksins í nefndinni þekkir skoðanir sem þar komu fram.

Ég vil svo að lokum taka eindregið undir það sem hv. þm. lýsti hér og áhyggjur hans vegna þeirrar röskunar sem orðið hefur upp á síðkastið á byggð í landinu. Ég skil að menn velti því fyrir sér hvernig slíkt hefur orðið þegar þess er gætt hvað mikið hefur í raun verið gert á undanförnum árum til að lagfæra þá undirstöðu sem verður að vera. Vegakerfi landsins hefur verið gjörbreytt og lagað. Það er kominn sjálfvirkur sími á alla sveitabæi. Það eru komnar heilsugæslustöðvar og sjúkrahús víðast hvar um landið skv. lögum frá 1973. Skólar hafa risið, menntaskólar, fjölbrautaskólar. Þannig mætti lengi telja. En þrátt fyrir þetta hefur orðið verulegur flutningur til þéttbýlisins og það er þjóðinni í heild áreiðanlega ekki hollt.

Ég held að þetta stafi fyrst og fremst af því að undanfarin 2-3 ár hefur meginatvinnuvegur þjóðarinnar og sá sem strjálbýlið byggir meira á en þéttbýlið, þ.e. sjávarútvegur, verið í mikilli lægð. Nákvæmlega það sama gerðist árin 1967-1968 þegar lægð var í sjávarútvegi. Þá var einnig mjög mikill flutningur frá strjálbýli til þéttbýlis. Vonandi er þetta nú að snúast við og vonandi verður þá breyting á þessu. Ég segi vonandi því að sjálfsögðu getur maður ekki spáð um það neinu fyrir fram. En þó er vert að hafa þetta í huga.

Að lokum vil ég segja að ég fagna því að nefndin hyggst gefa skýrslu með vorinu og verður fróðlegt að sjá hvað þar er lagt til í þessu mikilvæga máli.