17.03.1986
Sameinað þing: 61. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3167 í B-deild Alþingistíðinda. (2755)

299. mál, byggðanefnd þingflokkanna

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Það er vissulega mjög eðlilegt að spurt sé um störf þessarar nefndar og rétt er það að langur tími leið þar á milli funda. Ég hygg að það eigi sér kannske fleiri skýringar og hugsanlega þær líka að formaður nefndarinnar var orðinn bankastjóri Útvegsbankans, bankans sem lenti síðan í erfiðleikum sem öllum eru kunnir, og má vera að það hafi líka haft áhrif á það að fundir voru ekki jafnmargir og kannske áttu að vera.

Ég tek undir það með hv. 2. þm. Austurl., Helga Seljan, að vissulega höfum við íhugað það ýmsir í þessari nefnd að segja okkur hreinlega úr henni. Í fyrsta lagi vegna þess að stjórnarflokkarnir sáu ekki ástæðu til að svara spurningum nefndarinnar um fyrirkomulag stjórnskipunar hér á landi. Hvorki Sjálfstfl. né Framsfl. hafa séð ástæðu til þess. Eins og fram hefur komið hefur fulltrúi Framsfl. í þessari nefnd fært þinginu nýja stjórnarskrá. Þá hlýtur enn og aftur að vera ástæða til að íhuga hvað þessi nefnd er yfirleitt að gera.

Ég hef hins vegar viljað sýna biðlund enn um sinn vegna þess að á vegum nefndarinnar hefur verið safnað margvíslegum gögnum og upplýsingum, sem ég hygg að geti verið leiðbeinandi í þessum efnum, og eins og hér hefur verið vikið að þarf þeim ekki að koma það á óvart, hæstv. forsrh. og hv. fyrirspyrjanda, að svona nefndir þurfi nokkurn tíma því að báðir sitja þeir í nefnd sem enn er að forminu til starfandi og fjallar um þessi sömu mál. En ég held að í ljósi þess sem hefur gerst og hefur verið að gerast varðandi þessa nefnd sé virkilega ástæða til þess að íhuga hvort stjórnarandstaðan á yfirleitt að halda áfram þátttöku í henni eftir að fulltrúi annars stjórnarflokksins hefur lagt fram nýja stjórnarskrá, sjálfsagt að einhverju leyti í nafni síns flokks, eins og hér hefur komið fram.