17.03.1986
Sameinað þing: 61. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3170 í B-deild Alþingistíðinda. (2760)

290. mál, verðbætur á innlán og útlán banka

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Í aðalatriðum eru kjör útlána og innlána þrenns konar. Í fyrsta lagi getur verið um almenna vexti að ræða sem skipt er í raunvexti og verðbótaþátt. Í öðru lagi eru vísitölubundin innlán og útlán og í þriðja lagi eru gengisbundin kjör.

Hin almenna regla er að hærri vextir og verðbætur séu fyrir útlán en innlán. Með því móti skapa innlánsstofnanir sér vaxtamun sem skilar tekjum umfram gjöld upp í rekstrarkostnað og hagnað. Ekki er nóg að líta á nafnvexti til að geta metið hversu há ávöxtunin er, heldur þarf jafnframt að gæta að tíðni vaxtaviðlagninga og öðrum útreikningsreglum um vexti og verðbætur.

Mikil fjölbreytni er í tegundum útlána og innlána. Taka kjörin að miklu leyti tillit til forms og binditíma eða lánstíma. Hin almenna regla, sem áður var nefnd, að hærri ávöxtun sé á útlánum en innlánum, gildir þegar á heildina er litið. Sé hins vegar litið á kjör einstakra innlána- og útlánategunda kemur fram að einstaka innlánsform geta hæglega skilað meiru til sparifjáreigandans en innilánsstofnunin fær í tekjur af þeim útlánsformum sem minnst gefa af sér. Það má því segja að um litróf vaxta og verðbóta sé að ræða bæði í innlánum og útlánum. Breytingar á nafnvöxtum, verðlagi og gengi erlendra gjaldmiðla eru sífellt að breyta innbyrðis afstöðu kjara og ólíkra forma.

Einnig ber að hafa í huga að innlánsfé fjármagnar aðeins hluta útlána hjá bönkum og sparisjóðum. Margir fleiri þættir koma því inn í afkomumynd þeirra, svo sem staðan við Seðlabanka, erlend viðskipti og þóknunartekjur.