17.03.1986
Sameinað þing: 61. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3170 í B-deild Alþingistíðinda. (2762)

290. mál, verðbætur á innlán og útlán banka

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Mig langar til að beina einni fsp. til hæstv. viðskrh. Ég þykist hafa orðið þess var að meðferð á verðbótum sé alveg sín með hvorum hættinum eftir því hvort um útlán eða innlán er að ræða.

Ef maður leggur 100 kr. inn á verðtryggðan reikning og það er 30% verðbólga eru þær orðnar 130 í árslok, sýnist manni. Síðan eru 5% vextir. Mér virðist að þeir vextir séu reiknaðir á hinar upprunalegu 100 kr. þannig að samtals eru þetta 135 kr., ef um innlán væri að ræða, þ.e. upphæðin, vextirnir, sé reiknuð á upphæðina í ársbyrjun.

Ef hins vegar er um útlán að ræða, lán sem almenningur hefur tekið, er reikniaðferðin önnur. Þá bætast þessar 30 kr. á 100 kr. fyrst og síðan eru reiknaðir vextir af þeirri upphæð og ef vextirnir væru 5% færi sú upphæð upp í 136,50 kr. í staðinn fyrir að ef um innlán væri að ræða færi hún upp í 135 kr.

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. viðskrh.: Telur hann eðlilegt að aðferðin sé sín hvor við útreikning á vöxtum á verðtryggðum reikningum eftir því hvort um innlán eða útlán er að ræða, eins og ég hef lýst, þannig að vextirnir reiknist á upphæðina í upphafi ársins þegar um innlán er að ræða en á hina uppfærðu upphæð þegar um útlán er að ræða, það sem fólkið þarf að borga?