17.03.1986
Sameinað þing: 62. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3177 í B-deild Alþingistíðinda. (2782)

Iðgjöld bifreiðatrygginga

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég tel að þær miklu hækkanir sem orðið hafa á iðgjöldum bifreiðatrygginga á undanförnum árum kalli á að fyrirkomulag iðgjaldaákvarðana verði allt tekið til rækilegrar endurskoðunar. Frá því var greint í einu dagblaði að iðgjöld hafi á s.l. 12-13 árum hækkað um 900% umfram verðlagsþróun og á þriggja ára tímabili, árin 1983, 1984 og 1985, eða frá því iðgjöld voru gefin frjáls hafi þau hækkað um 206%. Ég tel að það samráð sem tryggingafélögin hafa haft sín á milli frá því að iðgjöldin voru gefin frjáls sé mjög óeðlilegt og að ríkisstj. beri skylda til að grípa í taumana þegar tryggingafélögin hafa slíkt samráð sín á milli til að knýja fram miklar hækkanir á iðgjöldum sínum. Það hefði verið nauðsynlegt að fá fram hjá hæstv. trmrh. við þessa umræðu hver sé afstaða ráðherrans til þessa samráðs tryggingafélaganna og hvort ráðherrann telji að það samræmist eðlilegum tilgangi frjálsrar verðmyndunar að tryggingafélögin hafi samráð sín á milli um iðgjaldaákvarðanir.

Þar sem hæstv. trmrh. er ekki viðstaddur þessa umræðu hefði auðvitað verið eðlilegast að fresta henni þannig að trmrh. gæti setið fyrir svörum varðandi þetta mál. Nú veit ég ekki hvort hæstv. viðskrh. gæti svarað þessum spurningum. Þessi málaflokkur fellur að hluta til undir hans málaflokk líka. Ég vil minna á í þessu sambandi að Neytendasamtökin hafa sett fram þá kröfu að iðgjaldaákvarðanir tryggingafélaganna verði settar undir strangt verðlagseftirlit og FÍB hefur hreinlega ósk:að eftir ríkisafskiptum og verðlagseftirlitið ef vátryggingafélögin geti ekki stillt hækkunum sínum í hóf.

Ég spyr hæstv. viðskrh., þar sem hann er hér staddur einn ráðherra, hvort hann telji ekki rétt að fella iðgjaldaákvarðanir undir ákvæði laga um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti eða með öðrum hætti að setja iðgjaldaákvarðanir undir strangara verðlagseftirlit, sérstaklega í ljósi þess samráðs sem tryggingafélögin hafa haft um þetta mál.

Ég vil einnig við þessa umræðu vekja athygli á því sem fram kom í Helgarpóstinum nýlega, en þar er því haldið fram að útreikningar og gögn sem tryggingafélögin leggi fyrir tryggingaeftirlitið séu vægast sagt mjög vafasöm, en tryggingaeftirlitið metur hækkunarþörf á grundvelli þeirra gagna sem tryggingafélög leggja fram. Við það er m.a. miðað að iðgjöld nægi til að mæta tjónakostnaði, en í Helgarpóstinum er því haldið fram að tjón séu bókfærð með söluskatti sem tryggingafélögin greiði ekki. Mismunur á raunverulegum tjónakostnaði tryggingafélaganna og útreikningum um tjónakostnað sem lagðir eru fyrir tryggingaeftirlitið skipti því árlega tugum milljóna króna og geti haft veruleg áhrif til hækkunar í iðgjaldaákvörðunum.

Því hefði auðvitað verið nauðsynlegt að fá fram hjá hæstv. trmrh. í ljósi þessara upplýsinga hvort ráðherrann teldi ekki rétt að láta kanna réttmæti þeirra útreikninga sem tryggingafélögin hafa lagt fram fyrir tryggingaeftirlitið. Ef hæstv. forseti telur að ekki sé fært að fresta þessari umræðu þar til ráðherra hefur tök á því að svara þessum spurningum sem ég hef lagt fram mun ég leggja fram formlega fsp. um þetta efni.