17.03.1986
Sameinað þing: 62. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3181 í B-deild Alþingistíðinda. (2788)

Iðgjöld bifreiðatrygginga

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Hér gerast æðistórir atburðir. Ég kveð mér hljóðs til þess að vekja á því athygli. Ég hef lengi verið viðloðandi þetta þing, fyrst sem varaþm. og síðar sem alþm., en ég minnist þess ekki að atburður á borð við þennan hafi hér gerst, að stjórn Alþýðusambands Íslands færi einum höfuðandstæðingi þeirra flestra, a.m.k. sem í stjórninni eru, (Gripið fram í: Þetta er alger misskilningur.) (KP: Þetta er rangt.) færi þeim - fyrrverandi skulum við segja, en þetta er ekki grínmál, þvert á móti. Og að einn aðalforustumaður í verkalýðshreyfingunni og pólitískur andstæðingur minn og pólitískur andstæðingur hæstv. viðskrh. skuli hér koma til að færa honum þakkir. Hann á þær þakkir skildar.

Það sem gerðist í Garðastræti voru merkilegir atburðir. Menn hafa verið að gantast með það að þetta hafi gerst í Garðastræti rétt eins og okkur sjálfstæðismenn mundi svíða undan því. Hví skyldi ekki sáttfýsi, frjáls lyndi og sanngirni einmitt hafa komið úr húsi Ólafs Thors? Það getur vel verið að það sé tilviljun, en það hryggir engan sjálfstæðismann. Það er núna loks eftir 15 ára vandræði, verðbólgu og erfiðleika að undir það hillir að hér takist að koma á svipuðu heilbrigðu þjóðskipulagi og nágrannaþjóðirnar hafa getað byggt upp. En það verður ekki nema atburðir eins og þeir sem gerðust við hækkun trygginganna verði teknir til umræðu og skoðunar. Og það eru fullkomin rök að þegar bifreiðar lækka í verði þá hljóti tilkostnaður, viðgerðir, að lækka og þess vegna er það vel að um þetta skuli vera rætt. Ef atvinnureksturinn, einkaframtakið, félagsreksturinn bregst þannig við nú að dengja yfir hækkunum, þá er vissulega illa komið í þessu þjóðfélagi. Hlutur verkalýðsins liggur ekki eftir. En hlutur atvinnurekendanna gerir það ekki heldur, þeir eiga að lækka.

En það sem verst er af öllu er að það liggur eftir að losa um peninga úr bankakerfinu. Þar sem peningar eru frystir og eignir manna verða við það svo verðlitlar að þær standa ekki fyrir lántökum og menn hafa tapað gífurlegum fjármunum. Það liggur eftir og það er á valdi hæstv. viðskrh. að gera þar á bragarbót. Hann þarf ekki annað en segja þeim í bankakerfinu að gefa út nægilega peninga, þannig að hér verði ekki okurvextir. Það gengur nefnilega ekki upp að hafa frjálsa vexti og enga peninga í umferð. Það er um að ræða tvær gagnstæðar stefnur og við höfum sopið af því seyðið, sérstaklega unga fólkið sem hefur verið að byggja. Það verður að losa um íslenska peninga og hætta að taka stöðugt erlend lán. Peningar eru ekkert annað en ávísanir á verðmæti. Þeir voru áður ávísanir á gull, sem er einskis virði, hringurinn minn gæti t.d. alveg eins verið úr einhverjum allt öðrum málmi. Peningar eru ávísanir á þjóðarauð og þjóðarauður Íslendinga hefur aldrei verið meiri en nú. Þarna þarf að taka til hendinni og þá verður verðbólgan kveðin algerlega niður og þá munu atvinnuvegirnir blómgast og þá munu launin hækka mikið, ég segi að þau þurfi að hækka gífurlega mikið vegna þess að Ísland er láglaunaland.